Morgunvenjur Lukku á HAPP

Það er ýmislegt hægt að segja um hvað góðar morgunvenjur geta gert fyrir okkur og ótal greinar til um hvað fólk sem nýtur mikillar velgengni gerir á morgnanna eða hversu jákvæð áhrif góðar morgunvenjur  í raun hafa. Það sem þessar greinar eiga oftar en ekki sameiginlegt er að gott er ná einhvers konar líkamlegri æfingu, borða hollan morgunmat, skipuleggja daginn framundan og mögulega ná stund í ró fyrir klukkan átta á morgnanna. Við hjá Í boði náttúrunnar höldum þó áfram að rannsaka morgunvenjur og heyra í heilsusamlegum Íslendingum til að forvitnast um hvernig þau byrja daginn. Í dag er það Unnur Guðrún Pálsdóttir oftast kölluð Lukka, sem er stofnandi veitingastaðarins Happ og hefur gefið út bækur tengdar heilsu og matarræði.

Hvenær og hvernig vaknar þú á morgnanna?

Klukkan hringir klukkan korter í sjö virka daga. Stundum sprett ég upp eins og fjöður en það er nú oftar sem ég nýt þeirra lífsgæða sem snooze-takkinn býður upp á og kúri pínulítið lengur. Nætursvefninn er ekki alltaf mjög langur því stundum er ég svo uppfull af hugmyndum og orku á kvöldin að ég þarf að koma þeim á blað eða í tölvuna og fer því stundum svolítið seint að sofa. Mér líður þó best þegar ég næ að fara að sofa fyrir miðnætti og fæ um sjö tíma svefn.

lukka melona svhvHvernig eru morgunvenjurnar?

Bestu morgnarnir eru þegar ég kem léttri æfingu að milli klukkan sjö og átta og næ að koma heim til að knúsa strákana mína góðan daginn áður en við förum öll í vinnu og skóla. Ég borða morgunmatinn í vinnunni. Þar fæ ég yndislegan chía-graut með möndlumjólk og bláberjum, ásamt besta kaffibolla í bænum. Ég svara tölvupóstum og skipulegg daginn á meðan ég borða morgunverðinn og er fær í flestan sjó eftir þessa morgunrútínu.

Hvað hjálpar þér að halda þessum venjum?

Þegar eiginmaður minn er heima er ég mun duglegri að halda þessum morgunvenjum. Þegar hann er í burtu vegna vinnu sinnar þá vaki ég lengur fram eftir, er syfjaðri á morgnana og líklegri til að fjölga kaffibollunum og sleppa morgunrútínunni. Hann er því lykillinn að heilsusamlegum venjum á mínu heimili. 

Tögg úr greininni
, ,