Safnarinn með rauða varalitinn

Áslaug Snorradóttir er brautryðjandi í sjónrænni matargerð þar sem matur og myndlist mætast. Í meðferð Áslaugar verða fiskhausar að fögrum skúlptúrum. Litir springa út í blómstrandi salötum. Regnbogakökur geyma ósk í hverjum bita.

Texti Bergþóra Snæbjörnsdóttir
Myndir María Kjartansdóttir og einkasafn
Greinin birtist fyrst í FÆÐA-FOOD Í boði náttúrunnar. Kauptu eintak HÉR

Það er grámóskulegur mánudagur þegar ég mæli mér mót við Áslaugu á heimili hennar í austurhluta Reykjavíkur. Hún tekur hlýlega á móti mér eins og aldagamalli vinkonu, klædd kóngabláum silkisatínnáttfötum, með dökk sólgleraugu og eldrauðan varalit. Sloppurinn er þétt vafinn um mittið og íþróttaskórnir skærbleikir. Í klæðaburði hennar endurspeglast sá afgerandi og persónulegi stíll sem einkennir öll hennar verkefni.

Áslaug skapar ekki rétti heldur sjónrænar upplifanir og er óhætt að segja að hún sé matarlistamaður sem fer ótroðnar slóðir. Hún hefur gefið út fjölda bóka um mat og matarmenningu. Hún hefur einnig haldið úti kaffihúsum, skemmtanarýmum og veisluþjónustu. Auk þess var hún annar stjórnenda matreiðsluþáttarins „Fagur fiskur“ á Ríkissjónvarpinu. Í nýjustu bók sinni, Íslensk ofurfæða – villt og tamin, beinir hún sjónum að nægtaborði Íslands og töfrar fram fallegan og næringarríkan mat úr nærumhverfinu. Í bókinni býður Áslaug lesendum með sér í ferðalag um Ísland; ferðalag sem hefst á orðunum „Skál fyrir lífsgleðinni!“ Viðeigandi upphaf sem lýsir lífssýn Áslaugar vel.

DSC_9445

Perlan á malbikinu

Þegar ég kem spyr Áslaug mig strax hvort ég vilji fara með henni í smá gönguferð. Hún þurfi að tína hansarósir fyrir skreytingar. Ég jánka því auðvitað og við röltum yfir Sæbrautina. Í þungum umferðarniði spjöllum við um jurtagarða á þaki, berar iljar á grasi og franskar hurðir. Á bak við bensínstöð finnum við svo perlu í malbikaðri eyðimörkinni – stærðarinnar runna með dökkbleikum hansarósum!

„Við Ásgeir Sandholt bakari ætlum að töfra fram prinsessukökur sem eru innblásnar af afmæli sænsku prinsessanna,“ segir Áslaug sem er að vinna að spennandi kökubók með Ásgeiri. „Mig langar að skreyta þær með heilu hafi af hansarósum.“ Hún notar oft hansarósir sem hráefni í matargerð sinni. Hún gerir til dæmis salat úr þeim sem hún kallar hamingjusalat. „Ég segi fólki að salatið sé svo gott fyrir kynhvötina!“

Ég fylgist með Áslaugu klippa varfærnislega rósahnappa af runnanum og setja í pokann sinn. Þá rennur upp fyrir mér hversu óvanaleg þessi upplifun er fyrir mig sjálfa. Utan árlegrar ferðar í berjamó kemur nánast allur matur sem ég neyti úr matvörubúðum. Það er hins vegar fastur liður í tilveru Áslaugar að leita sér matar og efniviðar í náttúrunni. Með trjáklippurnar og poka í höndunum minnir hún á nútímaútgáfu af söfnurum fyrri samfélaga. Safnarinn á malbikinu með rauða varalitinn.

Hérna erum við með svo dásamlegt hráefni í nærumhverfinu, fullt af hollum og góðum mat. Eins og þara, sem hægt er að nálgast árið um kring, hvönn, krækiber og kerfil.

En fólk áttar sig ekki á því að nýta þetta hráefni. Rúnar Marvinsson listakokkur lýsti þessu vel. Hann sagði að flestir reyttu arfann í bakgarðinum og hlypu svo út í búð að kaupa ruccola frá Ítalíu. Mér fannst líka sérstakt í góðærinu þegar allir voru að kaupa blæjuber frá Nýja-Sjálandi þegar hér voru allar þúfur stútfullar af krækiberjum!“

DSC_9840

Ljósmyndaminni á mat

Þegar inn er komið ber Áslaug fram glitrandi grænan gúrkukokteil í kristal. Við setjumst niður í borðstofu baðaðri birtu og höldum spjallinu áfram.

