Laufabrauð – Gömul hefð í nýjum búningi

Við Elliðavatn er vetrarlegt um að litast enda jólin á næsta leiti. Hér búa Matthildur Leifsdóttir og Ingólfur Stefánsson, ásamt hestum, hænum, hundi og ketti. Húsið þeirra er sérlega notalegt og minnir helst á piparkökuhús úr þekktu ævintýri. Luktir og ljós prýða húsið sem er umvafið háum trjám og ekkert hús sjáanlegt í næsta nágrenni.

IMG_3051-2

Þegar okkur ber að garði er hin árlega laufabrauðsgerð stórfjölskyldunnar í fullum gangi. Fjórar fjölskyldur eru samankomnar. Það eru húsráðendur og svo bræðurnir Steingrímur og Þorgrímur og Úlfhildur Áslaug systir þeirra ásamt sínum fjölskyldum og allir eru í jólaskapi, enda annað ekki hægt þegar kertaljós, ljúfir tónar og góður félagsskapur eru annars vegar.

„Við systkinin erum alin upp við þessa hefð. Mamma okkar, Ragnheiður Þorgrímsdóttir, og Soffía systir hennar hittust alltaf fyrir jólin og steiktu laufabrauð. Við börnin fengum að vera með og skera út. Við eigum yndislegar æskuminningar frá þessum stundum og núna fá börnin okkar að upplifa það sama. Þau vilja endilega fá að taka þátt og vera með þótt þau detti aðeins út á unglingsárunum,“ segja þær systur brosandi.

Amma þeirra kom með þennan sið inn í fjölskylduna. „Amma hét Áslaug Guðmundsdóttir og var prestsfrú á Staðastað í Staðarsveit þar sem afi, Þorgrímur V. Sigurðsson, var prestur. Hún kynntist laufabrauðsgerð og tileinkaði sér þann sið þegar þau afi bjuggu á Grenjaðarstað í Aðaldal í Suður-Þingeyjarsýslu. Þessi siður kemur því upphaflega þaðan og þau fluttu hann síðan með sér á Snæfellsnesið, en við bjuggum í Ólafsvík,“ segir Matthildur og hnoðar deig af miklum myndarskap.

IMG_2929

„Upphaflega notuðum við uppskriftina frá ömmu en smám saman höfum við breytt henni þannig að hún er orðin talsvert hollari. Í raun er þetta allt önnur uppskrift en sú upphaflega,“ segir Úlfhildur um leið og hún sker út fallegt mynstur í eina kökuna.

Þau systkinin nota meðal annars hollari steikingarfeiti og lífrænt spelt hefur tekið við af hveitinu, auk þess sem þau sleppa mjólkinni og hefðbundnu lyftidufti. En hvernig skyldi þessi nútímaútgáfa af laufabrauði bragðast? „Við erum búin að þróa þessa uppskrift í nokkur ár og það hefur satt að segja ekki gengið átakalaust fyrir sig,“ rifja þær upp og hlæja. „Eitt árið fannst öllum laufabrauðið vont á bragðið en í dag eru allir sáttir. Þetta er ekki aðeins spurning um innihald heldur skiptir steikingin líka miklu máli. Við vorum lengi að finna út hvaða steikingarolíu við ættum að nota í staðinn fyrir palmínfeiti en núna notum við jurtaolíu og fáum sömu áferð á brauðið. Svo er líka kostur að það er léttara að fletja út laufabrauðið sem er gert eftir nýju uppskriftinni,“ segja þær og bæta við að það hafi tekist að gera laufabrauðið ótrúlega líkt því gamla í bragði og áferð.

Deigið er búið til jafnóðum og systurnar segja að ekki sé gott að láta það standa lengi. „Við búum til eitt kíló af deigi í einu og höfum mest gert níu kíló á einum degi. Það þarf þrjá til að fletja út deigið á meðan hinir skera út. Síðan er farið út í hesthús hérna við hliðina og brauðið steikt á gashellu. Pabbi var alltaf steikingameistarinn á meðan hann lifði en núna er steikingin í höndum Ingólfs og Þorgríms,“ segir Matthildur.

