Þú uppskerð eins og þú sáir

Texti HEIÐUR AGNES BJÖRNSDÓTTIR  Myndir JÓN ÁRNASON

Menn hafa á því ýmsar skoðanir hvernig best sé að forrækta. Ég kýs að fara einföldu leiðina; sái öllum fræjunum á sama tíma og meðhöndla þau öll eins. Þannig kemst ég upp með að eyða ekki of löngum tíma í ræktunina en næ samt afar góðum árangri – jafnvel þótt þetta sé ekki eftir ströngustu aðferðafræði. Málið er að finna svo einfalda leið að maður gefist ekki upp.

 

AF HVERJU AÐ FORSÁ?

Í raun er hægt að rækta flest sem hugurinn girnist á Íslandi. Helsti vandinn er að sumar tegundir þurfa lengri vaxtartíma en íslenska sumarið býður upp á. Forræktun er ráð við því vandamáli. Þá eru plönturnar ræktaðar upp af fræi innanhúss, við „verndaðar aðstæður“, og hafa þannig fengið verulegt forskot þegar þær eru settar út. Plönturnar eru settar út þegar frost er farið úr jörðu og farið að hlýna, oftast í maí. Afar einfalt er að forrækta plöntur á þennan hátt, jafnvel í heimahúsum. Forræktunartíminn er yfirleitt 6-8 vikur. Þeir sem forrækta jurtirnar sínar komast fljótt að því að mun ódýrara er að gera það sjálfur, auk þess sem þannig er unnt að rækta það sem hugurinn girnist. Þótt úrval af forræktuðum tegundum í gróðrarstöðvum landsins hafi aukist ár frá ári er margt spennandi sem enn er ekki í boði. Önnur góð ástæða til að forrækta er að þannig fær maður uppskeru fyrr en ella. Því forrækta ég ekki eingöngu hægvaxta tegundir, heldur líka salat og krydd sem ég get byrjað snemma að nota í matseldina, jafnvel strax í apríl eða maí. Svo má ekki gleyma hversu gefandi það er að fylgja sínum eigin plöntum alla leið frá fræi að uppskeru. Þannig vitum við hvað hefur verið gert við plöntuna á öllum stigum ræktunarinnar. 

TEGUNDIR SEM GOTT ER AÐ FORRÆKTA

Hægvaxta tegundir. T.d. brokkólí, fennel, sellerí, sellerírót og rauðrófur. Sumir segja að allt rótargrænmeti þurfi að rækta á vaxtarstað en sjálf hef ég prófað mig áfram og hef t.a.m. komist að því að lítið mál er að forrækta rauðrófur og sellerírót. Flestar kryddtegundir er gott að forrækta, s.s. rósmarín, sem er sérlega hægvaxta, steinselju, dill, kóríander og basil. Chilli- og paprikuplöntur er sjálfsagt að forrækta og það er mjög auðvelt að forrækta vorlauk. Tegundir sem þið viljið fá snemma. Hér nefni ég aðallega salat. Hver vill ekki skipta út keypta salatinu fyrir heimaræktað sem allra fyrst? Stundum forrækta ég rucola og spínat, bara til að geta klipið blað og blað af plöntunum beint úr glugganum. Þetta eru hins vegar hraðvaxta jurtir sem annars er engin sérstök ástæða til að forrækta.

HVENÆR Á AÐ SÁ?

Heppilegur tími til að sá er frá miðjum mars til miðs apríl – jafnvel fram í apríllok. Ekki er ráðlegt að sá fyrr því þá skortir birtuna, sem plönturnar þarfnast.

GÖGN OG GRÆJUR

Sá sem ætlar að forrækta í fyrsta sinn þarf að útvega sér viðeigandi útbúnað: Fræ, mold og ílát. Þess utan er gott að hafa merkimiða svo ekki gleymist hverju var sáð hvar. Í gróðurvörubúðum er hægt að kaupa alls kyns búnað til að nýta við forræktun – margar tegundir af sáðbökkum, hólfabökkum og mold. Einnig fást sáðtöflur þar sem eitt fræ er sett í hverja töflu og nú er vinsælt að nýta gömul dagblöð og búa til potta, sem plönturnar eru færðar í eftir fyrsta stigið í sáðbakkanum. Aðalatriðið er að nota það sem hentar þér og þinni aðstöðu og flækja ekki málið.

Mold: Best er að nota sérstaka sáðmold, hún er hæfilega næringarrík fyrir smáplöntur og er einnig laus við sjúkdóma.

