Mörg okkar hafa ákveðnar hugmyndir um hvernig líf við viljum lifa. Frá barnæsku sköpum við hugmyndir og drauma sem við viljum upplifa og gera að raunveruleika í framtíðinni.
Frá þeim tíma gerum við tilraunir til þess að gera þessa drauma að veruleika. Full af innblæstri, von og trú um að við getum gert þessa drauma að veruleika höldum við ótrauð áfram.
Í sumum tilfellum tekst okkur að skapa það sem við vildum og við upplifum það í þakklæti og gleði. Í öðrum tilfellum tekst það ekki. Við báðar þessar útkomur getum við sett okkur í sitthvora ,,gildruna”. Þegar okkur tekst að skapa það sem okkur dreymir um þá getum við átt á hættu að stoppa þar. Stoppa að dreyma þá og þar og ætlast til þess að þessi draumur sé stöðugur. Að þetta sé ákveðin útkoma sem maður staðnar í. Útkoma sem veitir manni endanlega hamingju.
Þetta getur verið áskrift á vanlíðan og komið í veg fyrir að við leyfum okkur að halda áfram að dreyma og skapa líf sem veitir okkur gleði og hamingju. Þannig er mikilvægt fyrir okkur að hætta ekki að láta okkur dreyma um líf okkar, halda áfram að dreyma og skapa líf okkar jafnóðum, því lífið er stöðug sköpun. Þannig eru draumar og markmið ekki stöðug heldur sköpunin sjálf. Hún heldur stöðugt áfram og það er mikilvægt fyrir okkur að nýta þann hæfileika í lífi okkar dags daglega, að halda áfram að dreyma og skapa drauma okkar á hverjum degi. Nýta þennan sköpunarkraft sem við búum yfir.
Þegar kemur að hinni útkomunni, þegar okkur tekst ekki að skapa draumana okkar er mikilvægt fyrir okkur að halda áfram að trúa á hæfileika okkar til að skapa drauma okkar. Hvort sem það er að skapa nýjan draum eða halda áfram að gera tilraunir til að skapa þennan sama draum. Það er ekkert gefið að okkur takist það í fyrstu tilraun og kannski þurfum við að opna okkur aðeins fyrir fleiri möguleikum. Stundum getum við verið svo föst í mjög ákveðinni ímynd af draumi okkar að við tökum ekki eftir öðrum frábærum tækifærum sem koma til okkar. Í öðrum tilfellum áttum við okkur á því að draumar okkar breytast og þá er um að gera að sleppa gamla draumnum og breyta stefnunni í átt að þeim nýja.
Það er auðvelt að gleyma því hversu lifandi og skemmtilegt þetta líf getur verið í þessari virku sköpun okkur á því. Við getum komið í veg fyrir upplifun okkar á stórkostlegu lífi með því að hafa of stífar hugmyndir um mjög ákveðna drauma í lífi okkar, ríghalda í drauma sem við höfum ekki lengur eða gera ráð fyrir að vissir draumar haldist stöðugir og gefi okkur endanlega hamingju.
Megið þið skapa það líf sem ykkur dreymir um og halda áfram stöðugri sköpun á því í gegnum líf ykkar !