Þinn eigin plöntuveggur

TEXTI Sigríður Inga Sigurðardóttir MYNDIR Magnús Bjarklind

HEIMASMÍÐAÐUR PLÖNTUVEGGUR

Margir hafa velt því fyrir sér hvernig plöntuveggir er búnir til og hafa jafnvel áhuga á að koma sér upp slíkum vegg heimavið. Að ýmsu er að huga til að þeir heppnist sem best en í upphafi þarf að velja tegundir sem þola vel íslenskt loftslag. Til að plönturnar vaxi og dafni þarf að vökva þær reglulega og eru sumir veggir útbúnir með sjálfvirku vökvunarkerfi. Góð lýsing er einnig mikilvæg og fyrir stærri veggi er oft sett upp sérstök lýsing, jafnvel tímastillt, svo plönturnar fái næga dagsbirtu. Þar sem það kostar sitt að kaupa plöntur og annan búnað er skynsamlegt að byrja á plöntuvegg sem er utandyra því þá þarf hvorki að hafa áhyggjur af vökvun né birtu. Í öllum tilfellum þarf að passa vel upp á að hvorki myndist raki né mygla á þeim stað sem veggur er settur upp, svo hann valdi ekki skemmdum á húsnæði. 

Sex einföld skref :

  1. Byrjað var á að smíða timburramma með vatnsheldum botni.
  2. Í hann var sett mold, blönduð vikri.
  3. Plöntunum var komið fyrir í rammanum. Þetta voru berghnoðra, helluhnoðra, bergflétta, rottueyra, ljónslappi og jarðarberjaplöntur
  4. Vírnet var sett yfir rammann til að styðja við plönturnar.
  5. Veggurinn var hafður láréttur í fjórar vikur á meðan plönturnar jöfnuðu sig vel.
  6. Veggurinn gaf af sér góða uppskeru, bæði kryddjurtir og jarðarber. 

Skemmtilegar tilraunir heimavið

Magnús Bjarklind, skrúðgarðyrkjumeistari, er einn þeirra sem hefur góða þekkingu á plöntuveggjum, og hefur byggt nokkra slíka veggi. Þeir byggðu meðal annars vegginn í Perlunni sem greinin Lifandi Listaverk fjallar betur um. „Við Baldur Guðlaugsson, vinnufélagi minn, höfum verið að nördast aðeins saman í þessu. Í fyrrasumar ákváðum við að prófa að gera kryddjurtavegg úti í garði hjá mér. Við bjuggum hann til úr fíberdúkum, en botninn var úr vatnsheldri PVC-plötu. Veggurinn var einn og hálfur fermetri að stærð, með einföldu, innbyggðu vökvunarkerfi. Við settum 64 plöntur í hann; tvær tegundir af salvíu, óregoni og steinselju, þrjár mismunandi gerðir af timíjan og eina tegund af hjartafró, mintu og estragoni. Við settum einnig tvær tegundir af jarðarberjaplöntum í vegginn, og það kom okkur skemmtilega á óvart hversu vel þær döfnuðu,“ segir Magnús. Þeir félagar vinna saman hjá verkfræðistofunni Eflu, m.a. við að hanna og smíða plöntuveggi.

Við bjuggum hann til úr fíberdúkum, en botninn var úr vatnsheldri PVC-plötu. Veggurinn var einn og hálfur fermetri að stærð, með einföldu, innbyggðu vökvunarkerfi.

Þeir Baldur prófuðu einnig að búa til einfaldan gróðurvegg sem var hafður utandyra yfir sumartímann. Hann var settur saman úr einfaldri trégrind með vatnsheldum krossviði í bakið. „Í þann vegg notuðum við berghnoðra, helluhnoðra, bergfléttu, rottueyra, ljónslappa og jarðarberjaplöntur. Fyrst smíðuðum við timburramma, og í hann settum við mold, sem blönduð var vikri. Eftir að hafa komið plöntunum fyrir, festum við járngrind framan á rammann til að styðja við þær. Við höfðum vegginn láréttan í fjórar vikur á meðan plönturnar voru að jafna sig. Síðan var hann reistur við og í lok sumars var veggurinn orðinn mjög blómlegur,“ segir Magnús.

Á síðasta ári gerðu þeir einnig stóran gróðurvegg fyrir Eflu, sem hægt var að berja augum á sýningunni Verk og vit. Veggurinn vakti mikla athygli og margir höfðu áhuga á að vita hvernig hann var búinn til. „Í honum voru rúmlega 250 plöntur sem við settum saman eftir ákveðnu mynstri. Hann er gerður úr vatnsheldri PVC-plötu, og tveimur lögum af dúkum er komið fyrir á honum. Um er að ræða svokallaðan vasavegg, vegna vasa á dúkunum. Þá er skorið í fremri dúkinn, plöntu komið fyrir og síðan heftað í kringum ræturnar þannig að vasi myndast í veggnum. Ræktunarjarðvegurinn er smá mold sem fylgir rótarkerfi plöntunnar. Innri dúkurinn er algjörlega vatnsheldur og ræturnar geta fest sig á honum. Vökvunarkerfið er dropaslanga með vatnsdælu og er hringrásarkerfi, en veggurinn er vökvaður einu sinni á dag,“ upplýsir Magnús en veggurinn er nú í höfuðstöðvum Eflu.

Nánar má lesa um gróðurveggi og tilraunir þeirra félaga á heimasíðunni www.horticum.is

Sjá einnig greinina Lifandi Listaverk til að vita meira um plöntuveggi. 

Þessi grein er úr vorblaði Lifum betur - Í boði náttúrunnar 2019