Ritstjórn: Sköpum frábærar minningar

Ferðalög snúast um svo miklu meira en bara staðina sem við heimsækjum. Það eru ævintýrin á leiðinni, fólkið sem við ferðumst með og hittum á leiðinni og ekki síst sögurnar og minningarnar sem við eigum í hjarta okkar löngu eftir að ferðin er yfirstaðin sem skipta máli. Og þegar við lítum yfir árið eins og við gerum gjarnan á áramótum, þá eru það yfirleitt þessi ferðalög, tíminn þar sem við brutum upp hversdagsleikann og áttum góðar stundir með okkar nánustu, sem standa upp úr.

Líkt og í fyrrasumar þá virðast margir Íslendingar ætla að halda til hér heima og ferðast áfram um okkar fallega land. Margir lesenda okkar hafa eflaust nýtt sér ferðablaðið frá því í fyrra til að fá hugmyndir og innblástur og lagðist það blað það vel í landann að við ákváðum  að endurtaka leikinn með aðeins breyttu sniði. Við sleppum öllum föstum liðum, nema matnum að sjálfsögðu, og bjóðum í staðinn upp á góðar og áhugaverðar ferðasögur úr ýmsum áttum. Við þýddum HandPicked-landshlutakortin svo erlendir vinir okkar, sem verða vonandi fleiri í ár, geti einnig notið og nýtt sér.

Við sleppum öllum föstum liðum, nema matnum að sjálfsögðu, og bjóðum í staðinn upp á góðar og áhugaverðar ferðasögur úr ýmsum áttum.

Það sem rann upp fyrir mér við vinnslu blaðsins er hvað tilgangur ferðalaga getur verið ólíkur sem og hugmyndir okkar og ásetningur. Aldrei gleyma markmiðinu, segir Árdís Björk í ferðasögu sinni þar sem systurnar létu draum móður þeirra rætast um að fara hringinn. Sagan getur einnig kennt okkur margt eins og staðarhaldararnir á safni Samúels Jónssonar komust að. Hvað það er dýrmætt að gefa einu barni óskipta athygli eða hvað krefjandi fjallganga getur verið mikil upplifun. Einnig mikilvægi þess að rækta ástina og skapa ævintýri og upplifanir, sjá fegurðina í því smáa. Uppgötva nýja staði í gegnum mat og tónlist og standa agndofa yfir fegurð landsins.