Davíð Kristján Guðmundsson lífskúnstner starfar sem flutningsmiðlari virka daga en byggði nýverið svett í Grímsnesi ásamt góðum vinum, sem hann stundar um helgar (meira um svett í vetrarblaði Í boði náttúrunnar). Hugmyndin að opna sitt eigið svitahof kom til hans fyrir ákkurat einu ári á opnunarhátíð Friðsældar í febrúar í Ráðhúsinu. Davíð leitast eftir því að finna jafnvægi á milli þess efnislega og andlega og notar hugleiðslu til að komast í núið.
Af hverju fórstu upphaflega að hugleiða?
Ég fór upprunalega að hugleiða þegar að hugleiðsla var kynnt fyrir mér af Þorláki Morthens fyrir sirka 3 árum síðan. Fram að því hafði ég ekki hugleitt áhrif þess að hugleiða né haft neinn áhuga á því viðfangsefni. Áhrifin komu strax í gegn í fyrstu hugleiðslu og hefur hugleiðslan vaxið síðan og orðið mér mjög kær.
Hvernig hugleiðir þú og hve lengi í senn?
Ég hugleiði nokkru sinum á dag, hugleiðslurnar geta verið ýmist frá því að vera nokkrar mínútur yfir í að vera hátt upp í 30 minútur í senn. Helst nokkrar styttri þar sem ég kem þeim að yfir daginn í amstri dagsins. Einnig að hafa svo að minnsta kosti eina langa góða með næði einu sinni á dag.
Hvar finnst þér best að hugleiða og af hverju?
Mér finnst best að hugleiða undir berum himni með sól á lofti.
Hvað gerir hugleiðsla fyrir þig?
Hugleiðsla tengir mig við innsta kjarna minn og gefur mér ró og næði til að vera til í hverri líðandi stund fyrir sig
Getur þú nefnt dæmi þar sem að hugleiðslan kom sér sérstaklega vel?
Hugleiðsla kemur sér vel á öllum sviðum. Í vinnu, útivist, samskiptum við mína nánustu og hvar sem ég er.
Hverju mælir þú með fyrir fólk sem er að taka sín fyrstu skref í hugleiðslu?
Ég mæli með snjallsímaforritinu Ást og friður. Einnig að gefa sér tíma til að hugleiða og gera einfaldlega sitt besta. Leita sér upplýsinga út frá því sem að gefur þeim ánægju og frið í hugleiðslu