Landnámshænur í bænum!

Dreymir þig um að geta gengið út í garð og fengið nýverpt egg úr þínum eigin hamingjusömu landnámshænum? Það þarf ekki endilega að vera fjarlægur draumur. Það sem til þarf, fyrir utan hænurnar, er leyfi frá þartilbærum yfirvöldum, nágrönnum, góður hænsnakofi, lítil grasflöt og framleiðslan getur hafist. 

Undanfarin ár hefur áhugi fólks á hænsnahaldi aukist til muna og víða má finna hamingjusamar hænur í húsagörðum í þéttbýli. Í bakgarðinum hjá Hrafnhildi Vigfúsdóttur og fjölskyldu í Reykáshverfi í Eyjafjarðarsveit hafa nokkrar hænur lifað góðu lífi um nokkurt skeið og launað eigendum sínum vel með eggjum. Í fyrstu fékk Hrafnhildur þrettán hænuunga en þeim fækkaði fljótlega þegar í ljós kom hvers kyns þeir voru. „Sú sem við fengum eggin hjá sótti þá unga sem ljóst var að væru karlkyns. Við sáum það ekki fyrr en þeir reyndu að hoppa á hænurnar,“ segir Hrafnhildur og bætir við að hanagalið komi líka upp um þá. „Við fáum að lágmarki fimm egg á dag og þegar við hleypum hænunum út fyrir gerðið er eins og þær launi það með einu eða tveimur eggjum að auki. Þær kætast mjög þegar þær fá að fara út fyrir gerðið,“ segir Hrafnhildur kankvís en viðurkennir að það geti tekið á að ná hænunum heim í kofa aftur. „Við þurfum stundum að eltast við þær í klukkutíma til að ná þeim inn aftur,“ segir hún. Hænurnar eru duglegar að plokka upp og éta illgresi og er engu líkara en að þaulvanur garðyrkjumaður hafi hreinsað rabarbarabeðið hjá Hrafnhildi en þar voru hænurnar að verki. Hins vegar verður að halda þeim frá matjurtagarðinum svo að þær gæði sér ekki á því sem þar vex. Hrafnhildur segir hænurnar sækjast eftir að verpa á sama stað og þær verpi oft í sama hólfið á meðan önnur hólf standi óhreyfð. Úrgangurinn frá hænunum er notaður sem áburður í garðinn og segir Hrafnhildur auðvelt að hreinsa til eftir hænurnar. Spurð hvernig hafi gengið að fá leyfi fyrir hænunum segir hún það ekki hafa verið mikið mál. „Við fengum leyfi og töluðum við alla í götunni okkar. Það var auðfengið, svo framarlega sem við værum ekki með hana. Í fyrstu veltum við því fyrir okkur að vera líka með hana en hurfum frá þeim áformum því haninn skapar allt aðra stemningu og hænurnar verða stressaðar. Þær gefa okkur egg daglega, fyrir utan tímabil þar sem varpið dettur niður hjá þeim. Frá ágúst og fram í janúar höfum við t.d. ekki fengið egg,“ segir Hrafnhildur, sem hefur gaman af hænsnahaldinu, líkt og Sigurvin Jónsson, sem býr ásamt eiginkonu sinni, börnum, hananum Hrólfi og níu hænum á Eyrinni á Akureyri.

hæns

„Hænurnar falla vel inn í umhverfið á Eyrinni,“ segir Sigurvin glettinn og nefnir að einn nágranninn hafi verið tvístígandi þegar hann sóttist eftir að fá að halda hænur. „En ég gef honum reglulega egg og þá er málið dautt! Eldra fólkið hér í nágrenninu er líka ánægt með að heyra hanagalið, sem minnir það á sveitina. Ég er með níu hænur en hef leyfi fyrir fimmtán. Ég vildi hafa vaðið fyrir neðan mig svo það yrði ekkert vesen. Hingað kom maður frá eftirlitinu og tók allt út. Mér finnst ekkert mæla á móti því að halda hænur,“ segir Sigurvin, sem hefur haldið fyrirlestra um hænsnahald til að breiða út fagnaðarerindið. Hann segist ekki vera bundinn yfir hænunum því nágrannarnir líti eftir þeim þegar fjölskyldan er að heiman. Hænurnar eru greinilega mjög hamingjusamar því þær hafa gefið um 600 egg frá áramótum. „Fyrir jólin fór ég til þeirra og sagði þeim að nú þyrfti egg í jólabaksturinn og þær fóru þá að verpa eins og hríðskotabyssur. Það var ekki pláss fyrir bjór í ísskápnum fyrir eggjum,“ segir hann hlæjandi og bætir við að eiginkonan sé orðin Íslandsmeistari í marensbotnabakstri, enda sé meiriháttar gott að baka úr nýverptum eggjum. Í bakgarðinum eru ekki aðeins hænur heldur eru þau hjón áhugasöm um ræktun. „Draumurinn er að geta notað allt sem við erum með í garðinum, en hann er orðinn sambland af nytja- og ævintýragarði fyrir börnin. Við erum með eplatré, plómutré, kirsuberjatré og jarðarber. Eitt sinn setti ég niður belgbaunir og hænurnar voru mjög hrifnar af þeim.“ Sigurvin smíðaði hænsnakofann úr vörubrettum sem voru fylltar með ull og síðan klæddar með krossviðarplötum.