Ílát: Sjálf nota ég svokallaða sáðbakka fyrir fyrstu vikurnar í forsáningunni. Sáðbakki er tvöfaldur plastbakki; ytri bakkinn heill en í honum er annar bakki sem er með götum í botninum svo að vatn geti lekið út. Þannig er unnt að halda moldinni hæfilega rakri, en ekki er gott að fræin liggi í of mikilli bleytu. Ég nota sáðbakka með glæru plastþaki (eins konar míní-gróðurhús). Sá búnaður er afar hentugur því annars getur verið erfitt að halda jöfnum raka. Á plastþakinu eru túður sem gott er að hafa opnar. Þannig loftar betur um í sáðbakkanum. Þessi bakki er ekki með hólfum og þannig kem ég miklu fyrir í upphafi. Einnig er hægt að nota önnur ílát og breiða lauslega yfir þau með plastpoka. Síðar færi ég plönturnar í hólfaða bakka eða potta þar sem hver planta fær sitt rými.

Fræ: Það er óskaplega gaman að fara og kaupa fræ; úrvalið er svo mikið. Ég mæli með því að fólk skoði upplýsingarnar á bakhlið fræpokanna, ekki síst vaxtartímann, og velji þá tegundir með stystan vaxtartíma. Sum fræ eru merkt F1 sem þýðir að þau séu úrvalsfræ. Ég vel þau umfram önnur, enda gefa þau öflugar og góðar plöntur. Á fræpokunum er síðasti söludagur tilgreindur (sow by). Að sjálfsögðu kaupum við aðeins nýjustu fræin sem í boði eru. Yfirleitt eru upplýsingar um fjölda fræja í poka; það geta verið allt frá fimm fræjum upp í þúsund eða fleiri. Fólk hugsar ekki alltaf út í það að upp af hverju fræi vex ein planta. Það er þó bót í máli að auðvelt er að geyma fræin til næsta árs eða lengur. Þá er best að loka fræpokanum vel, stinga í skókassa og geyma á rakalausum stað, t.d. í geymslunni.

AÐ SÁ

Fræin sem við kaupum hafa verið þurrkuð og eru í raun í dvala. Þegar við sáum þeim erum við að búa svo um hnútana að þau vakni af þyrnirósarsvefninum og af þeim vaxi planta. Fyrst er sáðmoldin sett í sáðbakkann. Moldin er sléttuð og þjöppuð afar létt, u.þ.b. þrír cm ættu að vera upp að brún bakkans. Gott er að vera búinn að skipuleggja hvaða fræjum skal sá og í hvaða röð. Þá er fræjunum dreift yfir moldina. Mér finnst best að sá í raðir. Nú er sérstaklega mikilvægt að hafa í huga að upp af hverju fræi vex ein planta; fæstir þurfa því að nota öll fræin úr hverjum poka. Gott er að velta fyrir sér hve margar plöntur maður hafi pláss fyrir þar sem ætlunin er að rækta um sumarið. Þar sem ætlunin er að færa plönturnar í betra rými síðar er allt í lagi að hafa fræin nokkuð þétt, t.d. með hálfs til eins cm millibili. Þannig er tryggt að ekki fari of mikið fyrir forræktuninni fyrstu vikurnar og sjálf kemst ég vel af með tvo sáðbakka þótt ég forrækti ógrynnin öll af plöntum. Þegar sáningu er lokið eru fræin þakin mold, u.þ.b. hálfum cm. Sjálfsagt er að merkja eða skrá hjá sér hverju er sáð og hvar í sáðbakkanum; reynslan sýnir að slíkt gleymist ótrúlega fljótt. Næst þarf að vökva; þannig eru fræin vakin til lífsins. Ekki er ráðlegt að vökva beint á moldina því þá gætu bæði mold og fræ færst úr stað. Mér reynist best að væta yfirborð moldarinnar með því að úða varlega vatni á hana úr sprautubrúsa en vökva síðan rækilega í neðri bakka sáðbakkans.Moldin dregur vatnið í sig. Bakkann set ég í suðurglugga þar sem birta er næg. Þannig er þetta alveg eins og þegar fræjum er sáð beint á vaxtarstað úti í náttúrunni.