Áslaug fluttist til Svíþjóðar um tveggja ára aldur. Ein af hennar fyrstu minningum er þegar faðir hennar tók á móti konu sinni og dóttur í hálftómri íbúð í Stokkhólmi. „Það var grjónagrautur í matinn. En við áttum ekkert borð. Svo pabbi tók bara hurð af hjörunum og lagði ofan á tvær málningarfötur. Við sátum svo á gólfinu og borðuðum grjónagrautinn.“

Mörgum árum síðar nýttist þessi endurminning í þáttunum Fagur fiskur. „Við elduðum fiskhausa fyrir hljómsveitina Mammút í æfingarýminu þeirra. En þar var ekkert borð. Þá vippaði ég auðvitað bara hurð af hjörunum! Þetta var bara innblástur frá því ég var lítil.“

Úlfar Eysteinsson kokkur kemur ásamt fjölskyldu sinni í heimsókn til litlu fjölskyldunnar. „Hann kemur með þorskbita og steikir þá í smjöri, bætir við hvítvíni og rjóma og hrærir það saman; dálítil klassík bara. Þarna er ég svona fjögurra ára gömul. Krakkinn stendur þarna og starir á manninn af því að þetta er allt svo hvítt og fallegt. Þetta var fyrsta uppskriftin sem ég lærði og ég man hana ennþá. Fjörutíu og fimm árum síðar.“

Áslaug er með ljósmyndaminni þegar kemur að mat. Um huga hennar flögra endalausar minningar og myndir af mat. „Ég man nákvæmlega eftir matnum í flugvélunum á milli Svíþjóðar og Íslands. Litnum á kálinu með kjúklingnum. Hvernig paprikan var brotin í tvennt. Svo man ég eftir nestinu í ferðalögum um Ísland. Þá var pakkað niður bleikum glassúrsnúðum. Mjólk á glærum flöskum. Það var alltaf komin sólarlykt af mjólkinni eftir að hafa staðið úti. Ef ég finn svona lykt núna verð ég aftur bara fimm ára. Svo voru teknar með pylsur í ferðalög og settar í pott í sumarbústaðnum. Á þessum tíma voru pylsurnar eitur-appelsínugular á litinn, óhuggulegar!“

Áslaug bjó í Svíþjóð þar til hún var þrettán og hálfs árs. Þaðan kemur ástríða hennar fyrir lautarferðum en hún er einmitt fræg fyrir að geta slegið upp veislu hvar sem er.

„Í Svíþjóð lærði ég að borða úti, eins og ég kalla það. Ég borða úti árið um kring. Að grilla lax í bréfi undir mjúkri hundslappadrífu; það er sérstök tegund af hamingju“

Skólinn á Morgunblaðinu

Áslaug var aldrei með nein ákveðin plön um hvað hana langaði að gera. Allt í tengslum við mat og fegurð heillaði hana þó alla tíð. „Það er þessi sjónræni þáttur sem dregur mig svo mikið að mat. Til dæmis bleiku glassúrsnúðarnir. Ég hef oft myndað þá – en myndi aldrei smakkað þá. Stundum borðar maður bara með augunum.“

Eftir útskrift úr menntaskóla þreifaði Áslaug fyrir sér í bókmenntafræði í Háskólanum en hún hentaði henni ekki. „Ég stoppaði þar æðislega stutt!“ Hún prófaði því að sækja um vinnu á Morgunblaðinu og fékk hana. Þetta var árið 1987. „Minn skóli er eiginlega tíminn minn á Mogganum. Ég fékk vinnu í umbrotinu og þar lærði ég að teikna allt upp og geri það enn. Á Mogganum fór ég að þróa mína rödd.“

000010 copy

Áslaug fór svo að vinna sjálfstætt sem ljósmyndari. „Ég er bara sjálflærður ljósmyndari en var auðvitað búin að vera að aðstoða manninn minn (innsk. blm. Pál Stefánsson) sem er ljósmyndari, og á vappi með honum.“ Á þessum árum, eða í kringum 2002, gaf Áslaug meðal annars út bókina „About Fish“; ljósmyndabók með nostalgíu- og matreiðsluívafi. Þar leikur hún sér með landamæri matargerðar, framsetningar og ljósmyndunar, líkt og í öðrum bókum sínum.

