Lífrænt ævintýri

Neysla Íslendinga á lífrænni matvöru hefur vaxið hratt á undanförnum árum og er nú orðin meiri en í mörgum nágrannalöndum okkar. Þetta eru jákvæðar fréttir, auk þess að áherslan um mikilvægi þess að hafa gott vottunarkerfi og vitneskju um hvað felst í fullyrðingum og merkingum hefur aukist til muna. Við ræddum við frumkvöðul sem hefur tekist að þróa lífrænt fyrirtæki sitt lengra en flestir.

Þýska fyrirtækið Rapunzel er eitt af elstu og virtustu fyrirtækjum á sviði lífrænnar ræktunar og framleiðslu í heiminum í dag og er fyrirtæki mánaðarins á ibn.is. Það hefur framleitt lífrænar vörur og unnið af heilindum í framleiðslu sinni í fjóra áratugi, á sama tíma hefur hann barist fyrir betri heimi og bættum viðskiptaháttum. Við hjá Í boði náttúrunnar tókum stofnanda þess, Joseph Wilhelm, tali og spurðum hann um upphafið, hugsjónina og úthaldið.

Joseph hefur alla tíð haft áhuga á landbúnaði en hann ólst upp á sveitabæ í Grossaitingen í sunnanverðu Þýskalandi. Hann lauk prófi í landbúnaðarfræði með sérstaka áherslu á lífræna ræktun árið 1972 og þremur árum seinna stofnaði hann Rapunzel, ásamt Jennifer Vermeulen þáverandi eiginkonu sinni. „Áður en Rapunzel var stofnað vorum við tíu manna hópur hugsjónafólks með fullt hús af börnum. Við leigðum saman jörð þar sem við ræktuðum okkar eigið lífræna grænmeti. Draumurinn var að geta keypt okkar eigið land og til að afla fjár hófum við að selja grænmeti beint frá býli. Þetta var alveg í takt við okkar lífsstíl og mataræði og því náttúruleg þróun.“ Joseph átti þó ekki von á að það yrði ævistarfið.

Joseph hefur alla tíð haft áhuga á landbúnaði en hann ólst upp á sveitabæ í Grossaitingen í sunnanverðu Þýskalandi. Hann lauk prófi í landbúnaðarfræði með sérstaka áherslu á lífræna ræktun árið 1972 og þremur árum seinna stofnaði hann Rapunzel, ásamt Jennifer Vermeulen þáverandi eiginkonu sinni. „Áður en Rapunzel var stofnað vorum við tíu manna hópur hugsjónafólks með fullt hús af börnum. Við leigðum saman jörð þar sem við ræktuðum okkar eigið lífræna grænmeti. Draumurinn var að geta keypt okkar eigið land og til að afla fjár hófum við að selja grænmeti beint frá býli. Þetta var alveg í takt við okkar lífsstíl og mataræði og því náttúruleg þróun.“ Joseph átti þó ekki von á að það yrði ævistarfið.

„Fólk almennt hafði til að byrja með ekki mikla trú á okkur, en við vorum síðhærðir hippar í  Birkenstock-sandölum.“

