Vatnakarsi – græna gullið!

Vatnakarsi er eins og nafnið gefur til kynna vatnajurt sem vex gjarnan við læki og á vatnasvæðum. Þó ekki hér á landi. Vatnakarsi er djúpgrænn að lit, skyldur sinnepslaufum og minnir bragðið allnokkuð á rúkóla (en mörgum þykir vatnakarsinn mun bragðbetri): Vatnakarsi er líklega næringarríkasta grænmeti jarðar og á sér langa sögu. Faðir læknisfræðinnar, Hippocrates, gætti þess að byggja fyrsta sjúkrahús sitt á Kos í námunda við lendur vatnakarsa. Nú hafa vísindin sannað að í vatnakarsa er meira járn en í spínati, meira C-vítamín en í appelsínu, meira kalk en í mjólk og hreint ótrúlegt magn af K-vítamíni. Nú má loks með nokkuð auðveldum hætti nálgast vatnakarsa hér á landi, sem við systur æltum að nýta okkur óspart í Systrasamlaginu á komandi misseri. Og erum þegar byrjaðar.

 Fyrir utan einstakan lækningamátt er mjög töfrandi hve vatnakarsinn hefur fjölbreytta notkunarmögleika. Hann er bragðbestur hrár og það er dásamlegt að nýta hann í köld og heit salöt og allskyns sósur. Vatnakarsi er einnig frábær í súpur vegna piparbragðsins. Þá er löng hefð fyrir því í Bretlandi að nota vatnakarsa sem viðbit í samlokur til að maula með síðdegistebollanum. Í dag er vatnakarsi, eða græna gullið, að verða uppistaðan í hollustu ofurþeytingum um víða veröld.

Hver er galdurinn?

Lækningamáttur vatnakarsa er í raun mjög þekktur en þessi jurt öðlaðist sess snemma í mannkynssögunni. Faðir læknisfræðinnar Hippocrates hafði vatnakarsa strax í hávegum 400 f.Kr. Eins og við sögðum frá í inngangi gætti Hippocrates þess að byggja sjúkrahús sitt á vatnasvæði nálægt breiðum af vatnakarsa til lækninga fyrir sjúklinga sína. Á 18. öld skrifaði Nicholas Culpeper (höfundur Culpeper’s Herbal) að vatnakarsi hreinsaði blóðið. Nútímavísindin hafa nú náð að rannsaka vatnakarsa og komist að þvi að hann inniheldur 15 lífsnauðsynleg vítamín og steinefni en í þessari einu jurt, sem ekki lætur mikið yfir sér, er til að mynda meira járn en spínati, meira kalk en í mjólk og meiri C-vítamín en í appelsínu.
Það sem vekur sérstaka athygli er að vatnakarsi inniheldur fáar hitaeiningar en alveg sérlega mikið af jurtanæringu. Næringarefni á borð við isothiocyanates og andoxunarefni með gnægð af efnum sem vinna gegn allskyns sjúkdómum. Það eru þar efnin gluconasturtiin og glucosinolate sem gefa vatnakarsa piparbragðið og gera hann að jafn spennandi ofurfæðu og raun ber vitni. Piparefnin eru bæði að finna í laufum og stilkum vatnakarsans og færa okkur jafnframt efnið phenethyl isothiocyanates, sem vísindalegar rannsóknir sýna að dragi úr mörgum tegundum krabbameina.

Ótrúlegt magn af K-vítamíni

Einn af leyndardómum vatnakarsans er þó ríkulegt magn af frábæru og auðupptakanlegu K-vítamíni, en í aðeins 100 grömmum eru 312% af ráðlögðum dagskammti. Þessi góðu tíðindi ýta svo svo sannarlega undir það að við ættum að bæta vatnakarsa inn í daglega fæðu okkar. K-vítamín sér nefnilega um myndun og styrk beina og ver heilann gegn taugaskemmdum. Hefur skortur á K-vítamíni m.a. verið tengdur Alzheimer sjúkdómum. Og þarna komum við að kjarna málsins, það vita það nefnilega fáir að K-vítamín er bráðnauðsynlegt hjálparefni D-vítamíns, svo að hið síðarnefnda nýtist okkur til fulls og rati á rétta staði í líkamanum.

