Á kvöldin er húðrútínan aðeins öðruvísi en Guðfinna segir að þá sé hægt að nota meira og minna sömu vörur, allt eftir því hvaða virkni leitað er eftir. „Ef ég er með farða hreinsa ég húðina tvisvar og þá fyrst með olíuhreinsi. Annars nota ég sama húðhreinsinn og í upphafi dags, ber á mig augnkrem og rakaserum. Serum tvö getur verið breytilegt eftir því hvaða virkni ég er að leita eftir. Núna er ég að vinna með serum með niacinamide og næturkrem. Stundum set ég brúnkuvatn á mig, alveg í lokin, eða svokallað face tan water. Þá vakna ég með smá sólarljóma á húðinni morguninn eftir.
Handáburður
Það allra síðasta sem ég geri áður en ég fer að sofa er að bera á mig handáburð. Núna nota ég fíkjuhandáburð frá Mixmix en ég nota gjarnan arnica-olíu frá Weleda þegar liðirnir verða stirðir, það gerir algjört kraftaverk. Húðrútínan er í stöðugri þróun, enda er misjafnt hvað húðin þarfnast hverju sinni,“ bendir Guðfinna á og segist tvisvar í viku nota retinol, sem er A-vítamín en það hefur verið sannað að það hafi raunverulega virkni í að endurnýja kollagen í húðinni. „Inn á milli nota ég ávaxtasýruskífur, sem djúphreinsa húðina og gera hana einstaklega ferska. Og af og til nota ég andlitsmaska frá Dr. Hauschka, sér í lagi þegar húðin verður mjög þurr, t.d. á köldum vetrardögum.“
En hvert hefur þú helst leitað eftir fróðleik varðandi húðina?
„Ég byrjaði að fylgja nokkrum vel völdum húðgúrúum á samfélagsmiðlum og hef lært heilmikið af þeim. Það eru ákveðnir aðilar sem hægt er að treysta og vita sínu viti í þessum málum. Ég er algjör byrjandi á þessu sviði og er sífellt að uppgötva eitthvað nýtt og skemmtilegt en ég mæli sérstaklega með Kristínu Sam og Karin, eigendum Nola.“