Þegar vetur gengur í garð er líkt og ónæmiskerfi allrar þjóðarinnar fari í uppnám. Það fer að leka úr litlum jafnt sem stórum nefjum, hóstaköst halda vöku fyrir heilu fjölskyldunum, vinna leggst niður vegna hitatoppa. Hér koma nokkur góð húsráð við kvefi, en margt leynist í eldhúsinu heima.
Kvef
Það er alltaf áhrifaríkast að byrja meðferð um leið og fyrstu einkenni finnast en þannig getur maður annaðhvort komið í veg fyrir veikindin eða stytt tímann sem það tekur að jafna sig. Kvef smitast fyrst og fremst með handasnertingu og því er mikilvægt að þvo sér reglulega um hendurnar. Það er gott að sneiða hjá slímmyndandi mat eins og mjólkurvörum, banönum og appelsínum (þær geta valdið ofnæmi). Einnig ber að forðast allan unninn sykur því hann veikir ónæmiskerfið. En mikilvægt er að hvílast vel á meðan pestin gengur yfir annars er hætta á því að veikindin dragist á langinn. Sýklalyf duga ekki gegn kvefvírusum en ef kvefið virðist ekki vera að batna eftir 10 daga þá gæti verið um bakteríusýkingu að ræða (oft í ennisholum) og borgar sig þá að fara til læknis.
LAUKUR: Skerið hálfan lauk í búta og setjið inn í grisju eða sokk og leggið á koddann þegar farið er að sofa. Laukurinn getur ráðið niðurlögum kvefs ef hann er notaður strax í upphafi veikinda.
HVÍTLAUKUR: Hrár hvítlaukur virkar betur en eldaður. Kreistið 2 -3 hvítlauksrif og setjið saman við olíu. Takið inn með skeið eða setjið hann út í mat. Einnig er gott að gera te. Setjið þá heitt vatn í bolla og kreistið 2 hvítlauksrif út í og látið standa í eina eða tvær mínútur. Bætið teskeið af hunangi út í og drekkið. Endurtakið eftir þörfum. Gott er að setja tvo dropa af hvítlauksolíu í nefið og leggjast aftur í fimm mínútur, það dregur úr hættu á að sýkingin fari út í eyru.
TÓMATSAFA TE: Blandið saman einu glasi af tómatsafa, safa úr tveimur sítrónum, tveimur kreistum hvítlauksrifjum, tveimur matskeiðum af hunangi og örlitlu af cayenne pipar. Setjið í pott og hitið við vægan hita í nokkrar mínútur og drekkið nokkrum sinnum yfir daginn. Stillið styrkleika eftir þörfum. Virkar einnig vel á hósta, hálsbólgu og eyrnabólgu.
VATNSGUFA: Setjið sjóðandi vatn í skál og andið gufunni að ykkur. Hyljið höfuðið með handklæði. Gott er að setja 2-5 dropa af eucalyptus, piparmintu eða lavender ilmkjarnaolíu út í. Fyrir ung börn er gott að láta heitt vatn renna inni á baðherbergi með lokaðri hurð og búa til nokkurs konar gufubað. Endurtakið 2 -3 sinnum yfir daginn.
SALTVATN: Volgt saltvatn getur getur losað um stíflað nef. Setjið 1 tsk. af salti út í glas af vatni og hrærið. Saltvatninu er síðan hellt upp í aðra nösina með svokölluðum “netti pot”. Ef þessi sérstaka kanna er ekki til á heimilinu (fæst í heilsubúðum) þá er hægt að nota stóra plastsprautu. Hallið höfðinu niður yfir vaskinn og sprautið vatninu inn í aðra nösina og fljótlega fer að renna út um hina og þannig hreinsar og losar saltvatnið um slím og annan óþverra. Gott að gera þetta reglulega á meðan á kvefinu stendur. Þetta heldur líka raka í nefgöngunum og þá eiga bakteríur erfiðar uppdráttar. Virkar einnig vel til að halda gróðurofnæmi í skefjum.
C VÍTAMÍN BÚST: Gott er að blanda saman C-vítamínríkum ávöxtum eins og kíví, jarðarberjum og sítrónu og búa til bragðgóðan ávaxtahristing. Það er gott að þynna hann með vatni fyrir krakka.
KJÚKLINGASÚPA: Sterk kjúklingasúpa (ekki úr dós) með nóg af chili eða cayenne pipar hjálpar til við að þynna og losa um slím í lungum.
VATN: Drekka vel af vatni (6-8 glös á dag) og kreista jafnvel sítrónu út í.
TE: Nokkrar tegundir tes eru góðar við kvefi og flensu eins og til dæmis lakkrís te og grænt te.
Sjá einnig Eldhúsapótekið: Hósti
Þessi grein er úr vetrarblaði Lifum Betur – í boði náttúrunnar 2010