HORFUM FRAM Á VEGINN

Áramótaheit, áskoranir, óskalistar, markmið eða hvað þetta heitir nú allt er að flestra mati af hinu góða og í raun talið bráð nauðsynlegt ef alvöru árangur á að nást. Stundum dugar einfaldlega að skrifa drauma sína niður á blað og það er eins og eitthvað fari af stað í alheimsvitundinni og BINGÓ maður er komin í mark! En oftar en ekki gleymast háleitar hugmyndir á undraverðum hraða og virðast einfaldlega læðast úr huga manns án þess að maður taki eftir því.

Margar leiðir og lausnir eru í boði til að ná tilsettum árangri, sem ég ætla ekki að fara út í hér, en sú sem ég er að prófa þessa daganna er einfaldlega að reyna að muna markmiðin mín og svo njóta ferðalagsins og treysta því að draumar mínir verði að veruleika. Ég læt ykkur vita ef þessi aðferð virkar 😉

FÖGNUM 2017 AFREKUM
Það er einnig mikilvægt að líta til baka og skoða hvað við afrekuðum á árinu sem er að líða og gefa okkur klapp á bakið fyrir allt sem við áorkuðum, bæði hið stóra og smáa. 2017 var viðburðaríkt og skemmtilegt hjá útgáfunni. Dagný Berglind Gísladóttir, sem hefur starfað sem aðstoðarritstýra um árabil tók við ritstýru hlutverkinu. Við gáfum út í annað sinn matarblaðið FÆÐA / FOOD sem er komið með dreifingaraðila í Evrópu og komið í sölu í fjölda verslanna. Við gróðursettum að sjálfsögðu tré fyrir alla áskrifendur og í lok árs gerðum við nýtt dagatal og bættum við í fyrsta sinn minnisbók og dagsplani fyrir okkur sem viljum fá hjálp við það að muna eftir því sem skiptir raunverulega máli. Árið byrjar svo með trukki því nýtt blað Í boði náttúrunnar kemur út núna í janúar og verður það fullt af innblæstri um heilsu og umhverfismál.
Við vonum að 2018 verði „besta ár ever“ og þökkum samfylgdina á liðnu ári!Guðbjörg Gissurardóttir
framkvæmdastýra

Tögg úr greininni
, , , ,

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.