Handverkið í heiðri haft

Húsgagnasmiðirnir Dagný Elsa Einarsdóttir og Magnús Ólafsson starfa undir merkjum Demo handverk. Þeim er umhugað um að viðhalda íslenskri handverkshefð og hafa í því skyni fært gamla jólatréð í endurnýjun lífdaga.

Margir minnast með hlýju heimasmíðuðu jólatrjánna sem tíðkuðust á íslenskum heimilum á fyrri hluta 20. aldar, áður en grenitréð kom til sögunnar. Tré þessi voru útbúin úr því sem til féll og klædd með mosa eða lyngi. Síðan voru þau skreytt á ýmsa vegu, til dæmis með kertum, fléttuðum hjörtum eða kramarhúsum. Hjá hönnunarfyrirtækinu Demo handverk hefur þessi hefð verið endurvakin af mikilli hugsjón og alúð. Eigendur þess eru þau Magnús Ólafsson húsgagnasmíðameistari og Dagný Elsa Einarsdóttir, sem hefur lagt stund á nám í húsgagnasmíði, ásamt námi við Hönnunar- og Handverksskólann.

 “Við erum mikið áhugafólk um íslenska handverkshefð og óttumst að verkkunnáttan falli í gleymskunnar dá sé ekkert að gert,”

“Við erum mikið áhugafólk um íslenska handverkshefð og óttumst að verkkunnáttan falli í gleymskunnar dá sé ekkert að gert,” segir Dagný Elsa. “Við heimsóttum því Árbæjarsafn og fengum að kíkja í geymslurnar. Þar sáum við fjöldann allan af gömlum jólatrjám af þessari gerð. Þau voru misjöfn – fólk bjó að sjálfsögðu yfir mismikilli smíðakunnáttu en hafði bjargað sér sem best það gat. Með þau til grundvallar gátum við hannað tré sem henta til nútímabrúks. Við bættum líka við ýmsum atriðum, til dæmis pinnum á greinarnar svo að skrautið héldist á.”

Árið 2011 hófu þau vöruþróunina en fyrstu trén seldu fyrir jólin 2012 í Aurum. Voru þau að auki notuð í útstillingarglugga verslunarinnar. Þau vöktu mikinn áhuga almennings og fylltist eldra fólkið fortíðarþrá, að þeirra sögn “Í fyrra sinntum við öðrum verkefnum og höfðum því ekki trén á boðstólum. En í ár byrjaði fólk snemma að reyna að hafa uppi á þeim; þau höfðu greinilega setið sem fastast í huga þess.”

Trén eru handsmíðuð úr furu eða ösp og er hvert þeirra númerað til að undirstrika það. Hægt er að fá þau ómáluð eða þá handmáluð í ljós- eða dökkgrænum lit.Og stærðirnar eru þrjár: Yrki (45 sm), Þöll (65 sm) og Þinur (110 sm).

Trjén koma ósamsett í fallegum strigapokum, sem eykur enn á stemmninguna. Lítið fer því fyrir þeim þegar þau eru ekki í notkun. “Minni trén er að sjálfsögðu hægt að nota allt árið, til dæmis fyrir skart. Þau hafa líka verið vinsæl í veislur, enda má skreyta þau með hvaða þema sem er,” segir Dagný Elsa að lokum.

Hægt er að fá nánari upplýsingar á vefsíðu þeirra: www.demohandverk.is

 

Texti: Ásta Andrésdóttir

 

 

 

 

Tögg úr greininni
, , , , ,