Áslaug sneri mörgum árum síðar aftur á Morgunblaðið. Þá sem ritstýra M-blaðsins, sérblaðs um mat. Hún var þar í tvö ár og minnist þess tíma með mikilli hlýju. „Á M-blaðinu mátti ég allt. Það er alltaf uppáhaldstíminn minn, þegar ég má allt. Ég gat verið með heilt blað um Úkraínu ef mér datt það í hug; heilsíðu með magadansara og vodka með tómat!“

Það var ekki fyrr en eftir M-blaðið sem Áslaug tók stökkið yfir í veisluþjónustugeirann. Fyrir það hafði hún mest verið að elda heima. Hún hafði þó alltaf verið dugleg að halda veislur fyrir vini sína. „Ég fór kannski til Belgíu og sá marsipangrísi og fylllti svo heila ferðatösku af þeim. Svo sló ég upp marsipanveislu þegar heim var komið!“

Áslaug vinnur mikið með þemu. „Alltaf þegar ég er með veislur teikna ég upp útlitið sem ég sé fyrir mér og sendi á fólk. Ég þarf líka undantekningarlaust að koma heim til fólks, þá sé ég strax hvernig maturinn á að vera. Í eitt einasta skipti hef ég haft allt svart; í veislu sem ég var með fyrir konu í Garðabæ árið 2007. Þá fann ég að það þurfti að vera þannig og það smellpassaði.“

Fyrir verkefni sækir Áslaug innblástur í ferðalög, drauma og minningar. Hún leitast við að endurskapa hughrif sem hún hefur orðið fyrir. „Ég geri það sem mér dettur í hug. Ég gef mig ekki út fyrir að vera kokkur, ég er bara það sem ég er. Þess vegna hef ég svona mikið frelsi. Ég hef boðið upp á eintómt sælgæti á hlaðborði. Ég hef líka grillað hundrað kíló af nýuppteknum gulrótum, sett á prjóna og stungið í kálhausa.  Eða verið með kleinubeð og hamingjuský úr marens. Svo er mikilvægur þáttur í mínu ferli að segja sögu. Ég er kannski með óskaköku þar sem er ósk í hverjum bita. Spila svo Óskalög sjómanna undir,“ segir Áslaug hlæjandi!

IMG_4896

Lífsgleðin og Kúba

Bókin Íslensk ofurfæða – villt og tamin, er nýjasta verkefni Áslaugar. „Forlagið nálgaðist mig með að gera svona bók og mig langaði að gera eitthvað létt og leikandi. Ég hef gaman af að hampa heimilismat, skapa eitthvað óvanalegt úr hinu kunnuglega. Ég fyllist svo mikilli bjartsýni og gleði við að sjá að ungir kokkar á Íslandi eru í vaxandi mæli að fara út að tína; nýta hráefni úr íslenskri náttúru og vinna með nærumhverfið.“

Áslaug segist alltaf hafa verið glaðlynd og dálítil Pollýanna. Það sé í eðli hennar að veita ósjálfrátt athygli því sem er jákvætt og ekki hinu sem er neikvætt. En það eru átta fletir á öllum málum og Áslaugu líka. Eitt sinn þegar Áslaug var veðurteppt á Seyðisfirði fór hún til konu sem spáir í indverska stjörnuspeki. Sú sagði Áslaugu að hún myndi falla í skugga í kringum fjörutíu og sjö ára aldurinn. Spákonan reyndist sannspá. Í kringum þann aldur fór Áslaug að finna fyrir lægð. „Þá var ég búin að vera að halda veislur í öll þessi ár. Alltaf gestgjafi. Alltaf á útopnu. Og svo fór ég bara inn í skel. Þetta voru svona eitt, tvö ár þar sem sköpunargleðin dempaðist alveg. Hún var bara ekki til staðar. Ég man að einu sinni fór ég að hágráta hérna úti í garði. Þetta var í febrúar. Og ég fór að gráta af því að það var engin tilhlökkun innan í mér eftir vorinu. Þetta fannst mér ægilega merkilegt.“ Lægðin gekk yfir og Áslaug fékk kraftinn til baka. En hún segir að það sé mikilvægt að leyfa sér að vera alls konar. Og leyfa öðrum líka að vera eins og þeir eru.

DSC_9503

„Maður þarf að kunna að hugsa bara „so what?“ Það og lífsgleðin finnst mér númer eitt,“ segir Áslaug einlæg og tekur um hendur mínar. Hún horfir djúpt í augun á mér í gegnum dökk sólgleraugun og brosir.

„Til hvers að hafa leiðinlegt? Við þurfum að þakka fyrir lífið og taka það inn. Hafa dálítið „swing“.

Það lærði ég líka á Kúbu. Þar voru allar dömurnar bara í leggings með rassana út í loftið og allt bara gaman. Þannig að ég segi oft við fólk – æi, tökum smá Kúbu á þetta!“

Það er auðvelt að týna sér í ævintýraheimi Áslaugar.  Þegar hún kveður mig með faðmlagi, höfum við talað saman alltof lengi. Og gúrkukokteillinn er löngu búinn. En þegar ég stíg út í gráan daginn er hjartað fullt af Kúbu og spírandi hundslappadrífu.


foodforsida
GREININ BIRTIST FYRST Í BLAÐINU FÆÐA-FOOD Í BOÐI NÁTTÚRUNNAR SEM KOM ÚT Í FYRRA. KAUPTU EINTAK HÉR