Ritstjórn: Skautum af stað

Þetta er fyrsta blaðið á nýju ári og vil ég því nota tækifærið og þakka lesendum fyrir samfylgdina í gegnum síðasta ár. Við lifðum þetta af þrátt fyrir að einungis tvö blöð kæmu út. En 2020 átti auðvitað að vera stórkostlegt 10 ára afmælisár með þvílíkum flugeldum, sem sprungu svo eiginlega bara í andlitið á okkur. En á eftir stormi kemur alltaf logn og nú er ekkert sem stöðvar okkur að gera þetta ár að því besta hingað til. Það er a.m.k. mikill hugur í okkar verbúðum þar sem við höfum fjögur blöð á teikniborðinu og aðra Lifum betur fyrirlestraveislu, sem verður bæði á netinu eins og í fyrra og í sal í Hörpu ásamt glæsilegri sýningu með örnámskeiðum og alls kyns húllumhæ.

Já, við ætlum svo sannarlega að mála bæinn grænan þetta árið og byrjum á  blaði þar sem umhverfismálin eru í brennidepli. Við tökum rafbílavæðinguna alla leið og skoðum þróunina á því sviði. Lítum svo niður á skóbúnaðinn okkar og fengum Maríu K. Magnúsdóttur, skóhönnuð, til að gefa okkur hugmyndir hvað við getum gert við skóna okkar til að lengja líftíma þeirra. Fórum svo frá tá til topps, og töluðum við Rán Reynisdóttur sem fræddi okkur um hárumhirðu án mengandi efna, sem geta skaðað okkur og umhverfið. Við höfum engar afsakanir lengur það eru komnar svo margar flottar grænar hárlausnir, sem við drögum einmitt fram í dagsljósið hér á síðunum okkar.

Gönguskíði virðast vera ný bóla sem ætlar ekki að springa og skoða ég allar hliðar á því máli, sem gerði það að verkum að ég er á leiðinni að fá mér slíkan búnað. Ég mátti til með að koma einni grein að sen snýr að skautaiðkun, og kalla ég hér með eftir nýrri bólu á svellinu! Selir, handverk, listaverk, kósí kaffihús og hollur matur krydda blaðið og gleðja augað. Í lokin eru viðtöl við þrjár konur varðandi skipulag og hvernig þeirra tól hjálpa þeim að fá sem mest út úr lífinu. Þetta efni tengist að sjálfsögðu dagatalinu okkar, sem við höfum gert á hverju ári s.l. fimm ár og hefur það gefið okkur hér á skrifstofunni ómetanlega yfirsýn yfir verkefnin sem frammundan eru.

Ég vona að blaðið veiti ykkur ánægju, gleði og fróðleik sem hvetur ykkur til að taka þótt það sé ekki nema eitt lítið skref sem bætir líf ykkar og umhverfi  – Við gerum þetta saman!

Gleðilegt ár 2021

Ritstýra