„Náttúran er ein stór orgía“

Með augum ljósmyndarans

Vigdís Viggósdóttir eða Viddý eins og hún er kölluð er nýútskrifuð úr Ljósmyndaskólanum og var lokaverkefnið hennar innblásið frá náttúrunni, formum hennar og sköpun. Verkið hennar heitir Skepna og tók hún ljósmyndirnar með Nikon D600 myndavél:

„Í þessu verki leitast ég við að finna form í náttúrunni sem minna á mannslíkamann og tengjast sköpun, holdlegar líkingar og blautar tilfinningar, losti, getnaður og fæðing. Það sem ég vil ná fram er hin ögrandi, kynþokkafulla myndbirting í umhverfinu, einnig ná fram því hlutverki sem snýr að sköpun og þeim krafti sem viðheldur ferlinu. Þetta afl sem engin sér, né nær taki á, ólgar og knýr skapnaðinn til að fjölga sér, þar sem frygð og fullnæging eru forsendurnar. Kynorkan er drifkrafturinn sem lífið lokkar skapnaðinn með til að viðhalda sér og verðlaunar svo með fullnægingu. Það er nokkuð augljóst að náttúran er ein stór orgía. Lífverurnar gera sitt besta til að fjölga sér, kynslóðir raða sér upp í tímans rás. Með verki mínu vil ég upphefja móður náttúru og sköpun hennar. Einnig spegla mig í myndum hennar og finna samsvörun. Læra af þeim, verða jarðtengdari og meðvitaðri um það sem skiptir máli.“

Tögg úr greininni
, ,