„Fyrsta varan frá Rapunzel var múslí, en það var ekki hægt að fá lífrænt ræktað hráefni í það. Því varð úr að ég fór til Ítalíu og Tyrklands að heimsækja þarlenda bændur og var markmiðið að fá þá sem ég hitti til að fara út í lífræna ræktun og við keyptum hráefnið af þeim. Ég hugsaði þetta ekki einungis út frá mér heldur stærra samhengi. Ef bændur fóru út í lífræna ræktun urðu þeir einnig að hafa tækifæri til að geta selt sínar afurðir. Þetta er enn grunnhugsunin í okkar rekstri. Við getum aðeins snúið bændum yfir í lífræna framleiðslu ef þeir hafa kaupendur,“ segir Joseph en til að byrja með var Rapunzel mjög smátt í sniðum. Þau Joseph og Jennifer opnuðu verslun þar sem þau seldu lífrænt grænmeti, hnetusmjör, lífrænt múslí og nýbakað brauð. Þau settu einnig á fót heildverslun. Fyrirtækið stækkaði hægt og rólega og er nú eitt af leiðandi fyrirtækjum á þessu sviði. Það var til dæmis fyrsta fyrirtækið sem setti á markað lífrænt súkkulaði árið 1987. Um 350 manns starfa nú hjá Rapunzel í Þýskalandi þar sem fyrirtækið er með höfuðstöðvar, vöruhús og akra fyrir lífræna ræktun. Það selur lífrænar vörur til um þrjátíu og fimm landa, þar á meðal til Íslands. Joseph segir að sér finnist Rapunzel þó alls ekki vera stórfyrirtæki. „Það er passlega stórt,“ segir hann. „Það sem er sérstakt við Rapunzel er að við ræktum um helminginn af okkar vöru sjálf en hinn helmingurinn er ræktaður af bændum sem við erum í nánu samstarfi við. Þannig höfum við góða yfirsýn yfir okkar vörur, vitum nákvæmlega hvaða hráefni við erum með í höndunum og getum vottað að þær séu framleiddar á lífrænan máta og séu „Fair Trade“. Á þessum markaði eru margir sem framleiða ekkert sjálfir heldur kaupa hráefnið og setja síðan sinn vörumiða á það, en okkur hugnast ekki sú leið. Við viljum hafa þessa yfirsýn og gerum miklar kröfur um gæði. Við viljum ekki pressa verðið niður á kostnað gæða,“ segir hann ákveðinn. Þá nefnir Joseph að þau hafi aldrei gert viðskiptaáætlun, heldur hafi Rapunzel einfaldlega þróast á þennan ævintýralega hátt sem passar nafni fyrirtækisins vel, en það er nefnt eftir þýska ævintýrinu um Garðabrúðu. „Það eru margir sem trúa því ekki, en svona var þetta. Við erum ekki fædd sem frumkvöðlar heldur höfum við lært af reynslunni og gerum það enn. Ég held að það sé besta leiðin. Við höfum líka unnið hörðum höndum alla tíð, verið heppin og við byrjuðum á góðum tímapunkti því um þetta leyti var verið að opna heilsubúðir víðs vegar um Þýskaland og flestar þeirra komu í viðskipti við okkur.“

Síðhærð í sandölum

Joseph segir að í upphafi hafi fólk almennt ekki haft mikla trú á fyrirtækinu. „Við vorum síðhærðir hippar í  Birkenstock-sandölum og ekki beinlínis dæmigerð fyrir fólk í viðskiptum. En viðhorfið gagnvart okkur breyttist með tímanum og lífræn ræktun fór að njóta meiri hylli í Þýskalandi. Nú til dags er um fjögur prósent af matarmarkaðnum lífrænt ræktað, svo það er mikið verk enn óunnið. Þótt flestir segist kaupa lífrænar vörur er það þó ekki svo í raun. Aðeins sex prósent af matvælaframleiðslu í Þýskalandi er lífrænt ræktuð og ekki nema eitt prósent á heimsvísu. Ísland sker sig úr af þeim löndum sem við erum í viðskiptum við, þarlendis hefur sala á okkar vörum aukist mikið á síðustu misserum eða um 10-20% á hvern einstakling. Ef við seldum alls staðar jafnmikið og á Íslandi miðað við höfðatölu værum við orðin enn stærri,“ segir Joseph hlæjandi. En í Þýskalandi er mikið um sérhæfðar heilsuverslanir sem selja lífrænt ræktaða matvöru en á Íslandi fást slíkar vörur í flestum matvörubúðum. „Ég hef því miður aldrei komið til Íslands en mig langar að láta verða að því í sumar. Víðáttan og náttúran er eitthvað sem heillar mig. Ég eignaðist íslenska hesta fyrir tuttugu og fimm árum síðan en dóttir mín stundaði hestamennsku. Hún er hætt því en ég á enn þrjár hryssur af íslensku kyni. Íslenski hesturinn hefur svo yfirvegaðan karakter,“ segir hann glaður í bragði. Að lokum er Joseph spurður hvort hann myndi gera eitthvað öðruvísi en hann gerði þegar hann stofnaði Rapunzel. „Nei, ég myndi ekki gera neitt öðruvísi. Ég er þakklátur fyrir hvern dag, hvernig lífið hefur leikið við mig. Ég held að maður geti ekki gert mistök því á endanum er hver ákvörðun sú eina rétta fyrir mann. Allt sem maður gerir fer í reynslubankann og maður lærir af því. Það er ekki gott að líta svo á að eitthvað hafi verið mistök. Ég hef verið heppinn í lífinu, mér líður eins og ég hafi aldrei unnið fyrir peningum. Ég var tvítugur þegar ég byrjaði og markmiðið var aldrei að verða ríkur heldur hafa nóg fyrir mig og mína og láta gott af mér leiða,“ segir Joseph að lokum.

Rapunzel vörur fást meðal annars í Víði, Fjarðarkaup, Nettó og Hagkaup.

MEIRA RAPUNZEL:

Fáðu uppskrift af heilsusamlegum lífrænum spagettírétti HÉR

Fáðu uppskrift af lífrænum andlitsmaska HÉR

3 athugasemdir

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.