Hvað er Ashtanga jóga?

Við heyrum talað um nýja jógategund í hverri viku og allir trúa að sín aðferð sé best. Það getur því verið áskorun að halda utan um og vita muninn á öllum þessum tegundum og stílum. Hér verður fjallað stuttlega um uppruna og sögu Ashtanga jóga.

SAGAN OG STOFNANDINN

Jógagúrúinn Sri. K. Pattabhi Jois eða Guruji eins og hann er oftast kallaður setti saman ashtanga jóga kerfið sem samanstendur af 6 seríum af jógastöðum. Guruji fór tólf ára gamall að heiman til þess að læra jóga hjá jógagúrúnum Krisnamcharya á Indlandi. Eftir að hafa verið í læri í nokkur ár og byrjað að kenna jóga stofnaði Guruji sinn eigin skóla í bænum Mysore sem hann nefndi Ashtanga Yoga Institute. Skólinn hefur farið sívaxandi á síðustu áratugum og eftir að Guruji féll frá árið 2009 tók barnabarnið hans Sharath Jois við skólanum og stýrir honum enn í dag. Guruji skrifaði bókina Yoga Mala ásamt bandaríska ashtanga jógakennaranum Eddie Stern um fyrstu seríuna í ashtanga jóga og jógafræðin.

Ashtanga jóga er klassískt indverskt jóga og samanstendur kerfið af sex seríum. Hérlendis er fyrsta serían hvað mest kennd, en eitthvað er um að nemendur séu komnir í aðra eða þriðju seríuna. Til þess að halda áfram inn í næstu seríu er mælst til að iðkandinn hafi náð tökum á fyrstu seríunni. Fyrsta serían samanstendur af; sólarhyllingu A, sólarhyllingu B, standandi stöðum, sitjandi stöðum, lokastöðum og slökun í lokin. Serían er ýmist kennd þannig að hún er leidd af kennara sem leiðir nemendur inn í og úr jógastöðunum og telur andadrættina. Upprunalega aðferðin við að kenna Ashtanga jóga er kennd í svokölluðum Mysore tímum (sem kennd er við heimabæ Ashtanga Yoga Institute, Mysore) þar sem nemendur gera seríuna sjálfir en fá aðstoð frá kennara sem gengur á milli nemenda og lagar þá til og aðstoðar í jógastöðunum.

Ashtanga jóga þýðir átta greinar jóga (eight limbs of yoga). Talað er um að hjarta ashtanga jóga samanstandi af Asanas (jógastöðurnar), Pranayama (öndunaræfingar) og loks Dharana (fókus). Það fyrsta sem fólk tengir við og er oftast mest upptekið af þegar það byrjar að iðka jóga eru jógastöðurnar en þær eru einungis einn þáttur af átta. Hér er listi yfir hinar átta greinar jóga:

  1. Yama: Almennt siðferði; ekki skaða neinn hvorki menn né dýr, segðu sannleikann og ekki stela.
  2. Niyama: Sjálfsvirðing, hreinlæti og hófsemi.
  3. Asanas: Jógastöðurnar.
  4. Pranayama: Öndunaræfingar.
  5. Pratyahara: Stjórn á skilningarvitum.
  6. Dharana: Einbeiting og fókus.
  7. Dhyana: Hugleiðsla.
  8. Samadhi: Hugljómun.

ÁVINNINGUR

Það sem mörgum þykir eftirsóknarvert við ashtanga jóga seríuna er að hún er samanstendur af æfingum sem eru alltaf gerðar í sömu röð. Með reglulegri iðkun upplifir iðkandinn svokallað „moving meditation“. Mottan verður líkt og spegill þar sem iðkandinn horfir alltaf í sama spegilinn, gerir sömu seríuna en upplifir hana alltaf á mismunandi hátt þar sem dagsformið er ólíkt frá degi til dags. Í jógastöðunum upplifir iðkandinn ýmisskonar tilfinningar sem gott er að taka eftir og hlusta á og vinna með í daglegu lífi. Iðkandinn getur nefnilega speglað sig svolítið í æfingunum, sumar æfingarnar eru mjög erfiðar og krefjast mikils styrks og hugrekkis en það geta aðstæður í lífinu líka gert. Stundum erum við í þeim aðstæðum að við þurfum að horfast í augu við erfiðleika eða krefjandi aðstæður í lífinu og þá er gott að vera undirbúin/n líkamlega og andlega til þess að takast á við þær af skynsemi og ró. Æfingin er ein leið til að hreinsa hugann og búa til pláss í huganum til að auðvelda okkur að takast á við verkefni dagsins.

ASHTANGA JÓGA FYRIR ALLA

Ashtanga jóga hefur í gegnum tíðina haft þann stimpil á sér að vera mjög agað og erfitt jóga, því forðast kannski margir að prófa það. Guruji sagði að ashtanga jóga væri fyrir alla; konur og karla, unga sem aldna, mjóa og feita, en ekki fyrir þá sem eru latir! Með þessu á hann við að þessi tegund jóga er fyrir alla sem hafa viljastyrkinn til að halda sig við iðkunina án þess að gefast upp. Fyrsta skrefið sem er jafnframt oft það erfiðasta bæði fyrir byrjendur og lengra komna er að mæta á mottuna helst daglega til að taka æfinguna sína. Það er vissulega mikið til í því að þessi tegund jóga er krefjandi en ekki síður fyrir andlegu hliðina en þá líkamlegu en nemandinn ræður ferðinni sjálfur. Þetta er ferðalag sem hver jógaiðkandi velur hversu langt og djúpt hann kýs að fara inn í æfinguna. Með góðri aðstoð frá kennara er þetta ferðalag sem breytir lífi hvers og eins til hins betra, þar sem iðkandinn nær að fara djúpt inná við og skoða sjálfan sig frá mörgum hliðum. Iðkunin kennir okkur líka svo margt fallegt eins og umburðarlyndi og þolinmæði, sjálfsaga og sjálfstraust og umfram allt að bera virðingu fyrir okkur sjálfum og öðrum lifandi verum.

Ashtanga samfélagið er hópur af vingjarnlegu fólki sem tekur á móti nýjum iðkendum með opnum örmum sem hafa áhuga á að kynna sér æfinguna. Það er líka mikilvægt að minna sig á að njóta þess að vera byrjandi, taka æfinguna ekki allt of alvarlega og fagna þessum litlu sigrum á mottunni sem og í lífinu. Mig langar að enda á þessum fleygu orðum sem Guruji sagði:

Practice, practice, practice and all is coming

María