Yoga á meðgöngunni

Að ganga með barni er alveg ólýsanleg tilfinning og eitthvað sem ekki er hægt að ímynda sér nema að hafa gengið í gegnum það sjálf. Upplifun hverrar konu af meðgöngunni er misjöfn og eru þær jafn ólíkar og við konurnar erum margar. Það er það einstaka og fallega við meðgönguna. Engin er eins. En allar eigum við það sameiginlegt að lítið kraftaverk er að stækka og þroskast innra með okkur og er það á okkar ábyrgð að hjálpa því og styðja við það á þessu mikilvæga þroska- og mótunarferli.

Að hugsa vel um sig á meðgöngunni skiptir miklu máli, því sagt er að ef þér líður vel þá líður barninu þínu vel. Ég hef mikla trú á að hollt mataræði, góð hreyfing og næga hvíld stuðli að heilbrigðri og hamingjusamri meðgöngu. En allar konur eru ólíkar og því erfitt að staðhæfa hvað sé best. Því verður hver og ein að finna það með sjálfri sér.

Ef líkaminn leyfir er mjög gott er að hreyfa sig á meðgöngunni og er öll hreyfing góð. Hver og ein kona þarf að finna hvaða hreyfing hentar hennar líkama en ég kaus að stunda yoga á minni meðgöngu. Að stunda yoga á meðgöngu er bæði mjög góður undirbúningur fyrir fæðinguna og getur verið, fyrir margar konur, mjög hjálplegt á meðgöngunni. Ástæðan er m.a. gott jafnvægi á milli hreyfingu, öndunaræfinga og hugleiðslu.

  1. Líkamleg hreyfing. Þær stöður og þau flæði sem gerð eru í yoga eru bæði styrkjandi og auka liðleika. Það skiptir máli að halda líkamanum okkar sterkum og liðugum í gegnum meðgönguna svo við stífnum ekki upp og lágmörkum bakverki og bjúg. Í yoga lærum við einnig vel inn á líkamann og lærum að hlusta á hann. Sú færni kemur sér vel á meðgöngu og í fæðingunni sjálfri. Hver kona þarf að finna það með sjálfri sér hversu mikið hún treystir sér til að gera og hvernig yoga hún stundar. Mörgum finnst gott að byrja snemma í meðgönguyoga á meðan aðrar kjósa að mæta í venjulegan yoga tíma þar til líkaminn og kúlan kalla á mýkri tíma og þá getur verið gott að skipta yfir í meðgönguyoga.

  2. Öndunaræfingar. Í yoga skiptir öndun öllu máli. Öndunin tekur okkur inn í yogastöðurnar og með réttri öndun verður allt svo miklu léttara og þægilegra. Rétt öndun hjálpar manni að slaka á, hún róar líkamann og hugann og losar stress og streitu úr líkamanum. Hún kemur sér einstaklega vel á meðgöngunni þegar þörf er á slökun, og þegar konan fær samdrætti eða aðra verki sem hægt er að anda sig í gegnum. Ég hef heyrt frá mörgum konum, reyndum ljósmæðrum og lesið í bókum að það að kunna að anda rétt og að nota öndun í fæðingu getur gert gæfumun í fæðingarferlinu. Í meðgönguyoga læra konur haföndun sem er alveg frábær öndun til þess að slaka á, róa hugann og að nota í fæðingunni sjálfri.

  3. Hugleiðsla. Fyrir margar konur getur verið mjög erfitt að slaka almennilega á á meðgöngunni. Það er svo mikið sem þarf að undirbúa og klára áður en barnið kemur, sumar eru fullri vinnu eða með fleiri börn á heimilinu sem þarf að sinna. Allar erum við í ólíkum aðstæðum en eigum örugglega margar það sameiginlegt að halda að við getum gert allt og sinnt öllu. En á meðgöngunni þarf konan sérstaklega að læra að slaka á. Það skiptir svo miklu máli bæði fyrir hana og barnið að fara í gegnum daginn í ró og leyfa sér að hvílast þegar líkaminn kallar á það. Stundum er ekki tími fyrir svefn á miðjum degi og þá er hugleiðsla upplögð. Það sem hugleiðslan gerir er að róa okkur aðeins niður, kúpla okkur frá umhverfinu og færa einbeitingu inn á við – að barninu okkar. Að finna sér rólegan stað, koma sér þægilega fyrir, loka augunum og einbeita sér að því að anda djúpt og rólega dugar oftast til þess að hvíla aðeins líkamann og hugann. Oft þarf ekki meira en 10 mínútur í senn þó að lengri hugleiðslur séu góðar inn á milli þegar tími gefst. Í yoga er oft tekin hugleiðsla í byrjun eða lok tímans og getur verið gott að æfa sig þar áður en maður prófar sjálfur.

Eitt sem ég hef lært á meðgöngunni minn er það að engin kona er eins. Engar tvær konur upplifa eins meðgöngu eða fæðingu. Við könnumst allar við það að heyra ólíkar meðgönguupplifanir og fæðingarsögur úr hinum ýmsum áttum sem bæði getur verið gaman og gagnlegt að heyra og ekki. Hver og ein kona verður að einbeita sér því að finna sínar leiðir til þess að gera meðgönguna eins ánægjulega og hægt er og finna hvað hentar hennar líkama best.

Ég hef lagt mikið upp úr því að borða hollan og næringaríkan mat og stundað yoga, fyrst Ashtanga og svo á þriðja hluta meðgöngunnar byrjaði ég í meðgönguyoga hjá Maggý. Einnig hef ég verið dugleg að fara í heitu pottana og synt í Vesturbæjarlaug. Það hefur hjálpað mikið við að slaka á bakinu og losað um verki í grindinni. Ég hef reynt að hvíla mig nóg þó svo að ég viðurkenni fúslega að ég hafi mátt vera mikið duglegri við það á köflum. Ég er nýhætt að vinna og nota núna tímann í að hvíla mig og undirbúa komu barnsins sem ég á von á eftir tvær vikur.

Ég vona svo sannarlega að þið konur sem eruð óléttar eigið farsæla og yndislega meðgöngu, hlustið á ykkar eigin líkama og finnið hvað hentar ykkur og barninu best.

Sara

Tögg úr greininni
, , , , ,

1 athugasemd

  • Góða kvöldið

    Eruð þið með jóga fyrir óléttar konur
    Kv,Gabriela

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.