Skemmtilegar tilraunir heimavið
Magnús Bjarklind, skrúðgarðyrkjumeistari, er einn þeirra sem hefur góða þekkingu á plöntuveggjum, og hefur byggt nokkra slíka veggi. Þeir byggðu meðal annars vegginn í Perlunni sem greinin Lifandi Listaverk fjallar betur um. „Við Baldur Guðlaugsson, vinnufélagi minn, höfum verið að nördast aðeins saman í þessu. Í fyrrasumar ákváðum við að prófa að gera kryddjurtavegg úti í garði hjá mér. Við bjuggum hann til úr fíberdúkum, en botninn var úr vatnsheldri PVC-plötu. Veggurinn var einn og hálfur fermetri að stærð, með einföldu, innbyggðu vökvunarkerfi. Við settum 64 plöntur í hann; tvær tegundir af salvíu, óregoni og steinselju, þrjár mismunandi gerðir af timíjan og eina tegund af hjartafró, mintu og estragoni. Við settum einnig tvær tegundir af jarðarberjaplöntum í vegginn, og það kom okkur skemmtilega á óvart hversu vel þær döfnuðu,“ segir Magnús. Þeir félagar vinna saman hjá verkfræðistofunni Eflu, m.a. við að hanna og smíða plöntuveggi.
Við bjuggum hann til úr fíberdúkum, en botninn var úr vatnsheldri PVC-plötu. Veggurinn var einn og hálfur fermetri að stærð, með einföldu, innbyggðu vökvunarkerfi.
Þeir Baldur prófuðu einnig að búa til einfaldan gróðurvegg sem var hafður utandyra yfir sumartímann. Hann var settur saman úr einfaldri trégrind með vatnsheldum krossviði í bakið. „Í þann vegg notuðum við berghnoðra, helluhnoðra, bergfléttu, rottueyra, ljónslappa og jarðarberjaplöntur. Fyrst smíðuðum við timburramma, og í hann settum við mold, sem blönduð var vikri. Eftir að hafa komið plöntunum fyrir, festum við járngrind framan á rammann til að styðja við þær. Við höfðum vegginn láréttan í fjórar vikur á meðan plönturnar voru að jafna sig. Síðan var hann reistur við og í lok sumars var veggurinn orðinn mjög blómlegur,“ segir Magnús.