Fangaðu drauminn

Margir Indíánar trúa því að loft næturinnar sé fullt af draumum, bæði 
slæmum og góðum. Úr þjóðsögum þeirra spratt draumafangarinn sem margir 
Íslendingar hafa heillast af, mögulega vegna aldagamals áhuga okkar á 
draumum og ráðningum þeirra.
 (Greinin birtist fyrst í sumarblaði Í boði náttúrunnar 2015)

IMG_0430

Uppruni draumafangarans er rakinn til indíánaættbálksins Ojibwe en komst í 
hendur fleiri ættbálka í gegnum giftingar og vöruskipti. Það var þó ekki 
fyrr en í indíánahreyfingu á sjöunda áratugnum, þar sem þjóðflokkar 
sameinuðust, sem draumafangarinn dreifðist verulega. Sumir líta á hann sem tákn um einingu ættbálka indíána og tákn þjóðarinnar sem fyrst byggði Ameríku.

Ojibwe-þjóðflokkurinn á sér gamla goðsögu um uppruna draumafangarans. 
Sagan er af köngulóarkonunni, Asibikaashi.

Ojibwe-þjóðflokkurinn á sér gamla goðsögu um uppruna draumafangarans. 
Sagan er af köngulóarkonunni, Asibikaashi. Hún var talin sjá um öryggi 
barnanna. Þjóðflokkurinn breiddi svo verulega úr sér til 
Norður-Ameríku og víðar og þá varð of erfitt fyrir Asibikaashi að ná til 
allra barnanna og vernda þau. Mæður og ömmur tóku sig þá til og vöfðu 
töfravefi fyrir börnin, úr viðarhringjum og plöntuþráðum. 
Hringurinn er heilagt form hjá indíánum og því var sjálfsagt að vinna út 
frá því. Draumafangarinn átti að vernda börn og fullorðna gegn vondum 
draumum en leyfa góðum hugsunum og draumförum aðgang að huganum og 
koma þannig í stað Asibikaashi.

Samkvæmt hefðinni á draumafangarinn að vera fyrir ofan 
rúmstokk við höfðagaflinn og fanga draumana er þeir fljúga hjá. 
Indíánar segja að góðir draumar kunni að smeygja sér í gegnum göt 
fangarans en þeir slæmu festist í netinu. Fallegu draumarnir komast þá í 
gegnum gatið í miðju draumafangarans, renna niður fjaðrirnar og í huga 
einstaklingsins sem sefur rótt fyrir neðan. Neikvæðir draumar og 
martraðir festast í vefnum og eyðast svo upp þegar fyrstu sólargeislarnir 
skína á þá.

Íslendingar hafa lengi heillast af hefðum indíána. 
Draumafangarinn, eða andafælan eins og hluturinn er kallaður í íslenskri 
orðabók, er vel þekktur hér á landi og prýðir mörg 
íslensk heimili. Áhugi okkar Íslendinga á draumum, draumaráðningum og 
þjóðsögum spilar væntanlega þar inn í. Við rákumst á þennan fallega 
draumafangara á ljósmyndinni á ólíklegasta stað, á listsýningu í 
síldarverksmiðjunni á Djúpavík.

IMG_0428
Draumafangari Dagmar Hasler



BÚÐU TIL ÞINN EIGIN:


Farðu út í náttúruna og tíndu allt sem heillar þig og þú gætir mögulega 
notað til að búa til draumafangarann. Notaðu hring sem þú átt, eða búðu 
hann til úr grein, og skreyttu hann með því sem þú finnur og talar 
til þín. Fjaðrir, örvar, perlur og skeljar fara vel á draumafangara en 
þú getur gefið ímyndunaraflinu lausan tauminn og gert hann eins skrautlegan og 
þú vilt!

MYNDIR: Guðbjörg Gissurardóttir