Tilfinningar, hugsanir og hvernig þú talar hefur miklu meiri áhrif á líf þitt en þú heldur. Í hvert skipti sem þú talar, hugsar eða finnur tilfinningar í tengslum við eitthvað, þá festist það betur í vöðva- og vefjaminni líkamans. Undirmeðvitund þín gerir engan greinarmun á því þegar þú ert að hugsa um eitthvað eða þegar þú upplifir eitthvað í raunveruleikanum.
Margir hafa djúpa tilfinningu fyrir að finnast þeir ekki eiga neitt skilið, né finnast þeir vera þess virði að vera heilsuhraustir, líða líkamlega vel, komast í rétta þyngd, vera hamingjusamir og upplifa allt það stórkostlega sem lífið hefur upp á að bjóða. Eins eru margir búnir að gera ráð fyrir og jafnvel ákveða ákveðin heilsubrest (t.d krabbamein) í framtíðinni með því að miða sig við foreldra og forfeður sína sem hafa orðið fyrir slíkum heilsubresti á lífsleiðinni. Það er ekki víst að þú sért meðvitaður um þessa tilfinningu og hún sé falin fyrir þér. Þetta trúarmynstur getur komið til vegna þess að okkur finnst við ekki vera meira virði en hinir í fjölskyldunni og þorum ekki að trúa á hið gagnstæða. Jafnvel þó að það séu sennilega jafn miklar líkur á því að við erfum ekki þennan heilsubrest.
Ef þú gefur líkamanum skilaboð um að vera heilbrigður þá eru meiri líkur á að hann sé heilbrigður því hann gegnir skilaboðunum.
Þú ert þess virði að lifa hamingjusömu lífi.
Þú ert þess virði að líða stórkostlega.
Þú ert þess virði að vera heilsuhraust/ur.
Þú ert þess virði að eiga góða vini.
Þú ert þess virði að hafa þann líkama sem þú óskar þér.
Þú ert þess virði að eiga nóg af peningum.
Þú ert þess virði að eiga góða fjölskyldu.
Þú ert þess virði að vera í draumastarfinu.
Þú ert þess virði að fólkið í kringum þig sýni þér ást, kærleika, virðingu og hlýju.
Þú ert þess virði að láta drauma þína rætast.
Þú ert þess virði að hafa líf þitt nákvæmlega eins og þú óskar þér.
Trúir þú því að þú sért þess virði að upplifa allt það magnaða sem lífið hefur upp á að bjóða? Getur verið að innst inni finnist þér þú ekki eiga það skilið og/eða sért ekki þess virði?
Þú verður virkilega að trúa því að þú sért þess virði og gera þér grein fyrir því hvað þú ert gjörsamlega mögnuð og einstök manneskja. Heldur þú að það sé einhverskonar happadrætti að sumir séu ríkir og aðrir ekki? Það fólk sem á peninga laðar þá inn í líf sitt með mögnuðu hugarfari, er fullt sjálfstrausts og finnst það vera þess virði og eiga hlutina skilið. Peningar kaupa ekki hamingju, það vita nú vonandi allir. Það sem ég er að fara með þessu dæmi er að fá þig til að átta þig á því að þú getur laðað hvað sem er í líf þitt með því að trúa á það, finnast þú vera þess virði og að þú eigir það skilið. Finnst þér þetta ekki magnað? Þú getur galdrað hvað sem er í líf þitt og þ.a.l. haft líf þitt nákvæmlega eins og þú vilt!
Það skiptir svo ótrúlega miklu máli að maður sé meðvitaður um að það sem maður segir, hugsar og hvert maður beinir tilfinningum sínum hefur áhrif. Ekki festast í volæði og í neikvæðum hugsunum. Hlúðu að líkamanum, nærðu hann með uppbyggilegum, kærleiksríkum og ástríkum hugsunum. Þú verður að trúa því að þú sért þess virði og þú eigir það besta skilið í lífinu. Þetta fer ekki eftir tilviljunum og heppni, þú laðar þá hluti að þér sem eru á sömu bylgjulengd og þú sjálf/ur. T.d. ef þú ert jákvæð/ur, finnst þér þú vera þess virði og ert full/ur sjálfstrausts þá muntu uppskera þá hluti í líf þitt sem eru á sömu bylgjulengd.
-Anna Guðný
(Heimild: Farsæld, heilbrigði og vellíðan – osk.is)