Snöggsýrðar gulrætur

UPPSKRIFT Sólveig Eiríksdóttir MYNDIR Hildur Ársælsdóttir

Mæðgurnar Sólveig Eiríksdóttir, eða Solla eins og flestir þekkja hana, og Hildur Ársælsdóttir, eru miklir matgæðingar og vita fátt skemmtilegra en að elda saman. Þær leggja áherslu á ljúffengan og hollan mat þar sem dekrað er við bragðlaukana. Hér er ný uppskrift, snöggsýrðar gulrætur, úr smiðju þeirra sem gaman er að útbúa. Njótið vel! 

Hráefni

1 kg gulrætur, skornar í ½ cm þykkar lengjur
1 msk. sjávarsaltflögur
Innan úr 2 hylkjum af probiotic
2 msk. engiferskot
5 cm fersk engiferrót, skorin í mjög þunnar sneiðar (hægt að nota pikklaðan „sushi“ engifer, um 2 msk.)
2 hvítlauksrif, fínt söxuð
1 stöngull sítrónugras, skorinn í þunnar sneiðar
½ l engifer kombuch

Aðferð

Setjið sjávarsalt, probiotic, engiferskot, engifersneiðar eða pikklaðan engifer, hvítlauk og sítrónugrassneiðar í krukku. Skerið gulræturnar í þunnar lengjur og setjið í krukkuna, eins mikið og kemst fyrir. Endið á að hella kombucha yfir, skiljið eftir 3 cm upp að kanti því ef það verður hressileg gerjun getur flætt upp úr. Látið standa við stofuhita í 24-60 klst., allt eftir smekk, hvað þið viljið hafa gulræturnar vel sýrðar. Geymið í ísskáp í 3-4 mánuði í þessum legi í lokaðri krukku. 

Þessi grein er úr vorblaði Lifum betur – í boði náttúrunnar 2021. 

Tögg úr greininni
, ,