Heilandi húðumhirða

TEXTI Sigríður Inga Sigurðardóttir MYNDIR Guðbjörg Gissurardóttir

Guðfinna Mjöll Magnúsdóttir fékk óvænt áhuga á umhirðu húðarinnar þegar hún gekk í gegnum erfitt sorgarferli. Hún segir heilandi að hugsa vel um húðina, hreinsa hana og næra og hlúa þannig að sjálfri sér. Góð húðumhirða er Guðfinnu mjög mikilvæg. 

Húðumhirða sem sjálfsrækt

Guðfinna Mjöll, sem er vöruhönnuður að mennt, hugsar mjög vel um húðina. Hún segir það hafa hjálpað sér í gegnum persónulega erfiðleika. „Í mínum huga er húðumhirða liður í að rækta sjálfa mig og sýna sjálfri mér alúð og umhyggju. Ég var í þungbæru sorgarferli eftir að hafa misst pabba minn fyrir tveimur árum og langaði að finna leiðir til að láta mér líða betur. Þá uppgötvaði ég hvað það gerir mikið fyrir sálina að hugsa vel um húðina. Fram að þessu hafði ég ekki hugsað um húðina á þennan hátt svo ég kom sjálfri mér verulega á óvart. Létt andlitsnudd, hreinsun og næring getur gert kraftaverk. Núna er orðin hefð hjá mér að taka frá tíma kvölds og morgna og huga að húðinni og ég hlakka til að gefa sjálfri þessa stund. Það kemur fyrir að ég hef aðeins nokkrar mínútur en samt sem áður er þessi stund mjög dýrmæt. Að hugsa um sjálfa mig, fyrir sjálfa mig, er virkilega heilandi og hefur gefið mér mikið,“ segir Guðfinna þegar blaðamaður Lifum betur spyr hana út í hennar daglegu húðumhirðu.

christin hume skin care

Að hugsa um sjálfa mig, fyrir sjálfa mig, er virkilega heilandi og hefur gefið mér mikið

Grunnurinn

„Grunnstefin í umhirðu húðarinnar eru hreinsun, raki og vörn. Ég byrja því hvern morgun á því að hreinsa húðina með andlitshreinsi. Núna er ég að nota Facial Cleanser hreinsi frá Neostrata, sem er merki sem húðlæknar þróuðu og húðlæknirinn minn mælti með. Þegar húðin er orðin hrein set ég á mig augnkrem. Síðan ber ég tvær gerðir af serum á húðina. Fyrst set ég á mig rakaserum, eða svokallaðar hyaluronic-sýrur, svo húðin haldi góðu rakastigi. Þar sem ég er nýorðin fertug og aðeins byrjuð að fá dökka bletti á húðina passa ég upp á að nota líka serum sem inniheldur C-vítamín en það vinnur gegn litabreytingum í húðinni og ver húðina fyrir mengun. Síðan ber ég á mig gott dagkrem með raka og næringu. Stundum nota ég dagkrem með sólarvörn en þegar sólin fer að hækka á lofti vil ég heldur nota sérstaka sólarvörn með háum SPF-stuðli.

Náttúrulegar húðvörur

Núna nota ég t.d. sólarvörn sem hægt er að úða yfir andlitið en þá smýgur hún auðveldlega inn í húðina. Ég á alltaf rakavatnssprey, sem ég get úðað á húðina hvenær sem er yfir daginn, en mér finnst það einstaklega frískandi,“ segir Guðfinna. „Almennt nota ég hreinar og náttúrulegar húðvörur eftir því sem kostur er, en stundum er ég að leita eftir ákveðinni virkni í vörunni,“ segir hún.

Á kvöldin er húðrútínan aðeins öðruvísi en Guðfinna segir að þá sé hægt að nota meira og minna sömu vörur, allt eftir því hvaða virkni leitað er eftir. „Ef ég er með farða hreinsa ég húðina tvisvar og þá fyrst með olíuhreinsi. Annars nota ég sama húðhreinsinn og í upphafi dags, ber á mig augnkrem og rakaserum. Serum tvö getur verið breytilegt eftir því hvaða virkni ég er að leita eftir. Núna er ég að vinna með serum með niacinamide og næturkrem. Stundum set ég brúnkuvatn á mig, alveg í lokin, eða svokallað face tan water. Þá vakna ég með smá sólarljóma á húðinni morguninn eftir.

