Stundum þarf maður nauðsynlega að eiga eitthvað sætt í frystinum. Þessi karamella er súper einföld og súper bragðgóð. Hún er líka margfalt hollari en flestar karamellur eða annað sem inniheldur lakkrís.
Hráefni:
- Tæpir tveir bollar döðlur
- 2 tsk af lakkrísduft (eða meira – fer eftir því hvað þið viljið mikið lakkrísbragð)
- Smá sjávarsalt
Aðferð:
- Setjið döðlurnar í matvinnsluvél ásamt lakkrísduftinu og sjávarsaltinu.
- Blandið öllu vel saman eða þar til allt er orðið að kekkjalausri ljósbrúnni klessu 🙂
- Setjið bökunarpappír á skurðbretti.
- Setjið deigið á bökunarpappírinn og fletjið úr með sleikju. Athugið að deigið er MJÖG klístrað svo að þolinmæði er nauðsynleg við þessa iðju.
- Þegar þið eruð búin að jafna úr deiginu þannig að það er nokkuð jafnt að þykkt, takið þá hníf og gerið rendur í deigið. Þetta er gert svo að það sé auðveldara að skera/slíta sér bita þegar karamellan er tilbúin.
- Setjið inn í frysti í klukkutíma eða svo. Þá er karamellan tilbúin.
ATH. #1 Ég notaði döðlur frá Sólgæti. Þær eru mjúkar og góðar. Ef döðlurnar eru ekki nógu mjúkar, þá er gott ráð að láta þær liggja í heitu vatni í smá stund (10 mín sirka) áður en þið notið þær.
ATH. #2 Ég notaði lakkrístduftið frá Johan Bülow en það er alveg hreint lakkrísduft (enginn sykur eða annað í því) og alveg meiriháttar gott. Lakkrísduftið fæst m.a. í Motivo á Selfossi og Epal í Reykjavík.
ATH. #3 Varúð! Þessar karamellur eru sjúklega góðar! Einu sinni smakkað, þið getið ekki hætt 🙂