Vertu besta útgáfan af sjálfri/um þér

Við mannfólkið erum misjafnlega vel tengd okkur sjálfum. Sumir virðast þekkja víðáttu tilfinninga sinna út og inn á meðan aðrir skilja ekkert í viðbrögðum sínum þegar eitthvað kemur upp á í lífinu. Það er margt sem má bæta og þá langar mig að skoða hvað þarf til að þú leyfir þér að vera besta útgáfan af sjálfri/um þér.

Byrjaðu á því að hugleiða hvað það þýðir fyrir þig að vera besta mögulega útgáfan af þér? Kannski væri það að vera þolinmóðari við börnin þín, eða jafnvel borða hollari fæðu og hugsa betur um líkamann þinn. Fyrir einhverjum öðrum væri það kannski að leyfa sér hluti á meðan aðrir myndu jafnvel leyfa sér að spara peninginn sinn í stað þess að eyða honum hugsunarlaust. Við höfum öll ólíkar þarfir, enda má sjá þær strax frá fæðingu á milli systkina, sum börn þurfa jafnvel mikla snertingu á meðan að önnur vilja engan veginn að það sé verið að knúsa þau of mikið.

Til þess að geta orðið besta útgáfan af okkur sjálfum þá þurfum við að þekkja þarfir okkar, styrkleika, takmarkanir og mörk.

Við erum í rauninni alla okkar ævi að kynnast okkur sjálfum. En það sem mig langar að koma að í þessari grein er að við leyfum okkur að verða besta útgáfan af okkur sjálfum. Að leyfa sér að verða hamingjusamari, að finnast maður eiga það skilið að líða vel, að hugsa vel um sig og eiga gott líf.

Leyfðu þér..

Það er nefnilega alls ekki það sama að vita hvað maður getur gert til að líða betur og að leyfa sér að líða vel. Að leyfa sér, þýðir í rauninni sjálfsást. Þú þarft að elska þig mest af öllum í þínu lífi og þá getur þú leyft þér að borða hollt, leyft þér að ná velgengni, fundist þú eiga skilið allt það frábæra sem lífið hefur upp á að bjóða. Við erum nefnilega þau einu sem standa í vegi fyrir okkar eigin hamingju, enginn annar. Það getur verið þæginlegt að kenna öðrum um af hverju þú ert ekki að hugsa betur um þig, en á sama tíma er það mikið ófrelsi að vera háð samþykki annarra. Það vill heldur enginn innst inni, bera ábyrgð á hamingju og eða óhamingju annarrar manneskju.

Þetta er nefnilega mjög einfalt en þetta krefst hugrekkis og styrks sem við öll höfum innra með okkur, inn í kjarnanum okkar. Við höfum valdið til að breyta lífinu okkar til hins betra og það byrjar á því að við samþykkjum okkur nákvæmlega eins og við erum í dag. Við hefjum innilegt ástarsamband við okkur sjálf. Við þurfum að finna styrkinn og viljann til þess að segja skilið við myrkrið sem segir okkur að við eigum ekki það besta skilið, röddina sem segir okkur að við séum ekki nógu góð.

Framkvæmdu

Gott er að taka fram blað og penna og skrifa niður allt það sem við notum til að brjóta okkur niður; það getur verið annað fólk sem við höfum leyft að vera okkar æðri máttur, það geta verið atvik úr fortíðinni – jafnvel mistök sem þú hefur gert, það getur verið hvað sem er. Gott er að hugleiða vel þennan lista, vera eins heiðarlegur og einlægur og maður mögulega getur. Svo er ótrúlega mikilvægt að skoða listann sinn vel og finna hvort maður sé virkilega tilbúin/nn til þess að hleypa meiri ljósi inn í líf sitt og segja skilið við myrkrið. Þegar fúsleikinn er kominn þá er hægt að kveikja í blaðinu og eða sturta því niður, jafnvel setja það í flösku og fara niður að sjó. Þetta er ótrúlega kraftmikil heilunaraðferð á fortíðinni og ég get lofað ykkur því að ef þið hafið gert þetta heiðarlega og trúið því í hjartanu ykkar að þið viljið meira ljós og eruð tilbúin til þess að leyfa ykkur að verða hamingjusöm þá mun þetta virka.

Draugar fortíðarinnar munu banka upp á og reyna að draga þig aftur í gamla farið en fræ kærleikans sem þú hefur sáð í hjartanu þínu er sterkara og áhrifameira en myrkur fortíðarinnar.

Leyfðu þér að taka pláss í þessum heimi og að verða besta mögulega útgáfan af sjálfri þér, þú átt það skilið.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.