Laufabrauðið er síðan geymt fram að jólum og borðað yfir hátíðarnar. Þegar talið berst síðan að áramótunum kemur í ljós að áramótamaturinn hjá þeim systrum er heldur óvenjulegur. „Önnur skemmtileg hefð kom með ömmu og afa að norðan en það er steikt hangikjöt og spæld egg. Á stríðsárunum voru margir Bretar í Aðaldalnum og þeir vildu fá egg og beikon. Þar sem ekkert beikon var að fá brugðu þeir á það ráð að skera hangikjöt í þunnar sneiðar, berja það til og steikja á pönnu. Þetta borðum við um áramótin og er rosalega gott,“ fullyrðir Úlfhildur.

Þau systkinin eru sammála um að laufabrauðsgerðin sé ómissandi þáttur í jólaundirbúningnum sem þau gætu vart án verið. „Við hittumst snemma dags til undirbúnings og síðan er byrjað að steikja laufabrauðið seinnipartinn. Í hádeginu borðum við saman heimagert góðgæti sem hver fjölskylda leggur til á hlaðborð. Yfirleitt erum við búin rétt eftir kvöldmatinn og þá eru allir þreyttir en ánægðir með dagsverkið. Við systkinin erum ekki vön að vera með hefðbundin jólaboð heldur er þetta einn liður í okkar jólasamveru,“ segja þær að lokum og eru sammála um gildi þess að halda í laufabrauðshefðina.

Uppskrift ömmu Áslaugar

700 g hveiti

300 g heilhveiti

1 tsk. lyftiduft

1 tsk. salt

30 g sykur

5-6 dl heit mjólk

Klípa af smjöri sem sett er út í mjólkina

Palmínfeiti til steikingar

Nýja útgáfan

ca 25-30 stykki

700 g lífrænt spelt

300 g gróft spelt

1 msk. sykur

1 tsk. vínsteinslyftiduft

3 tsk. maldon-salt

6 dl heitt vatn

1 msk. ólífuolía

Jurtaolía til steikingar (t.d. Isio)

Aðferð:

Allt þurrefni er sett í stóra skál (eða á borð) og hola mótuð í miðjuna. Vatninu er hellt saman við í smáum skömmtum og hrært í og hnoðað á milli skammta. Deigið er síðan tekið úr skálinni og hnoðað betur á borði. Að lokum er deiginu rúllað upp og skorið í smáa bita sem eru passlega stórir fyrir eitt laufabrauð. Hver biti er hnoðaður í hringlaga köku og flattur út með kökukefli, jafnt í allar áttir þangað til kakan/brauðið er orðið passlega þunnt (fer eftir smekk). Disk er hvolft yfir útflatt deigið sem er skorið út eftir diskinum. Fallegt er að nota kleinujárn í skurðinn. Í gamla daga var afgangurinn hnoðaður upp aftur en einnig má steikja ræmurnar og nota sem smakk á meðan beðið er eftir jólunum. Mikilvægt er að hnoða deigið jafnóðum og skera fljótt út því annars verður það þurrt og erfitt viðureignar. Til að halda því röku eftir útskurðinn er notað lak eða bökunarpappír til að hafa undir og yfir laufabrauðskökunum þangað til að steikingu kemur. Gott er að úða örlitlu vatni yfir til að halda raka í þeim.

Steiking:

Notið stóra, djúpa pönnu og hellið vel af olíu í hana eða nokkra cm. Hitið olíuna vel. Gott ráð til að vita hvenær olían er tilbúin er að setja brennisteininn á eldspýtu ofan í olíuna og ef olían hvissast þá er hún tilbúin. Laufabrauðið, eitt í einu, er sett varlega ofan í heita olíuna með töng. Steikt í 5-10 sek. og þá snúið við og steikt í aðrar 5-10 sek. eða þar til brauðið er orðið fallega brúnt (fer eftir smekk hvers og eins). Bæta á olíuna ef á þarf að halda. Þegar laufabrauðið er tekið upp úr er það sett á eldhúspappír og annað eins ofan á. Þungt farg, t.d pottlok, er síðan sett ofan á til að slétta úr brauðinu og losna við mestu olíuna.

Borðist með:

– jólamat

– smjöri

– graflaxi og sósu

– smurosti og hangikjöti

… og fallegustu kökurnar má hengja upp og nota sem skraut í glugga!