Morgunvenjur Heiðars Loga

Heiðar Logi Elíasson er öflugur ungur maður sem er kallaður fyrsti atvinnu brimbrettakappi Íslands. Þegar hann er ekki á brettinu sínu að synda um í ísköldum sjónum stundar hann jóga og einbeitir sér að því að halda lífsstílnum einföldum og hreinum. Hann trúir á að heilbrigt mataræði hafi mikil áhrif á árangur hans bæði í sportinu og lífinu, og að hreinn matur geti læknað ýmsa kvilla. Hann er til dæmis ekki búin að neyta sykurs í eitt og hálft ár og segir það hafa hjálpað sér við að halda einbeitningu og orku jafnri yfir daginn. Við fengum að forvitnast um hvernig þessi bjarti einstaklingur byrjar daginn:

Hvenær og hvernig vaknar þú á morgnanna?

Mig hefur alltaf langað til þess að geta farið snemma að sofa og byrjað daginn minn eldsnemma á morgnanna. Ekki bara til að geta nýtt daginn betur heldur líka til að ná allri birtu og sól sem ég get í mig látið. Ég er yfirleitt kominn upp í rúm klukkan 9 á kvöldin, sofnaður fyrir 10 og vakna svo 6 á morgnanna. Stundum er ég útsofinn klukkan 5 en þá finnst mér gott að liggja bara og dorma þangað til klukkan slær 6 og fer þá á fætur.

Hvernig eru morgunvenjurnar?

Um leið og ég stekk fram úr, skýst ég beint inn í eldhús, kreisti í eitt sítrónuskot sem ég skelli í mig, gríp blandarann og byrja smúþí gerðina fyrir þá fjölskyldumeðlimi eru vaknaðir eða hafa áhuga á að byrja daginn sinn á kraftmikilli blöndu hráefna.

Þegar ég geri morgun smúþíinn reyni ég að hafa einungis basísk hráefni sem og hráefni sem halda blóðsykrinum jöfnum svo ég sé ekki að leka niður úr þreytu fyrir hádegi. Ég byrja á að setja í blandarann lífræn chia fræ sem ég laga nokkrum sinnum í viku með því að leggja í bleyti. Þau innihalda mikið af vítamínum, omega fitusýrur, trefjar og magnesíum svo eitthvað sé nefnt. Ég set svo hálfa gúrku, og þar sem lang mesti hluti hennar er vatn get ég notað gúrku sem bragðríkan staðgengil þess. Þá skelli ég ofan í einum banana til að fá meira pótassíum og svo gerir hann líka áferðina skemmtilegri. Næst eru það tvær teskeiðar af hör- og hampfræjablöndu til að gera smúþíinn enn ríkari af olíum og próteini. Full matskeið af lífrænni og kaldpressaðari kókosolíu frá Himneskt sem smyr líkaman vel að innan. Þá set ég safa úr einni sítrónu til að bæta við ferskleikann og enda svo á að setja eina matskeið af hnetusmöri til að bæta við kaloríufjöldann þar sem ég hreyfi mig rosalega mikið og þarf því orkuríkan morgunmat.

Eftir að ég hef drukkið smúþíin finnst mér gott að hella mér uppá eina könnu af gæða tei. Ég drekk yfirleitt oolong te, sem eru hálf gerjuð telauf. Annars finnst mér gott að skipta um tegundir til að fá smá fjölbreytileika.

Á meðan ég nýt tesins og bíð eftir að vinnudagurinn byrji um hálf níu, hugsa ég um komandi verkefni og hvernig ég get nýtt hvert einasta tækifæri sem dúkkar upp dags daglega og búið til enn fleiri. Ég nota tímann fyrir sjálfan mig í að vinna að mínum markmiðum og koma mér á þann stað sem ég vil vera á í framtíðinni.

Það síðasta sem ég geri áður en ég fer út úr húsi er að bursta tennurnar svo tannkremið skemmi ekki skemmtilegu brögðin sem ég vil njóta í morgunsárið. Þó að ég fari út í daginn saddur og sæll fer mig samt strax að hlakka til hádegismatarins en hann borða ég vanalega á Gló.

468591_10151172716499104_1912610089_o

Hvernig heldur þú í þessar venjur?

Þegar ég var yngri var ég vanur að vakna seint og illa. Ég stökk á lappir fimm mínútum áður en ég átti að leggja af stað í skólann. Ég burstaði í mér tennurnar og sleppti því yfirleitt að borða morgunmat. Ekki bara af því að ég hafði stuttan sem engan tíma heldur líka af því ég mér var alltaf óglatt þegar ég vaknaði. Það var bæði útaf því ég hugsaði illa um sjálfan mig og ég fékk of lítinn svefn. Ég fór í skólann eða vinnu, eftir það fór ég að hitta vini mína og endaði svo daginn á að fara heim um miðnætti, eiga smá tíma með sjalfum mér og lá svo yfirleitt andvaka í nokkra klukkutíma. Þessi rútína fór ekki vel með mig svo að ég ákvað að breyta til.

Í dag verð ég ennþá að eiga tíma fyrir sjálfan mig en nú nýti ég hann einungis í hluti sem drífa mig áfram og eru uppbyggilegir. Ég kýs að vakna eld snemma og nota þá þennan áreitislausa tíma á morgnanna áður en ég byrja vinnudaginn í þennan “me time”. Það er enginn að fara að trufla mann klukkan 6 á morgnanna.:)

Smelltu HÉR til að fylgjast með ævintýrum Heiðars Loga á Instagram.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.