Stjúpur, Viola x wittrockiana, eru ein vinsælustu sumarblómin í heiminum enda einstaklega harðgerðar, litskrúðugar og vinalegar plöntur. Þær þrífast vel við íslenskar aðstæður og standa í blóma allt sumarið. Stjúpur (einærar eða tvíærar) eru kynblendingar, ræktaðar úr nokkrum fjólutegundum, aðallega þrenningarfjólu, Viola tricolor, sem vex víða villt í íslenskri náttúru og gullfjólu, V. lutea, sem er mjög lík þrenningarfjólu nema með stærri blóm, oftast alveg gul. Báðar fjólurnar eru með rákum á neðsta krónublaðinu.