Hildur Ársælsdóttir er tveggja barna móðir, með B.S í næringarfræði og annar helmingurinn af tvíeikinu á bakvið bloggið Mæðgurnar, sem fór í loftið á dögunum. Hildur ólst upp á jurtafæði, án þess þó að vera sérstaklega meðvituð um að hún væri grænmetisæta. Hún uppgötvaði seinna að hennar skilningur á hugtakinu “mömmu matur” var aðeins annar en flestir Íslendingar lögðu í þau orð, þar sem móðir hennar er engin önnur en Solla Eiríks. Nú hafa mæðgurnar Hildur og Solla tekið sig saman og búið til fallegt blogg þar sem afturhvarf til fortíðar er áberandi og þær kynna okkur fyrir alvöru mat úr góðu hráefni og aðferðum sem allir Íslendingar ættu að kunna. Við heyrðum í Hildi og fengum að forvitnast um hvernig hún byrjar daginn:
Hvenær og hvernig vaknar þú á morgnana?
11 mánaða dóttir mín sér um að vekja alla fjölskylduna rétt fyrir klukkan sjö.
Hvernig eru morgunvenjurnar?
Þar sem ég tilheyri vísitölufjölskyldu með 2 börn og hund snúast morgunvenjurnar mínar um fjölskylduna í heild, ég á mér ekki mikla prívat rútínu eins og er. Áður en sú yngsta kom til sögunnar fannst mér gott að læðast ein út kl. 5:30 og fara í ræktina, eða ná smá hugleiðslu, sinna sjálfri mér og plana daginn í rólegheitum. Í augnarblikinu þarf ég meira á svefninum að halda og við vöknum öll á sama tíma. Okkur finnst virkilega mikilvægt að eiga góða stund saman áður en við höldum út í daginn sitt í hvoru lagi. Við byrjum daginn í góðum gír og viljum ekki sjá neitt morgunstress.
Dagurinn hefst á því að feðgarnir viðra hundinn og ég útbý morgunverð á meðan. Það er oftast chiagrautur, tröllahafragrautur eða sjeik. Grunnurinn í sjeikinn er heimagerð möndlumjólk, útí blandarann fer líka grænmeti, hörfræolía, D-vítamín og svo síðast en ekki síst aðal bragðið sem er litakóðað. 5 ára sonur minn fær oftast að ráða litnum: fjólublár – bláberja, bleikur – jarðaberja, gulur – mangó, brúnn – kakó eða grænn – avocado og grænkál.
Þegar feðgarnir eru búnir að viðra hundinn setja þeir góða plötu á fóninn og við borðum morgunmatinn í rólegheitum yfir spjalli. Svo eru oftar en ekki tekin nokkur dansspor. Ég helli uppá rótsterkt lífrænt kaffi og skelli mér svo útá dansgólfið áður en við klæðum okkur. Ég held því glöð út í daginn, en oftar en ekki úfin og ómáluð…ég á aðeins eftir að fínstilla rútínuna hvað það varðar!
Hvernig heldur þú í þessar venjur?
Lykilatriði er auðvitað að fara tímanlega í háttinn. Svo sjá árrisul dóttir mín og hundurinn um að koma okkur á fætur. Ég veit að dagurinn verður betri ef morguninn er góður, þess vegna reyni ég að vera jákvæð á morgnana og forðast stress.
Ljósmynd af Hildi: Matthías Árni Ingimarsson