MÁLSTAÐURINN: ÞJÓRSÁRVER

Sigþrúður Jónsdóttir, náttúrufræðingur, hefur unnið markvisst að vitundarvakningu um einstaka náttúru Þjórsárvera árum saman. Hún hefur verið í framvarðasveit þeirra sem hafa staðið fyrir baráttufundum og safnað undirskriftum gegn virkjunaráætlunum á svæðinu sem og gert athugasemdir við hvernig ferlum til slíkra framkvæmda er háttað. Sigþrúður hlaut nýlega Náttúruverndarviðurkenningu Sigríðar í Brattholti fyrir baráttu sína fyrir verndun svæðisins. En árið 2017 var loksins samþykkt að friðland Þjórsárvera yrði fjórfaldað að stærð.

Hver er þinn bakgrunnur?

Ég er alin upp í Eystra-Geldingaholti í Gnúpverjahreppi, þar sem ætt mín hefur búið síðan um 1840, svo ég á þar djúpar rætur. Ég var ánægð með að eiga heima í sveit. Dýrin voru vinir mínir og snemma fór ég að þekkja blóm og plöntur og njóta þess að ganga um hagana heima.  Eins og önnur börn í sveitinni fór ég í Ásaskóla, auðvitað með skólabíl. Ég held að skólastjórinn sem þá var, Birgir Sigurðsson rithöfundur, hafi líka haft áhrif á hvernig ég leit á landið og náttúru þess. Eftir stúdentspróf frá MH nam ég líffræði við HÍ  einn vetur en fór síðan til Wales þar sem ég tók BS-próf í landbúnaðarfræðum og síðan MS-próf í beitar- og úthagafræði.

Hvernig kviknaði áhuginn á málstaðnum?

Ég er alin upp við frásögur af afréttinum, en Þjórsárver eru nyrsti hluti Gnúpverjaafréttar, þ.e. öll verin vestan Þjórsár tilheyra honum. Ég hreifst af þessum frásögnum og skynjaði að þarna væri eitthvað sérstakt að finna, ekki síst fyrir innan Sand, eins og svæðið var kallað. Þangað vildi ég fara og komst þangað fyrst haustið 1984 í fjallferð.  Það var engu líkt og ógleymanlegt að vera stödd í þessum mikla fjallasal andstæðna, lítt gróinn sandur, stórkostlegur gróður og svo hvítur Hofsjökull í bakgrunni.  Þarna var ég loks komin á hryssunum mínum tveimur ásamt öðrum fjallmönnum.

Af hverju telur þú að vernda þurfi Þjórsárver?

Vegna gróðursins sem er einstaklega tegundaríkur og mikill, bæði votlendi, t.d. freðmýrar og þurrlendi, vegna vistkerfanna, landslagsins og landslagsheildarinnar, víðernisins sem þarna er og fuglalífið. Þarna eru t.d. mikilvægar varpstöðvar heiðargæsastofnsins, menningarminjar og mikil friðsæld. Þjórsárver eru einstök og aðeins ein slík til á jörðinni.

Hefur baráttan náð einhverju fram?

Já, svo sannarlega. Upp úr 1970 voru uppi áform um að sökkva nánast öllum Þjórsárverum með risastóru uppistöðulóni. Þá var efnt til fundar hér í sveit til þess að ræða þessi áform og þar var samþykkt mjög skýr og ákveðin ályktun gegn þessum hugmyndum. Það varð til þess að hik kom á málið og ekkert varð af. En hugmyndin dó ekki heldur breyttist og mikil fundahöld tóku við og lónið minnkaði smám saman. Árið 2001, eftir nokkurt hlé á málinu, var enn ein útgáfan sett í umhverfismat, lónshæð í 757 m.y.s. og lónið hefði orðið rúmir 30km2. Þá hófst á ný mjög hörð og löng barátta, sem má segja að hafi nú náð þeim árangri að búið er að stækka friðlandið, og þá ætti ekki að vera mögulegt að byggja stíflu og gera lón.