Handáburður

Það allra síðasta sem ég geri áður en ég fer að sofa er að bera á mig handáburð. Núna nota ég fíkjuhandáburð frá Mixmix en ég nota gjarnan arnica-olíu frá Weleda þegar liðirnir verða stirðir, það gerir algjört kraftaverk. Húðrútínan er í stöðugri þróun, enda er misjafnt hvað húðin þarfnast hverju sinni,“ bendir Guðfinna á og segist tvisvar í viku nota retinol, sem er A-vítamín en það hefur verið sannað að það hafi raunverulega virkni í að endurnýja kollagen í húðinni. „Inn á milli nota ég ávaxtasýruskífur, sem djúphreinsa húðina og gera hana einstaklega ferska. Og af og til nota ég andlitsmaska frá Dr. Hauschka, sér í lagi þegar húðin verður mjög þurr, t.d. á köldum vetrardögum.“

En hvert hefur þú helst leitað eftir fróðleik varðandi húðina?

„Ég byrjaði að fylgja nokkrum vel völdum húðgúrúum á samfélagsmiðlum og hef lært heilmikið af þeim. Það eru ákveðnir aðilar sem hægt er að treysta og vita sínu viti í þessum málum. Ég er algjör byrjandi á þessu sviði og er sífellt að uppgötva eitthvað nýtt og skemmtilegt en ég mæli sérstaklega með Kristínu Sam og Karin, eigendum Nola.“

Sólarvörnin mikilvæg

Guðfinna bendir á að góð húðumhirða snúist ekki um hégóma heldur sé hún mikilvægur liður í því að vernda húðina, sem er okkar stærsta líffæri. „Með aldrinum hef ég líka áttað mig á því hvað það er mikilvægt að passa vel upp á húðina. Það mæðir oft mikið á henni, ekki síst í andlitinu því það er ekki varið fyrir mengun, veðri eða vindum. Sjálf er ég mjög meðvituð um skaðsemi sólarinnar því í gegnum árin hef ég oft brunnið illa og reglulega hefur þurft að taka af mér bletti.

Fyrir nokkrum misserum  fékk ég dökka bletti á varirnar, sem reyndust vera sólarskemmdir. Húðlækninum mínum leist ekkert á þetta og það þurfti að skera bita úr vörunum á mér til að fjarlægja þessa bletti. Hann gerði það svo vel að það sést ekkert en óneitanlega varð mér brugðið við þetta. Eftir þetta nota ég næringu á varirnar sem heitir Flawless lips og er frá Sepai. Næringin hefur dregið úr öðrum blettum sem voru byrjaðir að myndast. Með henni nota ég svo varasalva með SPF-stuðli yfir daginn.“

Guðfinna talar sérstaklega um að sér finnist mikils virði að fá að eldast og hún hafi engar áhyggjur af því hvort hún fái fínar línur í húðina eða hrukkur. „Þetta snýst um að hugsa vel um sig, enda gerir enginn annar það fyrir mann. Um tíma dvaldi ég mér til heilsubótar á Heilsustofnun NLFÍ í Hveragerði og þar er mottóið að hver og einn taki ábyrgð á eigin heilsu. Það talaði beint til mín og ég lít svo á að húðin sé partur af okkar heilsu og ég vil hugsa vel um hana, alveg eins og ég tek daglega inn vítamín.“

Guðfinna Mjöll notar þessar húðvörur:

Facial Cleanser, andlitshreinsir frá Neostratra
Augnkrem, Recover Eye Cream frá Pestle & Mortar
Life Plankton Elexir, rakaserum frá Biotherm
C-vítamín, serum frá Pestle & Mortar
Serum, Icelandic Youth frá Skyn Iceland
Rakakrem, Hydra Cream Light frá Embryolisse
Rakakrem frá Neostrata
Sólarvarnarúði frá Shiseido
Handáburður frá Mixmix
Arnica-olía frá Weleda
Hreinsiskífur, Nordic Skin Peel frá Skyn Iceland
Andlitsmaski frá Dr. Hauschka
Næring fyrir varir, Flawless Lips frá Sepai
Volganic Glow, olía frá Angan
Face Tan Water, brúnkuvatn frá Eco by Sonya

Þessi grein er úr vorblaði Lifum Betur – í boði náttúrunnar 2021