Rafbílar – Með fullan tank af íslenskri náttúru

TEXTI  Sif Ásthildur Guðbjartsdóttir

Hver hefði trúað því fyrir nokkrum árum að hreinir rafbílar myndu verða stór hluti af bílaflota Íslendinga, sem nú er raunin. Íslendingar sækja í auknum mæli í umhverfisvæna lífshætti og aukin rafbílaeign er hluti af þeirri þróun. Ég hef verið þeirrar ánægju aðnjótandi að fá að prufukeyra flesta þá rafbíla sem eru á markaðnum í dag. Rafbílar hafa marga kosti eins og góða aksturseiginleika og mikið afl. Þeir eru umhverfismildir og ganga fyrir hreinni íslenskri orku, rafmagninu, sem við eigum nóg af í okkar fallegu náttúru. Einnig eru rafbílar rekstrarlega hagkvæmir og sérlega smekklega hannaðir, sem eykur enn frekar á vinsældir þeirra. Sumir eru sannkölluð krútt en aðrir lúxuskerrur. 

Gríðarleg aukning hefur orðið á hreinum rafbílum hér á landi á síðustu árum. Árið 2014 voru 94 rafbílar skráðir á Íslandi en þeim hefur nú fjölgað í rúmlega 6.200, samkvæmt tölum frá Samgöngustofu í desember 2020. Tesla 3 rafbíllinn var mest selda einstaka bíltegundin hér á landi á síðasta ári en alls seldust 858 bílar af þeirri tegund árið 2020. Þetta markar tímamót því aldrei áður hefur rafbíll trónað á toppnum í bílasölu hérlendis. Ríflega 250% aukning var í nýskráningum hreinna rafbíla hér á landi á síðasta ári miðað við árið 2019.

Ríflega 250% aukning var í nýskráningum hreinna rafbíla

Borgar sig að eiga rafbíl?

Kostir rafbíla eru ótvíræðir. Með íslenska orku á bílnum verður umhverfið hreinna og buddan léttari. Rafbílar eru knúnir áfram með hreinu íslensku rafmagni, sem við eigum nóg af, í staðinn fyrir að brenna jarðefnaeldsneyti og losa CO2 út í andrúmsloftið með tilheyrandi kolefnissporum. Þriðjungur gróðurhúsalofttegunda kemur frá vegasamgöngum. Rafvæðing fólksbílaflotans mun skila mestu til að minnka þessa miklu losun. Stjórnvöld hafa lagt mikið fjármagn í átak varðandi orkuskiptin og markvissa uppbyggingu innviða svo landsmenn geti keyrt um landið og hlaðið hvar sem er.

Þá eru rafbílar sömuleiðis ódýrari í rekstri þar sem mun ódýrara er að hlaða bílinn með rafmagni en að kaupa bensín eða dísil. Útblástur er enginn og hljóðmengun er lítil sem engin. Einnig eru bifreiðagjöldin lægri og víða eru frí sérmerkt bílastæði þar sem jafnvel hægt er að hlaða bílinn frítt.

Á hverju ári keppast bílaframleiðendur um að kynna nýja rafbíla til sögunnar

Mikil þróun hefur verið á rafbílum síðustu ár. Rafhlöður eru orðnar mun öflugri og drægnin meiri. Bílaframleiðendur hafa flestir hverjir aukið framleiðslu á rafbílum og mikil samkeppni er fram undan á þessum markaði hjá öllum stærstu bílamerkjunum. Á allra næstu misserum er von á mörgum skemmtilegum nýjungum í rafbílaflóruna hér á landi.

Hvaða rafbílar búa yfir mestri drægni?

Tesla 3 býr yfir mestri drægni af rafbílum á markaðnum eða 580 km. Hann er líka sá aflmesti, er 3,3 sekúndur úr kyrrstöðu í hundraðið. Næst kemur Jaguar I-Pace með 470 km drægni. Audi E-Tron dregur 417 km og Mercedes-Benz EQC einnig. Nissan Leaf er með 364 km drægni. 

Drægnin miðast við svokallað WLTP-staðal Evrópusambandsins og bestu hugsanlegu aðstæður eins og bílaframleiðendur taka ávallt skýrt fram. Í raun er drægnin alltaf eitthvað minni en þessar tölur segja til um því það spilar ýmislegt þar inn í, sem dregur úr orkunotkun rafhlaðnanna. Meðal annars veðurfar og hversu mikið ökumaður notar miðstöðina, útvarp og þess háttar tæki í bílnum. 

