Morgunvenjur Helgu Maríu

Á veturna getur verið erfitt að rífa sig upp í kolniðamyrkri til að eiga rólega stund áður en dagurinn byrjar. Við hjá ibn.is erum með það að markmiði að byrja daginn á ljúfan hátt og setja þannig tóninn fyrir daginn. Við höldum áfram að forvitnast um hvernig aðrir heilsumiðaðir Íslendingar, ungir sem aldnir, byrja daginn með fasta liðnum morgunvenjur:

Sumarið 2011 gerðist Helga María Ragnarsdóttir vegan og stofnaði í kjölfarið matarbloggið helgamaria.com og er einnig annar helmingur vinsælu fésbókarsíðunnar veganistur. Á blogginu skrifar hún um vegan matargerð og heilsu og mun nú deila reglulega uppskriftum  hér á vefnum. Helga hefur mikinn áhuga á matargerð, bókmenntum og tónlist, og lærði hún Jazz söng við FÍH. Við fengum að forvitnast um hvernig hún byrjar daginn:

1002287_10151777283272525_1308228107_n

Hvenær og hvernig vaknar þú á morgnanna?

Þar sem ég er nýflutt til Svíþjóðar hefur svefnrútínan aðeins farið forgörðum. Ég er þó að reyna að taka mig á með svefnvenjurnar og er yfirleitt vöknuð á milli átta og níu.

Hvernig eru morgunvenjurnar?

Þegar ég vakna byrja ég á því að drekka stórt glas af sítrónuvatni eða fá mér tebolla. Það fer svolítið eftir árstíðum hvað mér þykir best. Núna þegar farið er að kólna svolítið finnst mér yndislegt að byrja daginn á bolla af góðu tei. Ég reyni að drekka að minnsta kosti hálfan líter af vatni um leið og ég vakna á hverjum degi. Þegar ég byrja daginn á því að drekka á ég auðveldara með að halda áfram að vera dugleg að því restina af deginum.

Því næst sinni ég líkamsræktinni, hvort sem það eru æfingar heima á jógadýnunni eða útihlaup í skóginum.  Þegar því er lokið fer ég í sturtu og útbý svo morgunmat. Það er mismunandi hvað ég geri í morgunmat og það fer alfarið eftir því í hvernig stuði ég er. Suma daga fæ ég mér hafragraut með möndlumjólk og aðra daga geri ég þeyting, grænan safa eða chiagraut. Með morgunmatnum tek ég B12-vítamín.  Þegar ég hef lokið við morgunmatinn tek ég saman tölvuna mína og tek sporvagninn á uppáhalds kaffihúsið mitt þar sem ég sest og skrifa, les, svara tölvupóstum og nýt þess að eyða tíma með sjálfri mér.

Hvernig heldur þú í þessar venjur og af hverju finnst þér þær mikilvægar?

Ég finn það á sjálfri mér hvað það gerir mér gott að njóta morgunins. Þegar ég var yngri vaknaði ég oft á síðustu stundu og hljóp af stað í skólann án þess að borða morgunmat og var oft ekki með neitt nesti svo fyrsta máltíðin mín var hádegismaturinn í mötuneyti skólans. Ég man hvað ég var þreytt og einbeitingarlaus á daginn á þessum árum. Skóladagurinn leið áfram í einhverskonar þoku og ég gat ekki beðið eftir því að komast heim og henda mér upp í sófa og liggja þar yfir sjónvarpinu fram að kvöldmat. Það var ekki fyrr en ég varð 18 ára að ég byrjaði að vakna fyrr og borða hollan og góðan morgunmat að ég fann hvað það gerir mikið fyrir mig. Ég myndi því segja að morgunvenjurnar haldi í mig þar sem mér hættir að líða eins og ég sjálf þegar ég fer út af sporinu.

Hér er uppskrift frá Helgu Maríu!