Stjúpan með sín mörgu andlit

TEXTI Bergdís Sigurðardóttir

Stjúpur (Viola x wittrockiana) eru algeng sjón í beðum og pottum landsmanna á sumrin. Þrátt fyrir vinsældirnar þykir sumum lítið til stjúpanna koma og finnst þær bæði gamaldags og ófrumleg blómaskreyting. Stjúpur hafa heldur ekki verið áberandi í híbýlablöðum síðustu misserin þar sem litafælin naumhyggja er rýkjandi. Nú grunar okkur þó að þær áherslur séu að breytast.

Ræktun

Þótt naumhyggjan sé komin til að vera þá er hún innblásin af núvitundarvakningunni, sem kallar á umhverfi sem eflir orku og dregur úr streitu. Það er margsannað að plöntur, fallegir litir og góður ilmur hafa jákvæð áhrif á vellíðan og því er óhætt að mæla með litríkum og ilmandi stjúpum til að lífga upp á nærumhverfið og salatið þitt í sumar. Fyrir þá sem vilja rækta stjúpur sjálfir er annaðhvort að sá fræjum inni í byrjun febrúar til að hún blómstri að sumri eða síðla sumars til að fá plöntur upp að komandi vori. Ef stjúpum er sáð of snemma sumars þá eiga þær til að blómstra um haustið sama ár. Plönturnar er best að gróðursetja í bakka sem loftar um, gefa áburð og vökva vel. Þegar hlýna tekur má svo gróðursetja stjúpurnar út í beð eða ker.

Fyrir þá sem vilja rækta stjúpur sjálfir er annaðhvort að sá fræjum inni í byrjun febrúar til að hún blómstri að sumri.

Stjúpur, Viola x wittrockiana, eru ein vinsælustu sumarblómin í heiminum enda einstaklega harðgerðar, litskrúðugar og vinalegar plöntur. Þær þrífast vel við íslenskar aðstæður og standa í blóma allt sumarið. Stjúpur (einærar eða tvíærar) eru kynblendingar, ræktaðar úr nokkrum fjólutegundum, aðallega þrenningarfjólu, Viola tricolor, sem vex víða villt í íslenskri náttúru og gullfjólu, V. lutea, sem er mjög lík þrenningarfjólu nema með stærri blóm, oftast alveg gul. Báðar fjólurnar eru með rákum á neðsta krónublaðinu. 

Ljósmyndir teknar af Marthastewart.com

Lýsing

Stjúpan er með fimm bikarblöð og fimm krónublöð, en bikarblöðunum er misskipt milli krónublaðanna. Krónublöðin eru með fíngerð hár sem gefa þeim flauelsmjúka viðkomu. Hárin lengjast þegar nær dregur miðju blómsins, sem kemur út eins og lítið skegg. Neðsta krónublaðið er stærst og með tvö bikarblöð, hliðarblöðin tvö vísa upp á við og hafa hvor sitt bikarblaðið og tvö efstu krónublöðin eru misskipt og deila einu bikarblaði á milli sín. Skýringin á stjúpunafngiftinni vísar einmitt í hvernig krónublöðin deilast á bikarblöðin. Í þýskum og skoskum þjóðsögum er talað um „stiefmütterchen“ og „stepmother“ því neðra krónublaðið táknar stjúpmóðurina, hliðarblöðin tákna dætur hennar tvær sem eru ríkar og fínar enda blöðin litrík og efri blöðin tákna stjúpdæturnar sem eru fátækar enda einlitar og þurfa að deila einu bikarblaði. Á ensku er hún kölluð „Pansy“ og á frönsku „Pensée“ sem merkir „að hugsa“ eða „að minnast“ og vísar í óvenjulegt útlit blómsins en það vísar beint fram, næstum samsíða stönglinum og lítur út eins og andlit. Frökkum fannst andlit stjúpunnar líkjast manni í þungum þönkum. Í Englandi stendur stjúpan oft fyrir minningu.

Nýting

Stjúpur eru harðgerðar og blómsælar jurtir, sem þola nánast öll veður yfir sumartímann og eru því frábær kostur hér á landi, til að fegra umhverfið. Fyrir þá sem eiga ekki garð er tilvalið að planta þeim í falleg ker og potta til að lífga upp á svalirnar eða við innganginn á húsinu. Stjúpur ilma einnig dásamlega og krónublöðin má þurrka og nota sem ilmjurt innanhúss yfir vetrartímann. Þær eru einnig góð viðbót við grænmetisgarðinn því þær eru vel ætar og ríkar af A- og C-vítamínum. Öfugt við margar aðrar ætar plöntur þá má borða alla stjúpuna en krónublöðin eru með smá myntukeim og æðisleg í salatið og eftirréttinn, bæði sem hráefni og til skreytingar. Hér gildir þó sama reglan og um aðrar ætar plöntur að ekki má borða þær sem hafa verið spreyjaðar með eitri!

Saga

Fyrstu skrefin í ræktun stjúpunnar áttu sé stað á enskum aðalssetrum í upphafi nítjándu aldar en þá urðu miklar framfarir í kynbótum og ræktun. Lafði Mary Elizabeth Bennet (1785-1861) hefur verið kölluð móðir nútímastjúpunnar. Hún safnaði og ræktaði allar mögulegar tegundir af þrenningarfjólum á landareign sinni og krossræktaði með aðstoð garðyrkjumanns fjölskyldunnar. Þau ræktuðu bæði einlitar stjúpur í gulu, bláu eða fjólubláu og tvílitar með tveimur blöðum í sama litnum og þremur í öðrum lit. Stjúpurnar voru sýndar á ræktunarsýningu í Englandi árið 1813, við mikla hrifningu  almennings og sérfræðinga, sem héldu svo áfram að kynbæta þær. En þetta voru þó ekki stjúpur eins og við þekkjum þær í dag, heldur voru stjúpurnar hennar lafði Mary kynbættar þrenningarfjólur. Þær voru fyrirferðarmeiri, með stærri blómum og í fleiri litafbrigðum en þrenningarfjólan er með töluvert minni blómum og færri litum en stjúpan sem við þekkjum í dag. 

Stjúpur geta verið einlitar, tvílitar eða þrílitar, frá alveg hvítum til næstum svartra og í öllum litum þar á milli.

Hægt er því að segja að stjúpur séu komnar af hefðarfólki sem voru síðan ræktaðar hérlendis og fjöldi yrkja er til af þeim. Þær eru á bilinu 10-25 cm á hæð og 3-8 cm í þvermál. Tegundirnar eru mjög margar og hver þeirra getur verið í mörgum litaafbrigðum og endalaust koma nýjar tegundir á markaðinn. Í dag eru til á þriðja hundrað tegundir af stjúpum í öllum regnbogans litum og ræktendur um allan heim keppast við að uppgötva nýja liti og litasamsetningar. Stjúpur geta verið einlitar, tvílitar eða þrílitar, frá alveg hvítum til næstum svartra og í öllum litum þar á milli. Stundum eru blómin með stórum blettum í dekkri samlit og stundum með dökkar æðar eða rákir en allar stjúpur eru með gult auga í miðju blómi.

Þessi grein er úr sumarblaði Lifum betur – í boði náttúrunnar 2018

Sjá einnig grein um ræktun á sólblómum