Nærst í núvitund

Hvað er að nærast í núvitund? Í stuttu máli þá snýst það um að njóta matarins og um leið augnabliksins.

Þegar við nærumst í núvitund erum við að tengja saman athöfnina að borða (og elda) við aðferðir núvitundar. Almennt séð fer mikill tími í að tala um mat, lesa uppskriftir, kaupa inn, undirbúa eldamennsku og bakstur, og síðast ekki síst – að borða. Það er því vel við hæfi að æfa sig í að borða á meðvitaðan hátt.

Stundum nær streitan þó tökum á okkur og verður til þess að við njótum ekki alls þess góða matar sem er í boði. Streita minnkar getu líkamans til að melta matinn sem við borðum. Það getur valdið ýmsum óþægindum í meltingarveginum og leitt af sér verki og slen.

Streitan getur einnig haft áhrif á matarlystina; annað hvort aukið hana eða minnkað. Það er að sjálfsögðu mismunandi eftir einstaklingum hversu mikla streitu þeir upplifa og hvaða áhrif hún hefur á þá. Þegar við borðum minna en við þurfum vegna streitu er ekki víst að við finnum fyrir líkamlegri svengd heldur gætum við frekar fundið fyrir orkuleysi, höfuðverk, pirringi og þess háttar einkennum, sem mikilvægt er að vera á varðbergi gagnvart. Streitan getur líka gert það að verkum að við borðum meira en við þurfum og upplifum þá einkenni þess að borða yfir sig, jafnvel með smá „dassi“ af samviskubiti.

Hér eru nokkur ráð til að njóta þess að nærast í núvitund.

  1. Byrjaðu á því að hægja aðeins á þér. Þetta getur þú gert með því að anda þrisvar sinnum djúpt að þér áður en þú byrjar að borða. Þannig færðu tækifæri til að meta hvernig þér líður og líta inn á við. Andaðu að þér slökun og frá þér spennu. Nú hefur þú möguleika á að njóta matarins betur og meta svengd og seddu á meðan þú borðar.
  2. Veittu augnablikinu athygli. Taktu eftir hugsunum þínum og ekki dæma matinn sem þú borðar, líkama þinn, hugsanir og upplifanir. Sýndu þér velvild og góðvilja þegar þú ert að borða.
  3. Allt er gott í hófi. Leggðu áherslu á gæði frekar en magn. Það má smakka allt og njóta þess.
  4. Notaðu fleiri skilningarvit en venjulega til að njóta matarins. Finndu lyktina, sjáðu litina, hlustaðu, finndu áferðina, bragðið og njóttu.
  5. Æfðu þig í að sýna mat og matargerð áhuga og forvitni. Það er svo margt skemmtilegt í boði til þess að skoða og prófa. Kannski smakkar þú eitthvað óvenjulegt sem kitlar bragðlaukana og kemur þér á óvart, á meðan annar réttur sem þú hefur alltaf kunnað að meta stenst ekki væntingar og hættir því að vera í uppáhaldi. Það er í lagi, við erum í stöðugt að þroska bragðlaukana.
  6. Besta kryddið er hæfileg svengd. Ekki of mikil, ekki of lítil. Gott er að borða reglulega yfir daginn, drekka vatn og leggja áherslu á fersk matvæli.
  7. Þakklæti og aftur þakklæti. Þakklæti fyrir matinn, fólkið og augnablikið. Þannig nærðu að minnka streituna og njóta þess enn betur sem er.

Höfundur: Ragnheiður Guðjónsdóttir, næringarfræðingur, kennari og kundalini-jógakennari. www.rgudjons.com 

VILTU LESA FLEIRI GREINAR UM NÚVITUND? SMELLTU Á ÞESSAR GREINAR:

Hvað er MINDFUL EATING?

 

 

Tögg úr greininni
, ,