Hvað gefur þetta þér?

Svona barátta gefur mér svo sem ekkert, nema vinnu og áhyggjur, en baráttan er knúin áfram af hugsjón. Það er ekki nokkur leið að gera ekki neitt þegar sannfæringin er sú að eitthvað sé rangt. Launin fær maður þegar góðir áfangar nást, þá er gleðin djúp og hrein og maður er þakklátur. Í þessari vinnu og baráttu hef ég kynnst mörgu vönduðu og góðu fólki, sem er mjög dýrmætt. Enginn gerir neitt einn í svona málum og enginn hagnast fjárhagslega á því að gefa tíma sinn og verja lífi sínu í verndunarbaráttu sem þessa.

Hvað hefur þetta reynt mest á?

Á taugarnar! Þetta er langhlaup og reynir á úthald í þrautseigju. Það er erfitt að berjast fyrir einhverju sem maður veit að er gríðarlega verðmætt og mikilvægt eins og náttúran sjálf, og mæta skilningsleysi. Það reyndi líka á þegar fólk talaði af virðingarleysi og vanþekkingu á svæðinu, og fór hreinlega með rangt mál- sem sumir trúðu. Það þykknaði oft í mér við það!

Hver er staðan á svæðinu og verndun þess í dag?

Nú er búið að stækka friðlandið, þótt ég hefði viljað sjá það stækka miklu lengra til suðurs, niður með Þjórsá. Þannig að stórfossar hennar hefðu verið innan friðlandsins. Nú má segja að öll Þjórsárver séu friðland, og um það gilda ákveðnar reglur. Verndun svæðisins er mun víðtækari eftir stækkunina og markmið friðlýsingarinnar eru skýr, hún á að tryggja víðtæka og markvissa verndun Þjórsárvera. Þar má ekki gera neitt sem veldur röskun eða eyðileggingu á náttúru, landslagi eða menningarminjum. Í gamla friðlýsingarskilmálanum var vafasamt ákvæði um undanþágu frá friðlýsingunni vegna uppistöðulóns, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.

Hver er draumsýn þín fyrir þetta svæði og landið í heild?

Minn draumur er að Þjórsárver fái að vera í friði og fái að þróast á eigin forsendum. Hvað landið varðar þá verðum við að breyta hugsunarhætti og hætta að ofnýta og eyðileggja vistkerfin. Ég er að tala um sjálfbæra landnýtingu sem gengur ekki á auðlindir og eyðir þeim ekki. Því miður hefur borið á því að hugtakið sjálfbær er misskilið.

Eitthvað minnisstætt atvik sem hefur skipt sköpum, eða saga sem tengist þessu ferli öllu?

Þetta er orðin 45 ára löng og flókin saga og fjölmörg atriði sem hafa skipt máli. Áfangar hafa náðst með litlum skrefum en ekki stökkum. Stór og fjölmennur fundur, sem haldinn var í Austurbæjarbíói í nóvember 2002, er mér mjög minnisstæður. Þar fann maður eldmóð, mikla samstöðu og einstakan anda sem gaf okkur, sem þá stóðum í stafni, von og kraft. Þessi fundur hafði áhrif á ráðamenn.

Ef fólk vill styðja þetta málefni eða önnur svipuð hvað getur það gert?

Verið vakandi og fylgst með. Lagt sitt af mörkum til varnar landsvæðum og náttúru gegn sérhagsmunum og ásókn í náttúruauðlindir. Fólk getur gengið í náttúruverndarsamtök, þau gegna lykilhlutverki og því öflugri sem þau eru því meiri líkur eru á að okkur takist að vernda ómetanlega og sérstaka náttúru Íslands, sem nú þegar hefur verið skert. Við þurfum að átta okkur á að við þurfum að verjast sinnuleysi, græðgi og sérhagsmunum, sem oft eru skammsýn.

VIÐTALIÐ BIRTIST Í VETRARBLAÐI Í BOÐI NÁTTÚRUNNAR 2018: www.ibn.is/askrift

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.