Friðsæld í febrúar hefst á sunnudaginn með Hóphugleiðslu í Ráðhúsinu kl 11, sem við hvetjum sem flesta til að mæta á. Við fórum því á stúfana og forvitnuðumst um hugleiðsluvenjur ólíkra einstaklinga. Við byrjum á Sölva Tryggvasyni, fjölmiðlamanni, sem hugleiðir reglulega með góðum árangri.
Af hverju fórstu upphaflega að hugleiða ?
Ég fór upphaflega að hugleiða af þessarri klassísku ástæðu. Mér fannst ég allt of tættur og spenntur.
Hvernig hugleiðir þú og hve lengi í senn?
Ég hef prófað ýmsar útfærslur, þannig að það er dálítið misjafnt. En yfirleitt hugleiði ég í 20 mínútur í einu og þá með fókus á andardráttinn eða tiltekna möntru. Yfirleitt tekur 5-7 mínútur að komast almennilega inn í slökun.
Hvar finnst þér best að hugleiða og af hverju?
Þessa dagana finnst mér best að hugleiða heima hjá mér, en almennt finnst mér mjög gott að hugleiða í hóp þegar því verður við komið.
Hvað gerir hugleiðsla fyrir þig?
Hugleiðsla hjálpar mér fyrst og fremst við að sætta mig við hlutina eins og þeir eru og fá meira rými til að sjá hlutina í réttu ljósi. Fyrir utan augljósa líkamlega ávinninga, eins og dýpri öndun og betra flæði í líkamanum.
Getur þú nefnt dæmi þar sem að hugleiðslan kom sér sérstaklega vel?
Sem dæmi var ég að halda fyrirlestur fyrir nærri 200 manns bara í síðustu viku og þá kom sér mjög vel að taka stutta hugleiðslu á undan til að ná önduninni dýpri og slaka örlítið á.
Hverju mælir þú með fyrir fólk sem er að taka sín fyrstu skref í hugleiðslu?
Aðalatriðið í mínum huga er að hugleiða frekar stutt en ekkert. Byrja smátt og vera í sjálfskærleika. Muna að það er ekki til neitt sem heitir rétt eða rangt í hugleiðslu.