Perlan
Plöntuveggurinn í Perlunni var settur upp 2018 og hefur hann vakið mikla athygli, enda setur hann sterkan svip á umhverfið, sem einkennist af gleri og stáli. Á þeim vegg eru um 2500 mismunandi plöntur, svo sem burkni, friðarlilja, heimilisfriður, mánagull og þúsund barna móðir. Veggurinn er í stöðugri þróun en búið er að skipta um nokkrar plöntur sem ekki hafa þrifist nógu vel á honum. Mismunandi birtustig er inni í Perlunni og það hefur m.a. áhrif á það hvernig plönturnar dafna. Veggurinn er búinn sjálfvirku vökvunarkerfi sem vökvar þær á 10 til 20 mínútna fresti.