Nýjungar í öllum stærðum og gerðum

Fyrstu rafbílarnir, sem litu dagsins ljós og komu á markað fyrri hluta síðasta áratugar, voru Nissan Leaf, Tesla Model S, Renault Zoe og Kia e-Soul. Í dag er mun meira úrval af rafbílum, allt frá nettum og liprum borgarbílum upp í glæsilega sportjeppa og jafnvel sendibíla. Í upphafi ársins 2021 gátu kaupendur nýrra rafbíla valið úr 23 tegundum frá 15 framleiðendum. Þessir bílar kosta á bilinu 3-13 milljónir króna. Nýjustu rafbílarnir á markaðnum eru margir hverjir mjög spennandi og flottir, bæði hvað hönnun og tækni varðar. Fyrrnefnd Tesla 3 kom á markað fyrir stuttu og hefur náð miklum vinsældum eins og sölutölur sýna og hefur heillað neytendur með fegurð sinni og krafti. Aðrir rafbílar, sem hafa vakið mikla eftirtekt, eru sportjeppinn Jaguar I-Pace, sem valinn var bíll ársins á Íslandi 2020 af Bandalagi íslenskra bílablaðamanna auk þess að vera valinn heimsbíll ársins. Mercedes-Benz EQC og Audi E-Tron þykja einnig afar spennandi en þetta eru fyrstu lúxusrafbílarnir í flokki sportjeppa, sem er vinsæll flokkur og fer ört stækkandi. Hinn netti og laglegi borgarbíll, Honda e, er glænýr og hefur fengið mikla athygli fyrir nýstárlegt útlit og fallega hönnun. Það er því óhætt að segja að hinn vistvæni ferðamáti rafbílsins verði sífellt vinsælli og á hverju ári keppast bílaframleiðendur um að kynna nýja rafbíla til sögunnar. Við Íslendingar erum nýjungagjörn þjóð og erum óhrædd við að fara nýjar leiðir. Bílafloti okkar er að endurnýjast og höfum við tekið rafbílavæðingunni fagnandi. Við erum stolt af okkar mögnuðu náttúru, sem við bæði getum nýtt og notið á rafbílnum. 

Fjöldi hleðlustöðva skiptir máli

Hleðslustöðvum fer fjölgandi á landinu, sem er nauðsynlegt fyrir innviði rafbílavæðingarinnar. Drægni rafbíla er sífellt að aukast með fullkomnari rafhlöðum eins og áður var nefnt. Lengri ferðalög á rafbíl eru þar af leiðandi  að verða auðveldari kostur bæði vegna meiri drægni en einnig vegna þessarar fjölgunar hleðslustöðva um land allt . Það á bæði við um hrað- og hæghleðslustöðvar, sem eru 50 kW og 22 kW. Þá hefur einnig orðið hröð þróun í hleðslustöðvum og reisti ON fyrstu 150 kW hraðhleðslustöðina hér á landi í fyrra, sem mun hlaða rafbílanna þrisvar sinnum hraðar. Fjöldi hraðhleðslustöðva hefur margfaldast á síðustu árum. Ísorka hefur sett upp 300 hleðslustöðvar um allt land, sem hægt er að nota með appi eða lykli frá þeim. Sama má segja um ON, sem hefur sett upp hátt í 60 stöðvar, sem hægt er að finna í appinu þeirra.

Sumir rafbílaeigendur þjást af svokölluðum drægnikvíða

En sumir rafbílaeigendur þjást af svokölluðum drægnikvíða eins og þeir lýsa sjálfir. Þeir hafa áhyggjur af því hvort þeir nái í hleðslustöð í tæka tíð áður en bíllinn verður rafmagnslaus. Þetta á þó meira við í lengri ferðalögum en styttri. Í þessu sambandi er gott að hafa hugfast að afköst rafhlaðnanna rýrna í kulda. Í vetrarkuldum finna rafbílaeigendur vel fyrir þessu því drægnin styttist. Í ofanálag þarf að stilla í hóf notkun miðstöðvar, og rúðu- og sætahitara og þess konar búnaðar, sem krefst mikillar orku. Þessi búnaður gengur hraðar á orkuforða rafhlaðnanna.

Rafmagnsnotkun kostar um 1.700 kr./mán. þegar rafbíll er hlaðinn heima

Hleðslutími og verð

Oftast er hægt að ná um 80% af hleðslu á 20-40 mínútum í hraðhleðslu 50 kW en í heimahleðslustöðvum 22 kW en það tekur um 7-8 klukkustundir að fullhlaða bílinn og flestir hlaða heima hjá sér yfir nóttina. Rafmagnsnotkun kostar um 1.700 kr./mán. þegar rafbíll er hlaðinn heima, samkvæmt upplýsingum frá ON og er þá miðað við 12.500 km akstur á ári. Verð í hraðhleðslu hjá ON er 50 krónur kWst en í hæghleðslu 25 krónur kWst.

