Ljúffengur pottréttur

Fyrir þá sem vilja byrja vikuna með krafti er hérna uppskrift af æðislegum heitum pottrétti. Hann er stútfullur af næringarefnum og einstaklega ljúffengur í þokkabót.

Innihald: /  1-2 msk kókosolía eða ghee / 1 laukur / 1/2 jalapeno / 2-3 cm ferskt engifer /1 sæt kartafla / 2 stilkar sellerí / 1 lítið brokkolíhöfuð / 3-4 gulrætur / 1 rauð papríka / 1 bollirauðar linsubaunir.

Krydd: / 2 msk hollur grænmetiskraftur / 1/4 tsk kardimomma / 1/4 tsk kanill / 1/2 tsk karrí / 1/2 tsk turmeric / 2-3 lárviðarlauf / nokkur svört piparkorn / smá maldonsalt / 1/2 líter vatn / 1 dós kókosmjólk / 3 dl maukaðir tómatar í flösku.

Þessi uppskrift er frekar stór eða fyrir ca. 6-8 manns. En mér finnst gott að elda mikið og taka með í nesti daginn eftir.

  1. Byrjið á skera allt grænmetið niður.
  2. Skerið laukinn frekar smátt og mýkjið hann í olíu eða ghee en ekki brúna.
  3. Skerið engiferið og jalapeno-ið smátt niður og setjið út í.
  4. Bætið síðan við sætu kartöflunni, selleríinu, gulrótunum, brokkolíinu og papríkunni.
  5. Kryddið.
  6. Setjið svo vatnið út í og látið malla í ca. 1/2 tíma þannig að rétt sjóði. Ekki hafa of mikinn hita.
  7. Hreinsið linsubaunirnar og setjið út í.
  8. Bætið tómötunum í flösku og kókosmjólkinni út í.
  9. Látið malla í 1/2 tíma.
  10. Því lengur sem þið getið látið réttinn vera í pottinum, því betra. Ég t.d. set þennan rétt stundum upp á morgnana þegar ég er heima og læt hann malla við lágan hita. Ég slekk bara undir þegar ég skrepp út og kveiki aftur undir seinnipartinn þegar ég kem heim. En auðvitað þarf það alls ekki, bara svo gott svoleiðis ef tími leyfir.

pottréttur

Ég keypti mér leirpottinn sem ég eldaði réttin í, í búðinni Sur la Table þegar ég heimsótti Seattle. Það fyrsta sem ég gerði þegar ég kom heim var að kíkja á netið og googla “cast iron pot recipes“. Ég skoðaði nokkrar og ákvað svo bara að skella því sem ég átti í pottinn. Úr varð þessi dásamlegi pottréttur sem átti fyrst að vera súpa. Systir mín kom svo daginn eftir og fékk að smakka hann kaldan. Kannski var hún súpersvöng en hún alla vega malaði meðan hún borðaði :) Ég elska þegar fólk verður svona hrifið af því sem ég geri. Best í heimi!

Það sem er svo frábært við þennan pott er að hann getur líka farið inn í ofninn. Hér geturðu kíkt á pottinn og séð litina sem til eru :http://www.surlatable.com/product/PRO-1315373/Sur+La+Table+Red+Round+Oven+7+qt.

Verði ykkur að góðu!

1 athugasemd

Lokað er fyrir athugasemdir