Sólblóm – brosandi gleðigjafi

TEXTI og MYNDIR María Birna

Væri ekki gaman að koma heim og fara út á svalir eða pall og sjá brosandi sólblóm horfandi á móti þér? Sólblóm eru heillandi plöntur sem hægt er að rækta á Íslandi. Þau eru gleðigjafi sem brosir til þín. En passið ykkur á þeim! Ef vel tekst til við fyrstu ræktunina á sólblómum frá fræi, þá er ekki víst að þú getir nokkurn tíman komist undan því verki að sá sólblómafræjum í pott að vori.

Þetta eru virkilega blóm með persónuleika, enda minnir blómið á andlit. Þau eru líka ótrúleg þar sem þetta eru einær sumarblóm og vaxtarhraðinn er gífurlegur. Það þýðir að þau vaxa frá pínulitlu fræi upp í jafnvel þriggja metra hæð eða meira. Flest eru þau á bilinu 1,3- 2 m þegar þau blómstra í ágúst til september.

Best er að forrækta þau inni á gluggasyllu nema þú búir í mjög veðursælli sveit. Þetta er gert að vori, apríl til miðjan júní.

Best er að forrækta þau inni á gluggasyllu nema þú búir í mjög veðursælli sveit. Þetta er gert að vori, apríl til miðjan júní. Hægt er að setja 1- 2 fræ í 10 cm stóran pott og 3 cm niður í moldina og vökva vel á eftir. Halda svo moldinni rakri meðan beðið er eftir spírun. Blómið spírar eftir 1-2 vikur. Potturinn má gjarnan vera staðsettur í suður glugga en mikilvægt er að vökva vel þar sem kímplönturnar eru mjög þyrstar. Þegar þær eru komnar með að minnsta kosti 5 laufblaða pör er kominn rétti tíminn til að setja plönturnar út, annað hvort í stórt ker eða skjólsælt sólríkt beð. Það er líka mikilvægt að vökva vel eftir að plantan er flutt.

Þegar sólblómið er búið að ná rótum er ekki nauðsynlegt að vökva nema í miklum þurrkum eða ef kerið, sem plantað er í, er mjög lítið. Annars passar plantan sig nokkurnvegin sjálf. Ef það er hætta á miklu roki þannig að blómið geti fokið um koll er gott að binda þau við bambusspítu sem er stungið ofan í jörðina. Oftast eru stönglarnir þó svo sterkir að þeir þola dágóðan vind. Blómin sem verða til eru mjög mismunandi af stærð, lögun og jafnvel lit. Það finnast margar útgáfur af sólblómum, það eru meira að segja til rauð sólblóm, en þau eru oftast minni. Í kverkinni frá efstu laufblöðunum vaxa oft minni sólblóm sem gaman getur verið að tína í vendi. Ef maður er mjög heppin(n) með sumarið þá myndast fullþroska fræ sem hægt er tína og þurrka og sá að næsta vori, eða gefa fuglunum. Það er líka hægt að leika sér með ræktunina á sólblómum á ýmsan hátt: Sá þeim í hring svo krakkarnir geti falið sig inni í sólblómahringnum eða búa sér til heilan akur af sólblómum. Það er líka hægt að fara í keppni við nágranna og vini um hver ræktar hæsta sólblómið og gefa verðlaun.

Fræin er hægt að kaupa á Innigarðar eða gróðrarstöðvum

Góða skemmtun!

Tögg úr greininni
, , , , ,