Hvað verður um rafhlöðurnar?

Fjölgun rafbíla kallar fram þá spurningu hvað eigi að gera við rafhlöðurnar þegar hlutverki þeirra lýkur. Langflestir nýir rafbílar nota lithíumrafhlöður, sem eiga að endast alla vega í sjö til tíu ár, samkvæmt ábyrgðartíma bílaframleiðenda. Aftur á móti er ekki mikið um að lithíumrafhlöður séu endurunnar en fyrirtæki í Evrópu og Bandaríkjunum vinna nú að tilraunaverkefnum fyrir endurvinnslu rafhlaðna. Nokkur þeirra hafa lýst því yfir að þau muni geta endurunnið allt að 90% rafhlaðna í rafbíla fyrir 2025. Stjórnvöld víða um heim hafa sýnt þessu máli aukinn skilning og Evrópusambandið og stjórnvöld í Kína hafa þegar kynnt reglur sem gera bílaframleiðendur ábyrga fyrir endurvinnslu eigin rafhlaðna.

Fyrirtæki í Evrópu og Bandaríkjunum vinna nú að tilraunaverkefnum fyrir endurvinnslu rafhlaðna

Hönnun sem tekið er eftir

Bílahönnuðir leika stórt hlutverk í bílabransanum og eru óhræddir við að fara út fyrir kassann þegar kemur að því að hanna nýja rafbíla. Bílarnir eru hannaðir til þess að vekja eftirtekt og löngun, bílar sem eftir verður tekið á götunum. Til dæmis má nefna ljósabúnað rafbíla, sem telst framúrstefnulegur á sviði lýsingarhönnunar. Einnig er mælaborð flestra rafbíla með tæknilegum og stórum flatskjá þar sem allar helstu aðgerðir eru framkvæmdar. Hönnun rafbílanna Honda e og Jaguar I-Pace þykir sérstaklega nýstárleg og athyglisverð og hafa báðir bílar unnið til fjölda alþjóðlegra hönnunarverðlauna. Honda e er lipur borgarbíll með myndavélar í stað hliðarspegla og með innanrými, sem er stílhreint og nýstárlega hannað. Hann er óhefðbundinn í útliti og býr yfir alls kyns skemmtilegum eiginleikum. Hurðaopnunin er til dæmis slétt að hurðunum og skýst fram þegar bíllinn er opnaður og sama gildir um innstunguna fyrir rafsnúruna, sem poppar upp úr húddinu. Sumir hafa lýst Honda e sem iPhone bílanna að sögn Ken Sahara, yfirhönnuð bílsins. ,,Við fengum að búa til bíl með allt öðruvísi hönnun en áður hefur þekkst. Þetta var mjög skemmtilegt verkefni. Það er áhugavert að heyra að sumum finnst útlit bílsins framúrstefnulegt en að mati annarra er það meira í anda retróstíls. Þetta er einn af skemmtilegri þáttum við hönnunina. Það hafa allir sína skoðun og þær eru oft mismunandi,” segir hann enn fremur.

Útlitið á Jaguar I-Pace sportjeppanum er straumlínulagað og talsvert öðruvísi en annarra bíla frá breska bílaframleiðandanum. Innanrýmið er sérlega eftirtektarvert og töff hannað. ,,Við vildum búa til einstakan bíl með spennandi hönnun, flottum línum og gera hann afgerandi þar sem þetta er fyrsti rafbíll Jagúar,“ segir Ian Callum, yfirhönnuður bílsins.

Ráð fyrir ferðalagið

Þegar lagt er í ferðalag á rafbíl er gott að hafa nokkra hluti í huga: Mikilvægt er að kynna sér vel hvar hleðslustöðvar eru staðsettar á leið  um landið. Hægt er að hlaða niður smáforrit í farsímann, sem sýna hleðslustöðvar á tilteknu svæði. Gott er að hafa lausa hleðslusnúru alltaf með í skottinu.

Mikilvægt er að nota miðstöðina í hófi því þegar minnka tekur á rafhlöðunni og tvísýnt verður hvort þú nærð á áfangastað er rétt að grípa til hagræðingaraðgerða og lækka eða slökkva á öllum ónauðsynlegum rafbúnaði eins og útvarpi og miðstöð og aka eins og þú sért í sparaksturskeppni. Á meðan bíllinn endurheimtir orku sína á næstu hleðslustöð er kjörið tækifæri að gera eitthvað skemmtilegt og nærandi. Eins og að fá sér eitthvað gott í gogginn, fara í léttan göngutúr um svæðið eða hoppa í næstu sundlaug.

Greinin um rafbíla er úr vetrarblaði Lifum betur - Í boði náttúrunnar 2021
Tögg úr greininni
, ,