Andlegur einkaþjálfari

Hér áður fyrr voru þeir sem leituðu sér sálfræðiaðstoðar taldir vera alvarlega veikir. Í dag er sem betur fer viðhorfið annað. Fólk er óhræddara við að leita sér aðstoðar hjá sálfræðingi eða þerapista. Fólk leitar sér til dæmis aðstoðar vegna hjónabandserfiðleika, kvíða, þunglyndis, fjölskylduerfiðleika eða áfalla sem það hefur orðið fyrir. Það er gríðarlega mikilvægt að  finna rót vandans og bæla vandamálið ekki niður með lyfjum. Það þarf heldur alls ekki að vera neitt að angra mann til þess að maður ákveði að vinna í sjálfum sér. Þú getur einfaldlega bara verið á höttunum eftir meiri hamingju í lífinu til að geta fengið sem mest út úr lífinu og blómstrað.

Okkur er ætlað að eiga hamingjusamt líf og líða sem best á hverjum einasta degi. Okkur er ekki ætlað að vera óhamingjusöm og líða illa. Veitir þú því bara eftirtekt þegar þér líður illa? Ferðu í gegnum lífið með því að líða allt í lagi? Veistu hvað það er að líða stórkostlega og gjörsamlega blómstra í lífinu? Best af öllu við það að vera hamingjusamur er að þú smitar fólkið í kringum þig. Alveg eins og þú kemur fólkinu í kringum þig í vont skap þegar þú ert neikvæð/ur og í vondu skapi. Ekki viltu vera stanslaus neikvæð orkuuppspretta fyrir fólkið í kringum þig?

Veitir þú því bara eftirtekt þegar þér líður illa?

Til þess að öðlast hamingjusamt líf og blómstra á hverjum degi þarftu að fá hugarfarsbreytingu, sjá hlutina öðruvísi og lífið í nýju ljósi. Ég náði því markmiði með því að fara til þerapista fyrir tveimur árum, þá aðeins 20 ára gömul. Ég fór til Guðbjargar Óskar þerapista í þerapíuna ,,Lærðu að elska sjálfa/n þig’’. Ósk náði að leiðbeina mér í farveg sem breytti lífi mínu til batnaðar. Hún notar magnaðar aðferðir til að hjálpa manni að breyta hugarfarinu, hegðun og finna tilgang manns í lífinu. Hún útskýrði fyrir mér hluti á mjög einfaldan hátt og kenndi mér nýjan hugsunarhátt. 

Ég er gríðarlega þakklát fyrir að hafa hafið þessa vinnu svona ung og geta bætt við hana á komandi árum. Það er mjög algengt að fólk byrji ekki að huga að andlega þættinum og vinna í sjálfum sér fyrr en það er komið með sjúkdóm eða aðra kvilla. Það er oft talað um að sjúkdómar eigi uppsprettu sína í röngu hugarfari (biturleika, reiði, að fyrirgefa ekki og fl.) einstaklinga og er því alveg jafn mikilvægt að vinna í sjálfum sér þegar maður fær sjúkdóm eða veikindi eins og að borða rétt. Ég fæ alveg jafn mikil líkamleg viðbrögð þegar eitthvað er að angra mig andlega eins og þegar ég borða unna og óhreina fæðu.

Ekki bíða eftir að þú verðir veik/ur

En afhverju að bíða þangað til þú færð sjúkdóm eða aðra kvilla? Því ekki að hefja þessa vinnu strax í dag og geta gjörsamlega blómstrað í lífinu og hugsað um lífið á einfaldari hátt framvegis? Það er aldrei of seint að byrja að vinna í sjálfum sér og þar skiptir hvorki aldur né kyn máli. Staðreyndin er þó sú að því fyrr sem þú byrjar að vinna í sjálfum þér, því fyrr munt þú eiga hamingjusamt líf. Þér mun líða betur í starfi, hugsa hlutina út frá sjálf-ri/um þér, verða kærleiksríkari, þakklátari fyrir fólkið í kringum þig, skilja fólkið í kringum þig, skilja hegðun fólks, gera hluti sem ÞIG langar til að gera, líta á lífið með öðru ljósi, þú munt þora og áður en þú veist af munt þú að upplifa drauma lífið þitt.

Þörf á andlegum einkaþjálfara

Manneskja sem er mér mjög kær sá hversu mikið betur mér leið eftir að hafa farið í gegnum þerapíuna og ákvað að skella sér líka. Í dag er hún að kenna þerapíuna ,,Lærðu að elska sjálfa/n þig’’ hjá Ósk og er að finna undir nafninu Andlegur einkaþjálfari á Facebook. Hún skýrði svo frábærlega út þar, og verð ég að deila því með ykkur, að þegar við förum í ræktina þá snýst maður í hringi því maður veit ekkert hvar maður á að byrja og hvaða æfingar maður eigi að gera. Maður þarf þjálfara til að kenna manni á tækin og sýna manni æfingar. Um leið og þjálfarinn er farinn er maður góður við sjálfan sig og ekki eins harður í æfingunum og þegar hann er. Maður þarf einkaþjálfara til að koma manni í gegnum æfingarnar til að fá sem mest út úr þeim. Þetta er alveg eins þegar maður er að vinna í sjálfum sér, maður les bækur, reynir að vera jákvæður í lífinu en manni vantar leiðsögn. Þú ert ekki eins dugleg/ur að vinna í sjálfum þér án þess og veist ekki hvar þú átt að byrja án leiðsagnar. Maður þarf alveg jafn mikinn einkaþjálfara þar og í ræktinni.

Ekki bíða þar til það er orðið of seint, byrjaðu strax í dag og taktu skref í rétta átt. Þó það sé ekki nema að lesa greinar, bækur eða horfa á myndir á sviði sjálfshjálpar. Þú munt ekki sjá eftir því. Þú komst ekki í þennan heim til að vinna, borða og sofa. Það er á hreinu.

Tögg úr greininni
, ,

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.