Lilja Oddsdóttir er mikið náttúrubarn sem elskar jörðina okkar og er þess vegna rökrétt að í framhaldi finnist henni það bæði mikilvægt og skemmtilegt að hugsa um heilsuna með náttúrulegum aðferðum. Lilja reynir eftir fremsta megni að vera góð fyrirmynd í lífsstíl og náttúruvernd og hefur unun af því að rækta eigin matjurtir, næstum því árið umkring. Smátt og smátt hefur hún verið að fjölga tegundum, er núna komin með epla, peru og kirsiberjatré í garðinn minn. þótt hún verði að viðurkenna að henni sýnist ávaxtaræktun krefjast nokkurs dekurs frá náttúrnunnar hendi. Lilja vann sem leikskólakennari á Waldorfleikskóla þar sem mikið er lagt uppúr handverki, en grunnmenntun hennar liggur á kennslusviði þó hugurinn hafi hneigst meira og meira að heilsu.
„Ég var heppin að finna nám í náttúrulækningum og núna vinn ég við áhugamálið“ segir Lilja en hún hefur rekið Heilsumeistaraskólann ásamt Gitte Lassen frá árinu 2007. „Skólinn kennir þriggja ára nám í náttúrulækningum og eitt af því sem ég geri í skólanum er að taka augnmyndir og gera prógram fyrir nemendur þar sem þeir eru leiddir í gegnum fyrstu skrefin í að taka ábyrgð á heilsu.“ bætir Lilja við. „Heilsumeistarahugtakið byggir á þeirri visku að kenna nemendum að vera meistarar í eigin heilsu. Ég kenni mest um líkamlegu hliðar heilsunnar og hvernig næring og hreinsanir eru lykilatriði. “
Augngreining, sem við fengum hana til að skrifa um í tímaritið eitt sinn, er áhugaverður partur af morgunvenjunum: „Augngreining sýnir manni hvar skóinn kreppir hjá hverjum og einum, augngreining er ólýsanlega spennandi fag og eitt af því sem ég geri einmitt á morgnana um leið og ég þvæ á mér andlitið er að skoða augun mín, ég fylgist með lit, ljósi og skuggum í lithimnunum og hvítunum. Annað fag sem ég elska og kenni er um kjarnaolíur. Ég nota kjarnaolíur daglega bæði í inntöku, innöndun og á húðina og ég segi stundum í gríni að það sé hægt að þefa mig uppi. Ég held reglulega opin námskeið í notkun á olíum af þerapútískum gæðum í Olíulindinni auk þess að reka Heilsumeistaraskólann.
Hvernig og hvenær vaknar þú á morgnana?
Ég er algjör morgunhani og vakna helst alls ekki seinna en 6 og ég vakna bara af sjálfu sér. Ég byrja á því að þvo mér í framan með volgu vatni áður en ég fer í eldhúsið þar sem ég fæ mér glas af volgu vatni, snafs af hreinni ávaxtasaft og olíur (blanda af kjarnaolíum (andoxun) og omega + D).
Næst er það kyrrðarstundin sem fer saman með ákveðnum hreyfingum og ég tek gjarnan örfáar léttar sólarhyllingar fyrir hugleiðsluna. Ég hleyp hiklaust útí garð á tásunum ef sólin skín og tek sólarhyllinguna þar. Móðir mín kenndi mér að það væri svo gott að jarðtengja sig með því að snerta jörðina. Seinna komst ég að því að þekktir heilsugúrúar kenna þetta líka, ég er líka sannfærð um að þetta er satt. Hugleiðslan er um 15 – 20 mín, þetta er tíminn þar sem ég stilli hugann við ljósið og fæ oft bestu hugmyndirnar eða skilaboðin en ég vinn mikið með innsæið og treysti því.
Hvernig eru morgunvenjurnar?
Morgunmatur nr. 1 er að öllu jöfnu lífrænt epli sem ég afhýði og svo bolli af lífrænu hágæða kaffi með lífrænni mjólk eða kókosmjólk. Ég nýt þess alveg rosalega vel að drekka kaffibollann en reyni annars að stilla kaffinu í hóf, 2 bollar á dag er nóg, þessi fyrsti er langbestur. Ég drekk alltaf slatta af vatni, annaðhvort volgt vatn eða sólarhlaðið vatn (flaska af vatni er látin standa í sólinni í klst eða lengur, helst blátt gler).
