Morgunvenjur Mörtu

Marta Eiríksdóttir er jógakennari, móðir, kattareigandi  og starfsmaður veitingarstaðsins Gló. Hún er ein af þeim sem geislar gleði og það sést á henni langar leiðir að hún vandar sig við lífið og tilveruna. Við erum svo heppinn að geta tilkynnt að hún ætlar að skrifa reglulega fyrir vef Í boði náttúrunnar í vetur. Við fengum þá auðvitað að forvitnast um hvernig hún byrjar daginn.

Hvenær og hvernig vaknar þú á morgnana?

Ég vakna á milli 7 og 7:30 við einhverskonar fuglahljóð í símanum mínum og vek dóttir mina hana Emilíu. Ég vakna oft 7 og fer inní herbergið hennar og leggst hjá henni. Þar kúrum við saman í einni flækju og ræðum drauma næturinnar. Hún er alveg yndislega mikil svefnpurrka og það er svo dásamlegt að fylgjast með kroppnum og vitundinni hennar vakna hægt og rólega.

photo-8

Hvernig eru morgunvenjurnar?

Mér finnst alveg ómissandi að setja tónlist á á morgnanna. Ég algjör alæta á tónlist en svona “feel good” tónlist kemur okkur mæðgunum vel í gang með gleði og sprelli.

Ég fer í eitthvað hlýtt og þægilegt og útbý nesti og morgunmat á meðan Emilía klæðir sig.

Morgunmaturinn hennar nefnist því skemmtilega nafni “sparigrautur” því hann er svona dúllerís útgáfa af þessari einföldu hafragrauts uppskrift. Ég sýð glúteinlausa hafra í möndlumjólk og skelli kardimommum og kanil útí. Oft legg ég hafrana í bleyti kvöldinu áður til að flýta fyrir. Svo er grauturinn skreyttur með allskonar ávöxtum, fræjum og olíum líkt og hamp- eða graskersfræjaolíu sem gerir grautinn fagurgrænan.

Þegar Emilía er tilbúin að labba af stað í skólann og við búnar að kveðjast með kossi og óskum um góðan dag þá byrjar mín persónulega morgunrútína. Ég nánast undantekningalaust byrja daginn á sítrónuvatnsglasi og eftir það útbý ég græna safann minn en hann kemur öllu systeminu mínu í jafnvægi fyrir daginn. bæði meltingunni og orkunni. Ég á alltaf chiagrauts-grunn í ísskápnum sem ég set stundum í krukku og skreyti með ávöxtum og fræjum eða útbý ofursmoothie. Morgunmatinn tek ég oftast með mér í vinnuna því líkami minn er oftast ekki tilbúin að borða strax.

Ég á alltaf stund á morgnanna þar sem ég hugleiði eða geri jógaæfingar en það finnst mér ómissandi að gera til að opna, vekja og til koma líkama huga og sál í gang með uppbyggjandi hætti. Ég fer í sjóðandi heita sturtu til að fá hita í kroppinn minn, ber á mig aprikósu olíu og hef mig til fyrir daginn með tónlistina mina undir. Þegar ég er klár þá kveð ég kisuna okkar hana Jasmín og skunda út í daginn.


Hvernig helduru í þessar venjur?

Með því að iðka jóga þá hef ég öðlast jafnvægi. Ég veit hvað ég þarf í mínu lífi til að viðhalda þessu jafnvægi og einnig bý ég að ómissandi tólum til að grípa í þegar ég finn fyrir ójafnvægi. Margir misskilja að jóga séu aðeins líkamsstöðurnar, en jóga er svo miklu meira. Oft er talað um jóga sem hugleiðsla á hreyfingu en það er eitt sem ég hef tileinkað mér. Ég leyfi huganum að vinna úr daglegum viðburðum í gegnum daginn og glími því ekki við það vandamál að leggjast á koddann og liggja þar andvaka af völdum óþarfa hugsanna. Ég tel að með því að tryggja góðan svefn og svefnrútínu að þá verða morgunvenjurnar auðveldari. Ég fæ mér Magnesíum c.a 30 mínútum fyrir svefninn til að hjálpa vöðvum að slaka og sofna með þakklæti í huga fyrir allar þær áskoranir sem lífið leggur fram fyrir mig. Þakklætis “möntruna” endurtek ég einnig að morgni og fer yfir verkefni dagsins með jákvæðni í huga. Hugarfarið skiptir svo miklu máli 🙂

Tögg úr greininni