Morgunvenjur Jóhönnu Vilhjálms

Mikilvægt er að koma sér upp góðum venjum í lífinu og ekki síst morgunvenjum. Þær hjálpa okkur ekki einungis að takast á við daginn og allt það sem honum fylgir heldur bæta þær almenn lífsgæði til lengri tíma litið. Við leituðum til Jóhönnu Vilhjálmsdóttur fjölmiðlakonu og forvitnuðumst hvernig hún byrjar daginn.

Hvenær og hvernig vaknar þú á morgnana?

Ég vakna upp úr sjö á morgnana. Stundum er það vekjaraklukkan sem vekur og stundum börnin. Ég er mikil B týpa þannig að ég á það of oft til að fara of seint að sofa. Það stendur þó alltaf til bóta en við miðum við að reyna að ná um sjö tíma svefni. Við erum með þrjú börn á leikskóla- og skólaaldri þannig að morgnarnir snúast auðvitað mest um að koma þeim í skólann og sjá til þess að þau fái sitt áður en þau fara af stað. Þannig að morgunrútínan sem snýr að mér er ekki flókin og inniheldur í raun ekki langan lista af heilsueflandi aðgerðum. En áður en allt fer af stað finnst mér gott að gefa mér smá stund – draga nokkrum sinnum djúpt andann og hugleiða í augnablik inn á orð eins og friður, kærleikur og styrkur. Og bara svona stund þó hún vari ekki nema í 1-2 mínútur finnst mér breyta heilmiklu fyrir daginn. Svo er það góð sturta og síðan finnst mér mjög gott að fá mér stórt vatnsglas sem ég kreisti sítrónu – og/eða engifersafa út í til að koma kerfinu í gang. Morgunmat borða ég yfirleitt ekki fyrr en ég er búin að vaka í tvo tíma.

 

JóhannaHvernig eru morgunvenjurnar?

Ef ég hef tíma á morgnana bý ég til ferskan safa úr gulrótum, eplum og einhverju grænu káli handa krökkunum og bæti út í fyrir okkur sellerí og engiferrót. Mér finnst þessi safi það besta á morgnana áður en ég borða nokkuð og þegar að ég næ að gera þetta á hverjum morgni finn ég mikinn mun á mér. Þetta er eiginlega eins og að fá risa innspýtingu af næringarefnum beint í æð. Það tekur tíma að búa til svona safa þannig að ef ég er ekki vöknuð tímanlega til að gera hann á morgnana geri ég hann í eftirmiðdaginn í staðinn.Við gefum síðan krökkunum morgunmat sem er mjög oft egg, hafragrautur og stundum grænn hristingur með spínati, lárperu, mangói og fleiru.
Olíur, D-vítamín og fjölvítamín eru ófrávíkjanlegur partur af rútínunni hjá okkur á morgnana. Ég gef börnunum matskeið af lífrænni, kaldhreinsaðri hörfræolíu eða blöndu af omega 369 og 10 ml af fiskiolíu til skiptis. Svo fá þau alltaf tvö þúsund einingar af D-vítamíni (þau eru 4, 5 og 10 ára) nema þá örfáu mánuði sem þau fá D-vítamínið í gegnum húðina úr sólinni – þá dreg ég aðeins úr skammtinum (þau fengu 1000 einingar fyrsta árið og svo 1000 einingar á hver 11 kíló eftir það.) Og eftir að ég byrjaði að gefa þeim þennan D-vítamínskammt hefur dregið mjög mikið úr kvefi, flensum og almennt einhverjum pestum á heimilinu. Ég gef þeim líka reglulega góðar bakteríur (probiotics) fyrir meltingarveginn.

Ég tek á hverjum morgni um 6000 einingar af D-vítamíni yfir vetrartímann. Ég tek svo 2 matskeiðar af lífrænni hörfræolíu eða Udo’s omega 369 blöndu og eina matskeið af Lýsi. Þetta eru þau bætiefni sem ég sleppi aldrei. Önnur bætiefni sem ég tek reglulega er fjölvítamín, góð blanda af steinefnum, góðar bakteríur fyrir meltingarveginn, astaxanthin sem er mjög öflugur bólgueyðandi andoxari og Q10. Morgunverðurinn hjá mér getur verið hafragrautur eða chía-fræ grautur með möndlumjólk sem má búa til kvöldinu áður. Svo er það græni hristingurinn með einhverju grænu káli, mangói, selleríi, lárperu, engiferrót og smábita af banana eða döðlum sem klikkar ekki. Ef ég hef tíma finnst mér ótrúlega gott að fá mér spælt egg og lárperu saman og setja smá Himalaya-salt, pipar og ólívuolíu á lárperuna.

Hvað hjálpar þér að halda þessum venjum?

Ætli galdurinn við að halda góðum morgunvenjum sé ekki að passa upp á að fara ekki of seint að sofa og gefa sér rúman tíma á morgnana. En þetta er áskorun fyrir mig eins og svo marga aðra. Og ef við erum að velta fyrir okkur heilsunni þá skiptir það alveg jafn miklu máli og að borða hollan morgunmat eða taka inn bætiefni að fara ekki út í daginn í stressi og leiðindum vegna tímaskorts. Það getur litað allan daginn hjá börnum sem og fullorðnum, fyrir utan að vera heilsuspillandi streituvaldur – ekki síst hjá börnum. Mér finnst því stóra málið að geta notið morgunsins án þess að vera í stressi og að fjölskyldan eigi gæðastund saman áður en allir fara í sitt hverja áttina.

 

Tögg úr greininni
, ,