– Verum hér, en ekki þar og þá.
Á jógaæfingu eru oft margar hugsanir sem fara í gegnum hugann. Þær geta verið jafn mismunandi og þær eru margar og stundum tengjast þær alls ekkert því sem við erum að gera á æfingunni. Þar má nefna gagnrýnar hugsanir á sig eða aðra, hvar næsta manneskjan hafi keypt íþróttafötin sín, hvað þú þurfir að kaupa í matvörubúðinni eftir tímann eða að þú skammar þig í hljóði fyrir að hafa gleymt að sækja fötin í hreinsunina. Höfuðið er stanslaust á fullu og þá getur það gerst að við höfum enga stjórn á flæði hugsananna.
Hægt er að líkja hugsunum okkar við óþekkan hvolp sem hleypur um stjórnlaus. Það þarf að temja hvolpinn og láta hann læra að hlýða. Hugsanir okkar virka eins – það þarf að temja þær og læra að stjórna þeim. Að hafa stjórn á hugsunum er krefjandi verkefni og tekur það marga langan tíma að læra. Mikla einbeitingu og vilja þarf til þess að hægt sé að hafa stjórn á og þjálfa hugann í að læra að útiloka óþarfa hugsanir. En um leið og við náum að tileinka okkur þetta við jógaæfingar förum við að fá meira út úr æfingunni, náum að slaka meira á andlega og einbeita okkur betur að hverri hreyfingu fyrir sig – við náum að vera meira í núinu.
Gott er að temja sér að um leið og gengið er inn í salinn eða rýmið sem þú iðkar í að skilja verkefni og pælingar dagsins eftir fyrir utan og ganga áhyggjulaus inn með tóman huga. Í staðinn fyrir að henda sér beint í æfingarnar getur verið gott að byrja alla jógatíma á stuttri hugleiðslu þar sem öll einbeitingin er færð að önduninni. Þegar jógaæfingin hefst þá heldur þú áfram að einbeita þér að önduninni samhliða því að færa hugann að því sem er að gerast í núinu.
Við viljum hafa sterka og góða tengingu á milli huga og líkama og halda þeirri tengingu út jógatímann. Markmiðið er að vera með einbeittar og yfirvegaðar hugsanir, gera eins vel og við getum og fá eins mikið úr þeirri jógastöðu sem við erum í hverju sinni.
Næst þegar þú ferð í jógatíma taktu þá eftir hugsunum þínum og fylgstu með hversu mikil ómeðvituð áhrif þær hafa á þig við gerð æfingana. Prófaðu að senda þær í burtu jafn hratt og þær koma til þín og einblíndu frekar á öndunina og þær jógastöður sem þú ert að framkvæma hverju sinni.
Njóttu þess að vera í núinu og leggðu annað til hliðar á meðan.
Gangi þér vel!
Sara