Sólveig Eiríksdóttir er ein af okkar þekktustu heilsukokkum. Hún hefur rutt brautina þegar kemur að grænmetismat og lífrænu hráefni og kennt okkur Íslendingum að borða og elda heilnæmari mat með litríkum og ljúffengum grænmetisuppskriftum sínum. En á bak við flestar góðar uppskriftir er góð saga, og hér segir hún okkur frá einni slíkri en þessi grein birtist fyrst í nýjasta tölublaði FÆÐA/FOOD
„Mig hafði alltaf langað að hafa indverskt Dahl á matseðlinum á Gló. Um er að ræða próteinríkan baunarétt, sem er einn af uppistöðunum í indverskri matargerð. En málið er að ef maður ætlar að gera gott dahl þá tekur það svo rosalega langan tíma. Ég sá því ekki fram á að geta boðið upp á það á veitingastaðnum, því það tók mig allan daginn að útbúa réttinn. Ég byrjaði snemma á morgnana að steikja laukinn og krydda, svona var þetta byggt upp í gegnum daginn og svo endaði þetta í einhverju guðdómlegu.
„Þá áttaði ég mig á að ég gleymdi að senda henni leiðbeiningarnar.“
Eitt sinn ætluðum við að halda fjölskyldumatarboð, og ég bað dóttur mína um að elda. Þar sem hana langaði líka að læra að gera þetta gómsæta Dahl mitt samþykkti hún það, og ég sendi henni í flýti uppskriftina. Ég mætti svo í matarboðið um kvöldið og var með dálítið samviskubit að hafa látið hana, með lítið barn, eyða heilum degi í að gera þetta tímafreka dahl. Svo borðuðum við og ég var í algjöru himnaríki, svo ánægð með máltíðina og hugsaði bara: „Ahh það er svo æðislegt þegar uppskriftirnar manns heppnast svona vel hjá öðrum.“ Ég fór að dásama matinn og kokkinn, og baðst forláts að hafa látið hana standa yfir pottinum allan daginn. Hún hrissti bara höfuðið og virtist ekki vita hvað ég var að tala um og sagði að þetta hefði verið svo auðvelt og fljótlegt. Þá áttaði ég mig á að ég gleymdi að senda henni leiðbeiningarnar. Hún tók því sem svo, að þetta ætti bara að fara allt saman á suðu í pottinn og malla í rétt um klukkutíma.
„Okkar leyndarmál er að við setjum blómkál og spínat út í “
Ég varð steinhissa og áttaði mig á því þarna að það væri hægt að búa til þetta dásamlega dahl á miklu einfaldari hátt! Þetta varð svo til þess að ég gat þróað dahl til að setja á matseðilinn á Gló. En þetta framandi bragð var viðbót við flóruna þar, því ég vildi ekki gera það nema að það væri alveg alvöru. Okkar leyndarmál er að við setjum blómkál og spínat út í baunaréttinn. Hefðbundið dahl er bara baunir og sósa með grænmeti til hliðar en mér datt í hug að blanda grænmeti við það, og það gerir alveg gæfumuninn. Það sem er nauðsynlegt í indverskri matargerð, og flestri yfirhöfuð, er að mala kryddin sjálf. Nýmöluð krydd gefa allt annað bragð en krydd sem voru möluð mörgum mánuðum áður, og bragðlögin eru lykillinn að indverskri matargerð. Nú er dahl-ið ein af vinsælustu uppskriftum okkar á Gló, sem segir mér að mistök og misskilningar verði oft til mikillar gæfu!“
UPPSKRIFT
Indverskt Dahl
1 meðal stór laukur
2 hvítlauksrif
2 msk engiferskot (eða engiferbútur skorinn í smáa bita)
1 1/2 msk lífrænt Madras Karrý, líka hægt að nota Garam Masala
1 tsk turmerik
1 msk góð olía (okkur fannst kókosolía passar vel hér)
1 lítið blómkálshöfuð eða 1/2 stórt, skorið í munnbita
250g rauðar linsur, lífrænar (1/2 poki)
1 dós kókosmjólk
400-500 ml vatn (hægt að nota bara vatn ef vill – þá ca 800 ml, en kókosmjólkin gefur dásamlega áferð)
1 1/2 tsk sjávarsalt
3-4 tsk sítrónusafi
Cayenne pipar eftir smekk
Vænn slurkur af hvítlauks-ólífuolíu
Byrjið á að saxa niður lauk og hvítlauk, hitið í 2 mín í botni pottsins í olíunni, með engiferskotinu og Madras karrý. Þetta er gert til að opna bragðið af kryddunum. Bætið svo blómkálsbitunum út í, því næst linsunum og vökvanum. Látið suðuna koma upp og lækkið svo hitann þannig að allt malli í rólegheitum í u.þ.b.
20mín – eða þar til blómkálið er orðið mjúkt og linsurnar orðnar að smá kássu. Hrærið í af og til og fylgist með að brenni ekki í botninn. Hafið pottinn opinn, en ekki of háan hita. (Á meðan Dalið mallar í pottinum er tilvalið að hræra í raítu og útbúa roti pönnubrauð). Í lokin, þegar Dalið er tilbúið, bætið þá saltinu, sítrónusafanum, cayenne pipar og vænum slurk af hvítlauksolíunni út í. Smakkið Dalið, ef ykkur finnst það mega vera bragðmeira bætið við smá auka salti, sítrónusafa eða hvítlauks ólífuolíu.
HÆGT ER AÐ KAUPA NÝJA FÆÐA / FOOD HÉR