Efir þetta er vinnutörn, tölvuvinna, tölvupóstur eða verkefni sem bíða, fram að raunverulegum morgunmat svona um kl. 9
Morgunmaturinn síðustu árin er oftast chiagrautur og það er mjög misjafnt hvað er í honum. Núna er ég byrjuð að fá jarðarber í litla gróðurhúsinu mínu og ýmis blóm úr garðinum t.d. jarðarberjablóm og stjúpur, en grunnurinn í chiagrautinn eru epli og rúsínur. Ef ég er er að fara í mikið líkamlegt prógram, t.d. fjallgöngur þá borða ég gjarnan hafragraut með chiagrautnum og lífrænan rjóma útá (já ég nota allt lífrænt sem ég get) og rækta allt grænmetið mitt auðvitað lífrænt og ég er heilluð að permakúltúr aðferðinni.
Ég tek skorpur í að taka inn jurtir, bæði jurtaduftblöndur Heilsumeistaraskólans eða tilbúin gæðahylki ef mér finnst ég þurfa þess með eða ef ég er undir miklu vinnuálagi.
Þetta er óreglulegt sem hentar mér vel.. ég er mjög lítil uppskriftarmanneskja, mikið meira fyrir að vera í flæðinu en passa mig á að halda grunnnæringu í lagi.
Ég nota jurtirnar sem næringu en nota annars ilmkjarnaolíur af þerpútiskum gæðum, til inntöku til að styrkja líffæri eða líkamskerfi ef þörf er á. Í daglegu fæði er til dæmis slatti af sítrus kjarnaolíum (andoxun og góðar fyrir lifrina), negulolía (mjög há andoxun) og frankincense olía sem styrkir frumuheilsu.
Á vorin og sumrin er grænt vatn eitt af morgunverknum, þetta byrjar í apríl/maí um leið og fíflablöðin, mintan og grænkálið fer af stað í garðinum mínum þá nýt ég þess að setja það í blandarann ásamt vatni, lime, orange oliu, engifer og epli eða hreinni steviu. Jurtirnar breytast eftir því hvað kemur upp í garðinum svo sem allskyns laufgrænmeti, brenninetla, blóm og jarðarberjablöð Ég blanda vel í vatni og sigta þetta í spírupoka og útkoman eru ýmsir litatónar af grænu vatni. Ég drekk þetta yfir daginn.
Hluti af morgunverkunum er sturta eða bað og að minnsta kosti annan hvern dag er baðið ferð í sundlaugina í Laugardal. Ég er blessunarlega oftast nær með frjálsa dagskrá þar sem ég rek mitt eigið fyrirtæki og finnst alveg dásamlegt að geta dreift “morgunverkunum” fram undir hádegi. Sundferðirnar eru eitt alsherjar prógramm af hreyfingu og vatnsmeðferðum, sund (rólegt og hratt), heitir pottar, kaldur pottur, gufa og svo að þurrka sér útivið. Ég stoppa ekki of lengi í heitu pottunum en nógu lengi til að geta með góðu móti labbað að kalda pottinum og dýft mér þar ofaní. Ég fer einstaka sinnum í sjósund og tel það mikla heilsubót og kalda vatnið venst, sem er ótrúlegt en satt og verstu kuldaskræfur geta fljótt bætt líkamsstafsemina. Köld böð eru gull sem gleymist oft eða fólk trúir því ekki hvað það er hollt og gott. Kalda vatnið örvar blóðrásina, eykur flæðið og styrkir lífsorkuna.
Hvernig heldur þú þessum venjum?
Fyrir mér eru þessar venjur algjört “must”.. og mér líður illa ef ég missi af þeim svo það er ekkert erfitt að halda þessum venjum gangandi, enda eru þetta ekkert ofurprógram. Svo segja spekingarnir að ef maður vill temja sér nýjar venjur þá á maður að gera þær daglega í 21 dag, “voila” – prógrammið er þá komið inní frumurnar.
Ljósmyndin tekin af ®A.Coffman