Lifandi listaverk

TEXTI Sigríður Inga Sigurðardóttir MYNDIR Magnús Bjarklind

Áhuginn á plöntuveggjum hefur farið ört vaxandi á síðastliðnum árum, enda setja þeir mikinn svip á umhverfið, hvort sem þeir eru innan- eða utandyra. Það er að mörgu að hyggja þegar slíkir veggir eru settir upp, og ekki hægt að kasta til hendinni við slík listaverk.

Plöntuveggir, stundum kallaðir lóðréttir garðar eða gróðurveggir, njóta sífellt meiri vinsælda hér á landi. Þegar vel tekst til eru slíkir veggir ekki einungis fallegt listaverk heldur hafa þeir góð áhrif á nærumhverfi sitt, skapa hlýlegt andrúmsloft og hafa jákvæð áhrif á hljóðvist og loftgæði, enda eru plöntur náttúruleg loftræsting. Hér fyrir neðan má sjá nokkra veglega plöntuveggi sem settir hafa verið upp hérlendis þar sem uppsetning og hönnun er í höndum fagfólks.

Fjórir ólíkir plöntuveggir

Stúdentakjallarinn

Plöntuveggurinn í Stúdentakjallaranum var settur upp fyrir nokkrum árum. Hann hefur lengst af verið bústinn og blómlegur, og lífgað upp á tilveru stúdenta. Hollenskt fyrirtæki, Wonderwalls, sá um hönnun hans en það var Rúna Kristinsdóttir, hönnuður Stúdentakjallarans, sem fékk þá hugmynd að setja upp plöntuvegg til að auka birtu og hlýju í Kjallaranum. Veggurinn er búinn sjálfvirku vökvunarkerfi sem hefur streymt niður hann og tímastilltir ljóskastarar líkja eftir dags- og næturbirtu.

Perlan

Plöntuveggurinn í Perlunni var settur upp 2018 og hefur hann vakið mikla athygli, enda setur hann sterkan svip á umhverfið, sem einkennist af gleri og stáli. Á þeim vegg eru um 2500 mismunandi plöntur, svo sem burkni, friðarlilja, heimilisfriður, mánagull og þúsund barna móðir. Veggurinn er í stöðugri þróun en búið er að skipta um nokkrar plöntur sem ekki hafa þrifist nógu vel á honum. Mismunandi birtustig er inni í Perlunni og það hefur m.a. áhrif á það hvernig  plönturnar dafna. Veggurinn er búinn sjálfvirku vökvunarkerfi sem vökvar þær á 10 til 20 mínútna fresti.

Húsasmiðjan

Um ár er frá því að gróðurveggur fagmannaverslun Húsasmiðjunnar var tilbúinn. Hann er um 5,5 fermetrar að stærð og þar eru sex tegundir af plöntum, alls 200 talsins. Í þeim vegg er einnig sjálfvirkt vökvunar- og áburðarkerfi, og er veggurinn hreinasta listaverk.

Gróska

Plöntuveggurinn í hugmyndahúsinu Grósku var settur upp í janúar 2020 af Baldri Gunnlaugssyni og Magnúsi Bjarklind og setur svip sinn á þessa nýju byggingu í Vatnsmýrinni. Hann er 40 fermetrar að stærð með um 2100 plöntur eins og gullburkna, friðarliljur, klifursúrur, piparskott og dvergfíkusa. Vökvunarkerfi og stýringar nefnist Hydrawise og eru frá Flux-vökvun ehf. Kerfið stýrir vökvun, vaktar flæði og lætur vita í gegnum síma/app ef eitthvað fer úrskeðis. 

Ef þú hefur áhuga á að gera þinn eigin plöntuvegg þá er hægt að fá leiðbeiningar um það í grein okkar Þinn eigin plöntuveggur.

Þessi grein er úr vorblaði Lifum betur - Í boði náttúrunnar 2019