Þegar sólblómið er búið að ná rótum er ekki nauðsynlegt að vökva nema í miklum þurrkum eða ef kerið, sem plantað er í, er mjög lítið. Annars passar plantan sig nokkurnvegin sjálf. Ef það er hætta á miklu roki þannig að blómið geti fokið um koll er gott að binda þau við bambusspítu sem er stungið ofan í jörðina. Oftast eru stönglarnir þó svo sterkir að þeir þola dágóðan vind. Blómin sem verða til eru mjög mismunandi af stærð, lögun og jafnvel lit. Það finnast margar útgáfur af sólblómum, það eru meira að segja til rauð sólblóm, en þau eru oftast minni. Í kverkinni frá efstu laufblöðunum vaxa oft minni sólblóm sem gaman getur verið að tína í vendi. Ef maður er mjög heppin(n) með sumarið þá myndast fullþroska fræ sem hægt er tína og þurrka og sá að næsta vori, eða gefa fuglunum. Það er líka hægt að leika sér með ræktunina á sólblómum á ýmsan hátt: Sá þeim í hring svo krakkarnir geti falið sig inni í sólblómahringnum eða búa sér til heilan akur af sólblómum. Það er líka hægt að fara í keppni við nágranna og vini um hver ræktar hæsta sólblómið og gefa verðlaun.