Uppskrift vikunnar er grillaður lax og meðlæti búið til úr rótargrænmeti og sambland af kryddum sem kemur bragðlaukunum á óvart!
Grillaður lax með salvíu og chili smjöri
Handa 6
1,2 kg laxaflak
salt og pipar
smávegis af olíu
Salvíu- og chili smjör
1 hvítlauksrif, kramið
4 msk. smjör
½ tsk. kummin
1 rautt chili-aldin, fínsaxað
6 salvíublöð, grófsöxuð
Hitið grillið upp. Beinhreinsið fiskinn og nuddið smávegis af olíu á hann. Saltið og piprið. Setjið laxinn í fiskiklemmu og grillið við beinan hita báðum megin í samtals 10 mínútur.
Bræðið smjörið á pönnu, bætið kummin, chili-aldin og salvíu saman við og látið malla við meðalhita í 2 mínútur. Hellið smjörinu yfir grillaðan fiskinn. Berið strax fram með meðlæti s.s. sítrónukartöflum með hvítlauk og hunangsgljáðum gulrótum með timjani.
Sítrónukartöflur með hvítlauk
Best er að kartöflurnar séu nýjar og smáar. Ef þær er stórar þarf að skera þær í báta.
Meðlæti fyrir 4–6
um 900 g nýjar litlar kartöflur
2 sítrónur
10 hvítlauksrif, léttkramin í hýðinu
5 msk. ólífuolía
salt og svartur pipar
smávegis af rósmarín og timjan, þurrkuðu eða fersku
Hitið ofninn í 200˚C. Skolið kartöflurnar vel en flysjið þær ekki. Forsjóðið þær í söltu vatni í 5 mínútur og hellið vatninu af þeim. Skerið sítrónurnar í meðalþykka báta. Setjið kartöflurnar, sítrónurnar og hvítlaukinn í eldfast mót, hellið olíunni yfir og saltið og piprið. Blandið vel saman og bakið í 35–40 mínútur.
Hrærið einu sinni eða tvisvar í kartöflunum á meðan þær bakast. Saxið kryddjurtirnar, dreifið þeim yfir kartöflurnar og bakið áfram í 5 mínútur. Berið strax fram ásamt salti þannig að hver og einn geti saltað eftir smekk.
Gulrætur með hunangi og timjan
Gulræturnar er hægt að matreiða deginum áður og hita lítillega upp rétt áður en það er borið fram. Í staðinn fyrir gulrætur er hægt að nota rófur.
Handa 6
um 1 kg smáar gulrætur, ef þær eru stórar
er betra að skera þær í tvennt, langsum
4 msk. ólífuolía
4 msk. hunang, fljótandi
3 msk. sítrónusafi
sítrónubörkur í strimlum af 1 sítrónu
1 msk. fersk timjanlauf
salt og svartur pipar
Hitið ofninn í 200˚C. Setjið gulræturnar í eldfast mót og veltið því upp úr ólífuolíu. Saltið og piprið. Þeytið saman hunang og sítrónusafa. Bætið sítrónuberki og timjan saman við og hellið yfir gulræturnar. Bakið í miðjum ofninum í 35–40 mínútur eða þar til gulræturnar eru byrjaðar að brúnast lítillega.
Berið fram og njótið!