Lifum betur – ferðumst betur

Slagorð Í boði náttúrunnar – Lifum betur, á alveg jafn vel við þegar kemur að ferðalögum. Við getum auðvitað alltaf ferðast aðeins betur. Það er a.m.k. hollt að staldra við áður en lagt er af stað og spyrja sig „hvernig get ég ferðast betur, fengið sem besta upplifun og haft góð áhrif á þá staði sem ég heimsæki. Við viljum jú skilja vel við eftir okkur og hafa jákvæð áhrif á áfangastaðinn ekki öfugt.

Hvað stendur upp úr?
Þegar ég lít til baka og velti fyrir mér hvaða ferðalög eða frí standa upp úr í minningunni þá eru það oftast ferðalögin þar sem ég hef verið að uppgötva eitthvað nýtt á framandi slóðum. Þá er mér ofarlega í huga fjölskylduferðin til Balí, þar sem við bjuggum meðal innfæddra og fórum m.a. í jarðarför eða bálför að hætti heimamanna. Skrautleg skrúðganga með líkið endaði með báli þar sem það var brennt í opinni kistu. Þetta var upplifun sem enginn í fjölskyldunni gleymir!
Það sem stendur upp úr hér heima er óvissuferð þar sem ég fór á puttanum um landið og vissi aldrei hvar ég mundi gista þá nóttina, og endaði ég svo eftir mjög sögulega ferð á sveitaballi með tökuliði James Bond myndar, en verið var að taka upp á Jökulsárlóni!

 

Ísland sem áfangastaður
Fast á eftir óvissuferðinni er ferð sem ég fór með fjölskyldunni í kringum landið þar sem við heimsóttum alla HandPicked-staðina, en HandPicked Iceland eru frí ferðakort sem flestir lesendur Í boði náttúrunnar kannast við. Fyrsta kortið fæddist í fyrsta tölublaðinu fyrir níu árum síða, og byrjuðum við á mat og gistingu. Í þeirri ferð fórum við á staði sem við höfðum aldrei farið á áður, og voru þeir oft á tíðum úr alfaraleið. Við hittum heimafólkið og upplifðum svo margt sem var svo ólíkt öðrum ferðum okkar um landið, sem snerust oftast um það að bruna frá áfangastað A til B.
Í dag reyni ég að skapa skemmtilega blöndu af heimsóknum, upplifun og spennandi uppgötvun á ferðalaginu um Ísland, sem ég svo deili með ykkur og erlendum gestum á HandPicked-kortunum. Ég kem iðulega heim full aðdáunar og einnig þakklát fyrir að hafa haft tækifæri til að kynnast frábærum einstaklingum úti á landi, sem eru að gera eitthvað einstakt og ekta, hvort sem það tengist mat, heimagerðum vörum eða upplifun.
Allir HandPicked-staðirnir eru valdir af mér og nokkrum vandlátum vinum, og reynum við eftir bestu getu að velja umhverfisvæna staði með sjálfbærni að leiðarljósi. Nokkur góð dæmi um slíka áfangastaði eru í nýjasta blaðinu. Ég uppgötvaði t.d. litlu sveitabúðina á Völlum í Svarfaðardal á ferðalagi mínu í fyrrasumar en þar selur Bjarni á Völlum lífræna framleiðslu, allt ræktað á staðnum. Nú er búðin komin á Local shop kortið ásamt versluninni Flóru á Akureyri. Við völdum Flóru í Fyrirtæki til fyrirmyndar, sem er fastur liður hjá okkur. Þar eru seldar fallegar umhverfisvænar vörur og gott expressó frá „local“ kaffibrennslu.

Austfirsku alparnir 
Við útbjuggum kort af Austfjörðum sem verður ómissandi fyrir alla austurfara. Á því má finna áhugaverðar náttúruperlur, afþreyingu og að sjálfsögðu handvaldar sýningar, verslanir og veitingastaði.

Við förum í hellisleiðangur fyrir austan í boði Wapp app, og erum með hugmyndir og innblástur sem mun hjálpa þér að ferðast betur.

Þrír vaskir ferðalangar gefa upp hvað þeim finnst ómissandi á ferðalagi. Þá fræðumst við um þann lærdóm sem fjölskylda dró af ferðalagi sínu um heiminn í fimm mánuði í leit að svarinu við langlífi og margt margt fleira.
Ég get lofað þér, kæri lesandi, að ef þú tekur þetta blað og/eða HandPicked Iceland fríu ferðakortin eða Appið fyrir Iphone með í ferðalagið, þá munt þú ferðast betur í sumar og skapa dýrmætar minningar í leiðinni.

GÓÐA FERÐ,
Guðbjörg ritstýra

HANDTEIKNAÐA ÍSLANDSKORTIÐ OKKAR FYLGIR FRÍTT MEÐ SUMAR BLAÐINU OKKAR EF ÞÚ KEMUR Í ÁSKRIFT HÉR.

„Life is a journey not a race“!