Húð og hár – án eiturefna

Ég er mikil pjattrófa og finnst mjög gaman að gera mig fína og farða mig. Eitt sinn átti ég öll „fínustu“ merkin en með aukinni vitund um eiturefni í snyrtivörum er ég steinhætt að kaupa þessar vörur.

TEXTI Valgerður Árnardóttir

Ég setti mér það markmið fyrir nokkrum árum að versla einungis lífrænar, eiturefnalausar (parabenlausar) snyrtivörur sem ekki eru prufaðar á dýrum og hef staðið við það. Það er mikill misskilningur að náttúrulegar og lífrænar vörur séu dýrari en aðrar, eftir að ég tók þessa ákvörðun eyði ég mun minna í snyrtivörur og lít alveg jafn vel út ef ekki betur, allavega sagði húðlæknir mér að þéttleiki og heilbrigði húðar minnar væri eins og á tíu árum yngri konu enda hafði ég þá notað lífrænar húðvörur í … tíu ár.

Úrvalið af náttúrulegum snyrtivörum er sífellt að aukast en ég man þá tíma þegar Weleda og Dr. Hauscka voru einu merkin í boði. Ég setti saman lista yfir uppáhalds vörurnar mínar til að gefa þeim sem hafa áhuga á að breyta til hugmynd um hvað er í boði:

EITUREFNALAUSAR SNYRTIVÖRUR SEM ÉG MÆLI MEÐ


 

HREINSIKREM: Ég er mjög ánægð með hreinsimjólkina og andlitsvatnið frá Vor Organics sem er íslenskt merki. Einnig eru hreinsvörurnar frá Alterra mjög góðar og þegar í harðbakka slær nota ég lífræna kókosolíu til að fjarlægja farða og vatnsblandað eplaedik sem andlitsvatn (1 edik á móti 5 einingarvatn). Ég nota líka andlitsskrúbb frá Vor Organics og Alterra sem er með kornum úr apríkósukjörnum, það er mjög mikilvægt að forðast plastkúlur (microbeads) sem notaðar eru í andlitsskrúbbum margra snyrtivörumerkja, þar sem þessar plastagnir eyðileggja lífríki sjávar.

RAKAKREM: Ég er með mjög þurra húð sem ekki þolir ilmefni en þau krem sem ég kaupi reglulega og reynast mér vel eru Lavera Q10 andlitskremið, Vor organics dag- og næturkrem með bláberjum eða sjávar-þörungum og Good Things argan olíu kremið. Þessi krem eru öll lífræn, parabena- og eiturefnalaus. Einnig nota ég EGF húðdropana á hverju kvöldi enda er það mesta kraftaverka-serum sem ég hef vitað, ég sé hrukkurnar minnka yfir nótt, er algjörlega háð þessum dropum og það er orðinn vaninn að nota flugpunktana mína til að kaupa þá þegar ég ferðast.

MASKI: Silica mud mask (kísill) frá Bláa lóninu til að hreinsa og svo nota ég ýmsa heimatilbúna rakagefandi maska sem ég finn uppskiftir af á netinu.

FARÐI: Daglega nota ég litað ágætlega þekjandi dagkrem frá Aveda sem heitir Inner Light tinted moisture en besti lífræni þekjandi farði sem ég hef fundið er frá RMS beauty. Maskara, augnskugga, blýanta og varaliti á ég ógrynni af og þá helst frá Alterra, Benecos, Lavera og RMS beauty. Þá nota ég steinefnapúður frá Bare minerals, highlighter púður frá Benecos, sólarpúður frá Alterra og kinnalit frá Benecos.

SÁPUR OG HÁRVÖRUR Ég er mjög hrifin af sjampóinu og hárnæringunni frá World sem er með lífrænni argan olíu, þær eru líka svo ódýrar. Svo er ég líka að nota Alterra hárvörur með ástaraldin sem ilma dásamlega og hárolíu frá Isana professional sem fékk “best in test” -Öko verðlaunin þýsku. Ég er svo heppin að ferðast mikið vegna vinnu minnar og Alterra, Isana og fleiri lífræn merki fást í Rossmann verslununum sem eru ódýrar snyrtivöruverslanir á hverju horni í þýskum borgum. 

SVITALYKTAREYÐIR: “Antiperspirant” svitalyktareyðar eru með krabbameinsvaldandi efnum sem stífla svitakirtla og fá eiturefni til að safnast saman í eitlunum. Nýlegar rannsóknir benda til að þeir séu helsta orsök brjóstakrabbameins hjá konum svo ég hef ekki notað þannig svitalyktareyði síðastliðin 10 ár, ég hef prufað allar tegundir af eiturefnalausum og heimagerðum svitalyktareyðum. Þeir eru mjög misjafnir en sá sem reynst hefur best og virkar jafnvel og “antiperspirant! er frá Nutribiotics og fæst í Góð heilsa á Njálsgötu. Sítrónuspreyið frá Weleda er líka mjög fínt.

LÍKAMI: Vatnsdrykkja er það besta sem þú getur gert fyrir húðina en ef þú ert með þurra húð mæli ég með að nota lífræna kókosolíu, ég nota þessa frá Himneskt eða frá Jurtaapótekinu. Lífræn ólífuolía er líka mjög öflug og það er hægt að búa til æðisleg líkamsskrúbb með haframjöli, sjávarsalti, sítrónusafa og ólífuolíu. Ég bursta húðina í sturtu með skrúbbhönskum og ber á mig kókosolíu eftir hana.

Ég mæli með því að fólk hafi í huga að nota vörur sem eru góðar fyrir húðina, umhverfið og framleiddar án þess að pynta eða drepa dýr. Ef ég sé merki sem ég þekki ekki og er að íhuga að kaupa þá skoða ég lista Peta yfir „cruelty free” vörur. Þar eru einnig vörur sem maður þekkir og koma skemmtilega á óvart að séu „cruelty free“ en ég vona að einn daginn verði ekki þörf á svona lista; það á aldrei að þurfa að prufa snyrtivörur á dýrum. Ef varan inniheldur efni sem er nauðsynlegt að purfa á dýrum, þá getur það varla verið gott fyrir okkur.