Hvað er “mindful eating”?

Þegar ég segist vera sérfræðingur í mindful eating hvá flestir, enda eðlilegt. Ef fólk spyr hvað það er svara ég oftast þannig að mindful eating snúist um að tengja saman núvitund (mindfulness) og athöfnina að borða. Þetta er í raun einfaldasta útskýringin sem hægt er að gefa.

Mindful eating eða það að nærast í núvitund snýst einmitt um þetta, að nýta núvitund þegar maður er að undirbúa og borða mat. Það snýst um að taka eftir augnablikinu án þess að dæma og sýna sjálfum okkur góðvild þegar við borðum. Það snýst um að nýta skilningarvitin til að upplifa, til að njóta matarins og vera til staðar, bæði andlega og líkamlega, að hlusta eftir merkjum líkamans.

Að nærast í núvitund snýst fremur um gæði en magn, að við njótum þess sem við veljum að borða, án samviskubits. Þegar við hægjum á okkur og njótum matarins, gefst okkur einmitt tækifæri til að uppgötva nýja hluti um matinn sem við borðum. Kannski líkar okkur ekki við sama mat og áður, kannski þurfum við minna magn en áður til að finnast við vera södd. Því við erum að hlusta, við erum að samþætta innri og ytri visku, til að næra okkur sjálf. Þetta er ferli sem við æfum okkur í. Við fáum tækifæri til að staldra við, anda djúpt, slaka á og hlusta þó það sé bara örlítil stund. Við fáum tækifæri til að vera forvitin og áhugasöm um okkur sjálf, spyrja spurninga og hlusta með góðvild og án þess að dæma. Við fáum tækifæri til að öðlast heilbrigðara samband við okkur sjálf og matinn sem við borðum. Við getum byrjað að treysta okkur sjálfum þegar kemur að mat og matarvenjum. Við getum þróað samband við mat sem er friðsælla en áður.

Taktu djúpan andardrátt og aftur annan djúpan andardrátt. Lokaðu augunum og taktu þriðja djúpa andardráttinn. Slepptu tökunum. Leyfðu þér að hlusta, án þess að dæma.

Mindful eating snýst um þetta og svo margt, margt fleira. Það eru fleiri fletir á því að nærast með meðvitund/núvitund en þetta er ágætis byrjun.

Njóttu dagins,

Ragnheiður


 

Viltu vita meira um mindful eating?

Skráðu þig á FRÍTT töluvpóstsnámskeið um að nærast í núvitund HÉR

1 athugasemd

Lokað er fyrir athugasemdir