AÐ HUGSA UM LITLU KRÍLIN

Þegar fræ byrjar að spíra skýtur það út tveimur öngum. Annar vex upp og verður stilkur plöntunnar, hinn vex niður og verður rót. Fyrstu blöðin sem birtast eru svokölluð kímblöð. Þess eru dæmi að áhugasamir byrjendur hafi örvænt þegar kímblöðin birtust því þau voru ekkert lík plöntunum sem beðið var eftir. En allt er þetta eðlilegt því kímblöðin eru vissulega ólík næstu blöðum. Algengur spírunartími er 5-10 dagar. Spírunin getur þó tekið lengri tíma. Mjög mikilvægt er að moldin sé rök allan spírunartímann, þó ekki of blaut því þá gæti hún myglað. Hér kemur sér vel að hafa glæra plastþakið með loftgötunum og geta þannig temprað rakann. Fæstir geta víst verið að dunda sér við að fylgjast með krílunum allan daginn og þá er þetta hentugur búnaður. Gott er þó að „viðra“ plönturnar og lyfta plastþakinu af a.m.k. daglega. Besta leiðin til að vökva á spírunartímanum er að vökva beint í neðri bakka sáðbakkans. Þegar allar tegundir eru komnar upp er sjálfsagt að leyfa þeim að vaxa og styrkjast áður en þær eru færðar á nýjan stað. Þegar nokkur pör af blöðum (3-5 blaðpör) eru komin á plönturnar er óhætt að huga að því. Á sama tíma og stilkur og blöð vaxa er rót plöntunnar að stækka og eflast í moldinni.

 

MEIRA PLÁSS FYRIR PLÖNTURNAR

Nú er kominn tími til að færa smáplönturnar okkar og gefa þeim meira rými til að vaxa og þroskast. Þannig verða þær orðnar ansi sprækar þegar við setjum þær út til að herða þær. Þegar við kaupum forræktaðar plöntur úti í búð eru þær yfirleitt í ferhyrndum plasthólfum með götum á botninum. Ég nota slík hólf og færi smáplönturnar þangað úr sáðbakkanum. Þegar plönturnar eru færðar er mikilvægt að hafa í huga að trufla þær sem minnst. Gott er að vökva rækilega áður en kemur að flutningi, síðan er lyft undir moldina með gaffli eða öðru áhaldi. Moldin er full af rótum og verkefnið er að leysa plönturnar í sundur svo við getum sett eina í hvert plasthólf. Best er að ná taki á blaði plöntunnar en ekki taka um stilkinn. Í stilknum eru æðar sem kremjast auðveldlega á svo ungum plöntum en engu máli skiptir þótt eitt blað verði fyrir hnjaski. Plasthólfin eru fyllt af sáðmold, djúp hola gerð með blýanti eða öðru áhaldi og ein planta sett í hvert hólf. Hæfilegt er að setja plönturnar heldur dýpra en plantan var í sáðbakkanum, t.d. þannig að kímblöðin nemi við yfirborð moldarinnar. Síðan er moldinni þjappað varlega að; plantan þarf að vera vel föst en alls ekki í þrengslum. Því næst þarf að vökva vel og rækilega. Ég set hólfin í plastbakka og vökva beint í þá. Flutningur er alltaf álag fyrir plöntur, ekki síst þegar þær eru svona litlar. Því er gott að hafa þær ekki í beinni sól 2-3 daga á eftir – síðan er þeim óhætt í suðurglugganum eða þar sem pláss finnst á björtum stað. Plönturnar geta verið í plasthólfunum þar til okkur hentar að setja þær á endanlegan vaxtarstað. Ég mæli með a.m.k. 2-3 vikum, svo rótin nái að eflast og gera plöntuna þannig sterkari, en þessi tími getur líka verið mun lengri. Þeir sem hafa nóg rými á björtum stað geta sáð beint í plasthólfin og sleppa þá við þetta umstang. Mér finnst það reyndar afar lítið mál; það fer lítið fyrir þessu í stofuglugganum frá miðjum mars en töluvert meira fer fyrir plöntunum þegar þær eru komnar í plasthólfin. Þær geta verið áfram inni eftir hentugleikum en það er líka í lagi að setja þær út nokkrum dögum eftir flutninginn ef hlýtt er í veðri. Jafnvel má gefa þeim væga áburðarblöndu nokkrum dögum eftir flutninginn. Maxi Crop er lífrænn þaraáburður sem hentar vel. Við alla ræktun er aðalmálið að ná grunnatriðunum og öðlast þannig sjálfstraust í ræktuninni því þá eru allar leiðir færar.

GREININ BIRTIST FYRST Í TÍMARITI Í BOÐI NÁTTÚRUNNAR VOR 2012

 

Tögg úr greininni
, , ,