Það er svo mannlegt að hafa löngun til þess að líða vel, okkur langar að upplifa þægilegar tilfinningar og mörg okkar langar einfaldlega alls ekki til þess að upplifa erfiðar tilfinningar, vanlíðan, depurð, óþægindi, ótta, sorg o.s.frv.
Það er ótrúlegt hvað það getur verið ríkt í okkur að forðast þessar tilfinningar, reyna að finna leiðir til að komast hjá þeim. Allt frá því að borða mat, drekka áfengi, forðast ákveðnar aðstæður og fólk o.s.frv.
Hins vegar þá erum við stundum í aðstæðum í lífinu sem vekja upp erfiðar tilfinningar, hvort sem við viljum það eða ekki. Aðstæður sem við getum ekki hlaupið í burtu frá, við bara erum þarna og getum ekkert að því gert. Við getum rifist yfir því, kvartað og kveinað, bölvað því af hverju við séum nú svona óheppin að vera í þessum aðstæðum. ,,Af hverju ég?”. Við getum farið þá leið ,,ALL INN”.
Eða…
Við getum horfst í augu við það að lífið spilar á taugakerfið okkar alveg eins og tónlistarmenn á hljóðfæri, það spilar á allar nóturnar til þess að úr því verði stófenglegt heildarlistarverk. Það leikur á allar nóturnar á mismunandi tímum og stöðum í laginu. Það er einfaldlega hluti af því að vera mannvera að upplifa erfiðar aðstæður og þar af leiðandi erfiðar tilfinningar. Það er mjög auðvelt að skilja þetta á prenti og að ræða um þetta… En í hita leiksins, þegar maður er meðvitaður um erfiðu aðstæðurnar og að upplifa erfiðar tilfinningarnar er mjög auðvelt að gleyma þessu og verða reiður eða sár og finnast lífið vera ósanngjarnt og maður vera óheppin. Það veldur síðan ennþá meiri vanlíðan og því getur einnig fylgt ,,saga” um að við séum eitthvað sérstaklega óheppin eða að lífið okkar sé svo óréttlát o.s.frv.
En við getum reynt eftir bestu getu að minna okkur á, í hita leiksins, að það er hluti af því að vera mannvera að upplifa þessar tilfinningar og reynt að sýna okkur skilning, sýna okkur samúð gagnvart tilfinningunum og aðstæðunum og fundið tilfinninguna/arnar og sleppt henni þegar við getum. Við getum sleppt því að sjá okkur sem sérstaklega óheppin af því að við erum í þessum aðstæðum. Við getum reynt að minna okkur á það að aðrir upplifa aðra erfiðleika og það er undir okkur öllum komið sem einstaklingar að sýna okkur kærleika, samúð og skilning á meðan við upplifum þessar erfiðu tilfinningar.
Við getum verið í mjög erfiðum aðstæðum, aðstæðum sem engin myndi kæra sig um að vera í, en í flestum tilfellum er gott að sleppa því að detta í of mikið fórnalambshlutverk og velta sér upp úr því hversu hrikalegt maður hefur það. Það veldur manni yfirleitt bara meiri vanlíðan. En þarna er að sjálfsögðu mat hvers og eins hvað maður þarf að tjá sig mikið um mál til að vinna úr því og hvenær er komið nóg. Þar sem það er nauðsynlegt að vinna úr erfiðri reynslu og fá að tjá sig um það upp að vissu marki.
Við getum valið að sætta okkur við að lífið inniheldur erfiðar aðstæður og tilfinningar.
Við getum valið sátt.
Það er erfitt, en það er auðveldara en að streitast á móti einhverju sem er hluti af okkur og lífinu.
Megið þið upplifa sátt í þeim erfiðu aðstæðum sem þið upplifið í lífinu.