Grænt – Í sumarið

Sumarið er tíminn fyrir ferðalög og útiveru. Í sumarblaðinu okkar sem kemur út 28. júní n.k. tókum við saman nokkrar af okkar uppáhalds grænu vörum sem eru fullkomnar inn í sumarið. Þær eiga það allar sameiginlegt að vera vistvænar og náttúrulegar, góðar fyrir bæði okkur og umhverfið. Hér gefum við lesendum ibn.is smá forskot á sæluna með broti úr blaðinu.

SUNSAFE
-sólarvörn

Sólin veitir okkur varma og vítamín og er góð fyrir bæði líkama og sál. Flest okkar njóta sólarinnar eins mikið og hægt er að sumri til og þá er mikilvægt að nota góða sólarvörn til að verja húðina. Sunsafe-sólarvörnin er 100% náttúruleg án allra skaðlegra aukaefna. Hún er einstaklega nærandi fyrir húðina og inniheldur jojoba-olíu, kókossmjör og repju-olíu. Sólarvörnin fæst í mismunandi styrkleika og er örugg fyrir sjávarlífríkið þar sem engin skaðleg efni finnast í henni.

Fæst í Mixmix Reykjavik
Sun Safe SPF 15 kr. 4.790
Sun Safe SPF 30 kr. 5.790


WRAPPA
vegan vaxhúðaðar matarumbúðir

Wrappa er vaxhúðuð örk sem er tilvalin til þess að nota í stað nestispoka, álpappírs eða annarra plastumbúða. Arkirnar henta þeim sem eru vegan en vaxið er búið til úr trjákvoðu og jojoba-olíu, og er síðan borið á lífrænan bómul. Örkin verndar matinn, leyfir honum að anda og endist í heilt ár með góðri umhirðu. Wrappa-umbúðirnar mega að lokum fara með lífræna úrganginum. Örkin brotnar niður hratt í náttúrunni og leysir engin eiturefni út í niðurbrotsferlinu.

Fæst í Mena
Verð frá: 2.790kr


A Slice of Green
margnota stálílát

Vefverslunin Mena býður upp á ótal umhverfisvænar og náttúrulegar vörur fyrir bæði líkama og heimili. Þessi fallegu margnota stálílát eru fullkomin til að taka með í útileguna, henta fyrir nesti eða til að geyma matarafganga í inni í ísskáp. Þau eru framleidd á ábyrgan hátt í Indlandi og eru gerð úr ryðfríu stáli; án plasts, þalata, BPA og blýs. Ílátin endast í mörg ár og koma í alls kyns stærðum, gerðum og meira að segja í hæðum.

Fæst í Mena
Verð frá: 2.690kr


LangerChen
regnkápa

Þar sem íslensk sumur geta verið óútreiknanleg er mikilvægt að eiga góða regnkápu. LangerChen er vistvænt merki sem byggir á þýsk-kínversku samstarfi. Regnkápan er úr lífrænni bómull með sérstakri himnu þannig að efnið andar og veitir skjól í regni og gegn vindi. Hún er bein í sniði og með rúmgóðum vösum. Koparsmellur eru að framan og neðan á ermum til þrengingar. Kápan fæst í mörgum fallegum litum.

Fæst í Org
Verð: 25.900 kr.


Matt & Nat
bakpoki

Matt & Nat er vegan merki sem framleiðir úr endurunnum efnum. Þessi fallegi bakpoki er fullkominn til að taka með í ferðalög sem handfarangur. Hann er með stórt hólf að ofan, sem opnast með rennilás og lítill vasi er að framan. Bakpokinn getur rúmað 13″ fartölvu, lokaður rennilásavasi er að innanveran og einnig fyrir snjallsíma. Framleiðendur Matt & Nat leita stöðugt að nýjum leiðum við framleiðslu á vistvænum vörum og eru allar vörur þeirra því vegan og umhverfisvænar.

Fæst í Org
Verð: 21.900 kr.


Ripple Yoga
jógasamfestingur

Systrasamlagið er ekki aðeins yndislegt kaffihús heldur líka heilsubúð, þar sem hægt er að finna alls kyns jógavörur, m.a. Ripple Yoga, sem er nýtt jógafatamerki á Íslandi. Samfestingurinn er gerður úr fjórofinni lífrænni bómull, og er settur saman úr tveimur vinsælustu flíkum merkisins. Djúpir vasar eru á vel sniðnum buxunum og er efnið teygjanlegt á alla kanta. Þykkt og mjúkt misttisband heldur svo samfestingnum á sínum stað, sem gerir hann einstaklega þægilegan fyrir jógaiðkun og er hann tilvalinn til að taka með í fríið. Samfestingurinn fæst í mörgum litum.

Fæst í Systrasamlaginu
Verð: 22.900 kr.


NÚS/NÚS
– Nestiskarfa

Að borða úti að sumri til er eitthvað sem við Íslendingar mættum gera meira af þegar veður er gott. Þá er um að gera að pakka dúk eða teppi, góðum drykkjum og snarli í góða tösku og skunda af stað! Þessi fallega nestistaska frá íslenska og marokkóska fjölskyldufyrirtækinu Nús/Nús er tilvalin með í alls kyns flakk. Hún er handofin úr pálmalaufum og því eins náttúruleg og gerist best.

Fæst í Nús/Nús
Verð: 6800 kr.


Umsjón: Ásta Karen Ágústsdóttir

Tögg úr greininni
, , , ,

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.