Af hverju geta ekki allir selt rafmagn?

ÍSORKA + LIFUM BETUR

Af hverju getur ekki hver sem er selt rafmagn? var spurning sem kom upp í huga Sigurðar Ásgeirssonar árið 2014. Sex árum síðar hefur hann komið að uppsetningu 980 hleðslustöðva um allt land, sem hlaða um 500 rafbíla á sólarhring undir merki ÍSORKU.

Þrátt fyrir ungan aldur á Sigurður, framkvæmdastjóri Ísorku, langan feril að baki í umhverfismálum og sjálfbærum orkugjöfum. Hann hóf 18 ára störf sem sumarstarfsmaður hjá Íslenska gámafélaginu og hefur síðan prófað nærri öll störf innan fyrirtækisins en einbeitir sér nú að orkuskiptum. Hann tók meðal annars þátt í því að breyta fyrsta bensínbílnum í metan hér á landi. „Það tók tæp tvö ár að láta það gerast en endaði á því að við hjá Vélamiðstöðinni, sem var dótturfyrirtæki Íslenska Gámafélagsins, breyttum 600 bílum í metanbíla og stofnuðum á endanum fyrirtækið Metanorku. Í framhaldinu tók Metanorka einnig þátt í því að setja upp áfyllingarstöðvar.“

Þegar ég stóð þarna og horfði yfir götuna hugsaði ég: Er eitthvað annað að koma á markaðinn? Á þessu augnabliki grunaði mig ekki hvert þessi spurning átti eftir að leiða mig

Rafmagnið fær alla athyglina

Það var árið 2014 þegar ný metanstöð var afhent á Miklubraut þegar ný og framandi hugmynd kviknaði. „Þennan sama dag er Orka náttúrunnar, eða ON, að setja upp hraðhleðslustöð hinum megin við götuna og fékk sú stöð alla athygli fjölmiðlanna. Þegar ég stóð þarna og horfði yfir götuna hugsaði ég með mér: Er eitthvað annað að koma á markaðinn?  Á þessu augnabliki grunaði mig ekki hvert þessi spurning átti eftir að leiða mig. Ég hafði enga reynslu af rafmagni né hleðslu rafbíla en sökkti mér ofan í allt sem ég fann er varðaði þessi mál. En af hverju gat ekki hver sem er selt rafmagn? Og af hverju að bíða eftir að ríkið eða stofnanir kæmu upp hleðslustöðvum? Ég ákvað að finna út úr þessu sjálfur.“

Hugmyndin fer á flug

Árið 2015 fóru hlutirnir að gerast. „Á fyrstu sýningunni er sneri að hleðslustöðvum, sem ég sótti erlendis, hitti ég menn frá finnsku hugbúnaðarfyrirtæki. Þeir voru einmitt að hanna kerfið sem ég var að leita að. Í framhaldinu urðum við einir af þeirra fyrstu viðskiptavinum og erum í dag hluti af þróunarteymi þeirra, þar sem okkar reynsla og hraði vöxtur hefur vakið athygli og undrun.“ Á þessum tíma  var Sigurður enn starfandi hjá Íslenska gámafélaginu og rafmagnið nokkurs konar gæluverkefni. „Jón Frantzson eigandi og stofnandi Íslenska Gámafélagsins studdi þessa hugmynd mína og við ákváðum að stofna fyrirtæki í kringum þetta verkefni. Í bílferð frá Selfossi til Reykjavíkur kom varð nafnið ÍSORKA til. Nafnið reyndist vera í eigu gamallar slátturvélarþjónustu, sem við keyptum nafnið af og tókum Metanorku, sem við þjónustum enn, inn í Ísorku. Árið 2016 gerðum við tilraun í samstarfi við ON og tengdum hraðhleðslustöð við IKEA við kerfið okkar til að prófa virknina en á endanum vildu þeir fara sína eigin leið og við þurftum að endurskoða okkar viðskiptamódel.“

Um 300 hleðslustöðvar eru aðgengilegar almenningi um land allt og hleður ÍSORKA að meðaltali 500 rafbíla á sólarhring

Endaði öðruvísi en til stóð

ÍSORKA voru þeir fyrstu til að bjóða rafbílaeigendum upp á app, sem sýndi þeim hvar hleðslustöðvarnar voru staðsettar ásamt fleiri hagnýtum upplýsingum. „Við vorum átta mánuðum á undan ON með app og lykil. ÍSORKU-appið er enn það eina á markaðinum á Íslandi sem er gagnvirkt. Sem þýðir að notandi getur stjórnað hleðslustöðinni í gegnum símann sinn eins og að opna fyrir hleðsluna. Upphaflega ætluðum við aðeins að selja tæknilausn en ekki hleðslustöðvar. En eftir að æ fleiri komu og báðu okkur um að setja upp hleðslustöð og sjá um allann pakkan, þá neyddist ég til þess að fara að stúdera hleðslustöðvar. Í dag geta því fyrirtæki keypt hleðslustöð af okkur, valið hvar þau versla sitt rafmagn og áframselt síðan rafmagnið til rafbílaeigenda. Við sjáum um alla tæknina og upplifun notenda og innheimtum hófleg þjónustugjöld fyrir,“ útskýrir Sigurður. Í dag annast Ísorka rekstur hundruð hleðslustöðva. Allt frá heimahleðslustöðvum, stöðvum fyrir fjölbýlishús og til hraðhleðslustöðva fyrir fyrirtæki, sem vilja bjóða upp á hleðslu fyrir starfsmenn eða viðskiptavini sína og eru þær allar með sama notendavæna umhverfið. Um 300 af þessum hleðslustöðvum eru aðgengilegar fyrir almenning um land allt og hleður ÍSORKA að meðaltali 500 rafbíla á sólarhring. „Það eina sem notandinn þarf að gera er að sækja Ísorku-appið. Þar getur hann stofnað aðgang eða staðgreitt rafmagnið. Allir sem stofna aðgang fá að sjálfsögðu einnig hleðslulykil,“ útskýrir Sigurður, sem sannarlega hefur lagt sitt á vogarskálarnar þegar kemur að sjálfbærni á Íslandi.

Þú færð hleðslulykil Ísorku HÉR

TEXTI Guðbjörg Gissurardóttir    MYNDIR Jón Árnason

Tögg úr greininni
, ,