Watercress-001

…og öll hin næringin!

Vatnakarsi geymir jafnframt 74% af dagskammti C-vítamíns. Fast á hæla þess kemur A-vítamín með 64% af ráðlögðum dagskammti. Gott C-vítamín, eins og er að finna í vatnakarsa, er á topplista vítamína til að koma í veg fyrir sýkingar og ver okkur gegn kvefi og flensu. Auk þess viðheldur C-vítamín heilbrigðum vef og vinnur samhliða járni, sem mikið er af í þessarri iðagrænu lækningajurt, gegn járnskorti. A-vítamínið sem er einnig þekkt undir heitinu retinol er lífsnauðsynlegt sterku ónæmiskerfi og styrkir sjónhimnuna, sem meðal annars forðar okkur frá náttblindu. Meðal annarra lífsnauðsynlegra vítamína í vatnakarsa er mangan sem er hjálparefni andoxunarensímsins superoxide dismutase (þekkt sem SOD). Það er fágætt og öflugt efni sem sýrujafnar vefi líkamans og heldur okkur ungum og liprum. Í vatnakarsa er líka gnótt kalks fyrir sterk bein og tennur. Einnig má nefna andoxunarefnin ß karótín, zeaxanthin og lúten sem vernda lungun og B-vítamínin; ribóflavin, níasín, B6-vítamín (pyridoxine), þíamín og pantóþensýru sem öll vinna saman að því að halda efnaskiptum líkamans í hámarki.

Vatnakarsi fyrsti skyndibitinn

Stundum er talað um vatnakarsa sem fyrsta skyndibitann. Hann óx víða og því aðgengilegur mörgum Evrópubúum og Bandaríkjamönnum á 20. öld. Vatnakarsi var gjarnan uppnefndur “fátækramannabrauð”. Knippi af vatnakarsa var rúllað upp í strýtu og hann borðaður eins og samloka enda mjög bragðgóður. Óneitanlega afar gott, gefandi og næringarríkt ferðanesti sem þeir fátæku nutu góðs af.

Vatnakarsaátak í Systrasamlaginu

Þar sem við í Systur erum í góðu samstarfi við Lambhaga höfum við ákveðið að hefja VATNAKARSA ÁTAK í lok sumars og byrjun hausts. Þannig höfum ákveðið að bjóða upp á ofurþeytingin kókosvatn með vatnakarsa alla virka morgna í Systrasamlaginu. En kókosvatn er einstaklega næringarríkur drykkur og raun svo steinefnaríkur – sérstaklega af kalíumi – að hann slær öllum íþróttadrykkjum við. Í bland við vatnakarsa er því hér um að ræða ómótstæðilegan heilsudrykk sem flestir ættu að gæða sér á daglega, eða að minnsta kosti oft í viku.

Í raun smá segja að vatnakarsi sé að fá uppreisn æru. Um fátt er meira rætt meðal heilsuáhugafólks víða um heim en einstöku hollustu vatnakarsa.

Síðar munum við systur bæta vatnakarsa við einhverjar af okkar næringarríku súrdeigssamlokum. Og reglulega munu fást nærandi smásamlokur í Systrasamlaginu með osti, gúrku og vatnakarsa að hætti Breta. En þó hollari útgáfa þar sem við munum nýta okkur súrdeigsbrauðið frá Sandholts bakaríi úr lífrænt ræktuðu heilhveiti.

Hér eru tvær magnaðar rannsóknir áhrif vatnakarsa á krabbamein:
www.medicalnewstoday.com/articles/63314.php, Watercress: Anti-Cancer Superfood, Jan. 2013
www.sciencedaily.com/releases/2010/09/100914115240.htm, Watercress May ‘Turn Off’ Breast Cancer Signal, Jan. 2013

Og hér eru mælingar sem styðja að að vatnakarsi sé eitthvert næringarríkasta grænmeti (lækningajurt) jarðarkúlunnar.

Tögg úr greininni
,