Heimagerður svitalyktareyðir

UMSJÓN Anna Sóley og Eva Dögg

Flest okkar nota svitalyktareyði. Það er algjört lykilatriði í okkar tilviki að hann sé laus við ál og annan óþverra og að hann virki vel. Við höfum leitað víða og sammælst um að þessi sem við búum til sjálfar sé sá besti. Það er ekki margt sem þarf til að búa til svitalyktareyðinn, það sem hefur kannski helst vafist fyrir okkur er að finna hentug ílát. Við endurunnum því umbúðir af svitalyktareyði í stifti sem hafði verið keyptur í verslun og settum þann heimagerða í stiftið staðinn. Annars er ekkert því til fyrirstöðu að hafa hann í krukku og smyrja undir hendurnar.

SVITALYKTAREYÐIR
1⁄2 bolli lífræn kókosolía 
1⁄3 bolli matarsódi 
20-30 dropar ilmkjarnaolíur

Byrjað er að bræða um það bil hálfan bolla af kókosolíu í vatnsbaði eða með því að setja krukku undir heitt vatn. Þá er 20 til 30 dropum af ilmkjarnaolíu bætt út í. Góð blanda er lavender- og sítrónuilmkjarnaolía til helminga. Þá er blandað hálfum bolla af matarsóda við. Hlutföllin eru ekki heilög en gott er að miða við um það bil jafnmikið af fljótandi og föstu. Næst er blandan hrærð saman þangað til áferðin verður þétt. Þá er ekkert eftir annað en að setja blönduna í loftþéttar umbúðir eða tómt svitalyktareyðisstifti og leyfa þessu að harðna yfir nótt. Sumir eru viðkvæmir fyrir því að setja matarsóda undir hendurnar, þá er um að gera að setja aðeins minna af honum á móti meiri olíu. Þar sem innihaldið er eingöngu matarsódi og kókosolía ætti svitalyktareyðirinn að endast þangað til hreinlega að hann klárast!