Það er ekki nýtt af nálinni að nýta jurtir til að lækna hina ýmsu kvilla, bæði stóra og smáa. Kraftmiklar jurtaremedíur héldu veiðimönnum ættbálka hraustum og sterkum, gerðu að sárum þeirra og læknuðu hina ýmsu sjúkdóma.
Í dag er áhugi fólks á jurtalækningum aftur að aukast og við virðumst flest opnari og/eða viljum frekar gefa náttúrulegum lækningum tækifæri og treysta ekki einungins á nútíma lækningaraðferðir og lyf.
Lífræn hágæða jurtate eru einfaldasta leiðin til að gera þína eigin jurtaremedíu hratt og örugglega í eldhúsinu heima. Flestar stórverslanir bjóða uppá gott úrval af tilbúnu jurtatei og eins bjóða flestar heilsubúðir uppá úrval af þurrkuðum jurtum sem þú getur notað til að gera þínar eigin galdrablöndur.
Róandi Jurtate, fullkomið að fá sér áður en maður hugleiðir eða fyrir svefninn:
Í pott eða Tekönnu, blandaðu saman:
1 tsk þurrkuð kamillublóm
1 tsk þurrkað sítrónugras
½ tsk þurrkuð piparmynta
1 heill negulnagli
2 dl sjóðandi vatn
Látið malla í að minnsta kosti 5 mínútur og síið í gegnum tesíu. Sumir vilja bæta við sætu og þá er gott að nota hunang eða stevíu til þess.
Kostir blöndunnar:
Negull er mikið notaður í Indverskum Ayurvedic lækningum við vandamálum tengdum meltingu og auk þess getur negullinn verið prýðilegt verkjalyf.
Sítrónugrasið hefur marga frábæra eiginleika. Þar má nefna; róandi áhrif þess á vöðva og einnig er það talið hafa góð áhrif á þunglyndi og vinna vel gegn kvíða og streitu. Það hefur hreinsandi áhrif á lifrina, berst gegn sveppasýkingum og A vítamínið í því gerir kraftaverk fyrir húðina. Svo sítrónugrasið er mikilvægt í þessa heimagerðu töfrablöndu.
Piparmyntan, fyrir utan að vera sérstaklega bragðgóð er talin hafa róandi áhrif á allan líkamann, slaka á vöðvum og vinna gegn meltinga- og svefntruflunum. Einnig er myntan full af kalki, B-vítamínum og kalíum sem hjálpar til við að sporna gegn eða vonandi komast hjá flensunni sem á það til að herja á okkur, á þessum fyrstu mánuðum árs.
Kamillublómið inniheldur róandi ilmkjarnaolíur sem hjálpa til við svefn og koma jafnvægi á magann. Að drekka kamillute á hverju kvöldi fyrir svefninn er góður vani og ómissandi að okkar mati. Afganginn af kamillu teinu má svo nýta, því kamillute er einstaklega hentugt til að hreinsa húðina og halda henni ungri. En í næsta pistli munum við skrifa um kvöldhefðir okkar þegar kemur að húðhreinsun sem eru bæði ódýrar og náttúrulegar.
Til að auka við áhrif blöndunnar er gott að gera eftirfarandi;
Setjist niður á rólegum stað með teppi yfir ykkur og kveikið á kerti, klárið tebollann og farið á meðan með þessa möntru sem róar hugann og eykur einbeitinguna:
„Ég breyti hugsunum mínum, ég breyti heiminum“
Andið inn um nefið og út um muninn og einbeitið ykkur að eigin andadrætti og þriðja auganu. (Þriðja augað er staðstett á miðju enni rétt fyrir ofan augabrúnirnar)
Njótið vel og munið að góð slökun er gulls ígildi.