image-6Greinin birtist fyrst í vorblaði Í boði náttúrunnar 2014 – aðeins örfá eintök til á aðeins 850 kr

Hallur Gunnarsson og Andrea Hjálmsdóttir, sem búa á Brekkunni, nota lítið garðhýsi úr Húsasmiðjunni sem hænsnakofa fyrir sínar hænur. „Eftir breytingarnar fóru krakkarnir að sýna þessum kofa miklu meiri athygli,“ segja þau, en meðal annars var sett torfþak á kofann. „Við erum með vökvunarkerfi sem vökvar grasið,“ segir Hallur en þau eiga fjórar hænur. „Þeim er reyndar ekki hleypt út úr kofanum. Ég treysti þeim ekki nógu vel og vantar hanann til að fá þær inn aftur. Mig langar samt til að girða garðinn og leyfa þeim að vera lausum,“ segir Hallur. Andrea segir hænurnar gefa um þrjú egg á dag en þau fengu tvær fullorðnar hænur og tvo unga. „Hænurnar fóru að verpa um tveimur vikum eftir að þær komu hingað. Það er alveg ljóst hvernig goggunarröðin er því að hún er mjög sterk. Þær yngri verða greinilega fyrir einelti af hálfu þeirra eldri,“ segir Andrea. Þau hjón eru sammála um að lítið sé haft fyrir hænsnahaldinu en þau fengu leyfi hjá bænum, sem var auðsótt. „Það eru ekki meiri læti í hænunum en t.d. skellinöðrum.“ En hvaða ráð geta þau gefið þeim sem vilja fá sér hænur? „ Þetta er miklu minna mál en ég hélt. Við getum skroppið í burtu í tvo til þrjá daga án nokkurra vandræða. Við mælum með að í upphafi sé vandað vel til verks og búið vel um hænurnar,“ segja þau að lokum.

——————-

Má hafa hænur í húsagarðinum? 

Það er mismunandi eftir sveitafélögum hvort leyft er að halda hænur og við hjá ÍBN hvetjum þá sem hafa áhuga á að koma sér upp hænum að kanna það í sínum heimabæ.

–       Í Reykjavík var bannað að hafa hænur þar sem hænur voru skilgreindar sem búfé en í síðustu viku fékk íbúi á Njálsgötu leyfi til að halda tvær hænur vegna samþykktar frá því í september í fyrra, þar sem má halda fjórar hænur á hverri lóð en hönum er eftir sem áður úthýst úr þéttbýlinu, utan landbúnaðarsvæða í Reykjavík.

–       Í sveitarfélaginu Árborg má hafa hænur en það þarf að sækja um leyfi og jafnframt að hafa samþykki nágranna fyrir hænsnahaldi. Hanar eru ekki leyfðir.

–       Á Ísafirði er ekkert sem bannar hænsnahald. Ekki þarf leyfi til að reisa lítinn hænsnakofa en þó er mælt með því að þetta sé gert í sátt við nágranna.

–       Á Akureyri þarf búfjárleyfi fyrir hænsnahaldi.

–       Á Egilsstöðum er nýbúið að samþykkja að leyfa hænsnahald og þarf að sækja um sérstakt leyfi til þess hjá bænum.

Hvar er hægt að kaupa hænur?

Hægt er að kaupa hænur á ýmsum stöðum. Við mælum með því að áhugasamir spyrjist fyrir um það hjá þeim sem þegar eiga hænur eða leiti upplýsinga á netinu. Sums staðar er hægt að fá hænur í fóstur, t.d. yfir sumartímann.

Texti Sigríður Inga Sigurðardóttir
Myndir Guðbjörg Gissurardóttir

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.